Þriðjudagur 23. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Skrímsli stór og smá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvað rekur ofbeldismenn áfram? Líklega hafa allir spurt sig þessarar spurningar, enda flestum gersamlega ómögulegt að skilja af hverju sumir virðast njóta þess að niðurlægja aðra og kvelja þá algjörlega að ástæðulausu. Ofbeldi brýtur niður þann sem verður fyrir því og margir fara út í lífið skaddaðir eftir einelti í æsku. Erfiðlega gengur að uppræta það í skólum landsins þótt allir séu meðvitaðir um vandann og ýmiss konar áætlanir, aðgerðir og ráð séu til staðar til að vinna í þessum málum. Allt strandar þetta, að því er virðist á því að ofbeldisbullan sér ekki neitt rangt í hegðun sinni.

Nýlega kynnti ung kona, Drífa Jónsdóttir, niðurstöður rannsóknar sinnar á ofbeldismönnum og í viðtali sagði hún að þessir menn væru engin skrímsli. Þeir teldu sig ekki illmenni og vöknuðu ekki hvern morgun og hugsuðu með sér; í dag ætla ég að vera vondur við konuna mína.

Sennilega er þetta fullkomlega rétt. Þetta eru venjulegir menn með ofurhversdagsleg vandamál og þeir ætla ekki að morgni að ráðast á aðra manneskju og misþyrma henni en engu að síður gera þeir það. Þeir berja börnin sín úr móðurkviði, beinbrjóta konurnar sínar, sprengja í þeim hljóðhimnuna, gefa þeim glóðarauga og blóðnasir og í verstu tilfellum drepa þeir þær. Og þetta er ekki allt. Þeir halda þeim í stöðugum ótta, niðurlægja þær og skekkja sjálfsmynd þeirra. Í mínum huga er þetta lýsing á skrímslum, risastórum skrímslum.

Smærri mynd af sams konar hugsunarhætti birtist svo í börnunum á skólalóðinni sem geta hugsað sér að stríða skólafélaga sínum vægðarlaust, kvelja hann og niðurlægja og iðulega beita líkamlegu ofbeldi líka. Mörg dæmi eru um, líka hér á Íslandi, að þeir sem fyrir slíku verða endi með að svipta sig lífi. Hvernig kemur það við ofbeldisbulluna? Snertir það hana á einhvern hátt? Erfitt að segja vegna þess að eitt þeirra ráða sem reynt er að beita til að hamla gegn einelti er að sýna bullunni hvaða áhrif hegðun hans hefur á þolandann. Stundum dugar það til, stundum ekki.

Sigríður Kolbrún Kristinsdóttir þoldi miskunnarlaust ofbeldi alla sína grunnskólagöngu. Sextán ára gerði hún tilraun til að svipta sig lífi. Sjálfstraustið var ekkert og hún þjáðist af kvíða og þunglyndi. Hún fékk hjálp á Barna- og unglingageðdeild og eftir að hún fluttist til Ástralíu og hóf háskólanám hefur henni smátt og smátt tekist að byggja sig upp.

Það er ergilegt til þess að vita að góð og heilsteypt manneskja hafi þurft að hefja fullorðinsárin svo brotin, sérstaklega vegna þess að ofbeldisbullurnar sem kvöldu hana eru með hegðun sinni að brjóta öll siðaboð samfélagsins og í mörgum tilvikum landslög en engin leið virðist vera fær til að þær axli ábyrgð. Kannski eru ofbeldisbullur, stórar og smáar, engin skrímsli en eftir stendur spurningin hvernig er eðli þeirrar manneskju sem fær eitthvað út úr því að sýna öðrum andstyggilega grimmd?

- Auglýsing -

Sjá einnig:„Ég var auðvelt skotmark“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -