Fimmtudagur 29. febrúar, 2024
-6.2 C
Reykjavik

Þorsti í þekkingu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leiðari úr 4. tölublaði Vikunnar 2020

Forvitni og þekkingarþorsti er grunnurinn að lífsgleðinni. Að missa ekki áhugann á öllu því dásamlega sem lífið hefur upp á að bjóða heldur fólki svo ungu sama hversu mjög kertunum á afmælistertunni fjölgar. Ég þekki fáar manneskjur jafnopnar fyrir nýjum áhrifum og þekkingu og Önnu Ólafsdóttur Björnsson. Hún hefur óskaplega gaman af að prófa eitthvað nýtt, skynja, upplifa og læra. Hún er einnig ákaflega fjölfróð og menntuð á mörgum sviðum. Frá barnæsku hefur myndlistin heillað hana og hún var farin að teikna og mála með móður sinni nokkurra ára gömul en þá fylgdi hún henni í kennslustundir í Myndlistaskólanum. Litla skottan varð svo fyrirsæta skólafélaga móðurinnar. Í dag er Anna komin á eftirlaunaaldur og hefur næði til að helga sig myndlistinni en hún starfaði við dagskrárgerð, blaðamennsku, skriftir, stjórnmál og hugbúnaðargerð.

Sjá einnig: Myndlistin oft ærið harður húsbóndi

Sjálfsagt gleymi ég einhverju í þessari upptalningu en nefna má að þau ritverk sem eftir hana liggja eru sagnfræðileg ritverk, viðtalsbækur og skáldsögur. Hún sat í sveitarstjórn og á þingi og komst þar að því að hægt væri að hafa mikil áhrif jafnvel þótt maður væri í minnihluta. Hún barðist fyrir kvenréttindum og lagði sitt lóð á vogarskálarnar þar en heillaðist svo af heimi tækninnar, lærði tölvunarfræði og ferðaðist út í heim vinnu sinnar vegna. Þar bjó hún ein, fjarri fjölskyldu og vinum en heimsótti Ísland reglulega. En það er sama hvert þekkingarþráin hefur leitt hana, eiginmaður hennar, Ari, studdi hana og tók fagnandi á móti henni þegar hún kom heim. Allan þennan tíma lagði hún rækt við ótal áhugamál sín, m.a. golf, útsaum, hekl og skvass.

Líf Önnu hefur ekki verið dans á rósum fremur en okkar hinna. Foreldrar hennar skildu og faðir hennar framdi sjálfvíg þegar hún var sextán ára. Vafalaust hefur ekki verið auðvelt að takast á við þá sorg en á þeim árum þótti ekki við hæfi að velta sér upp úr slíkum hlutum eða tala almennt of mikið um þá. Anna er líka þeirrar gerðar að hún kýs að einbeita sér frekar að hinu góða en því slæma. Hún er ekki feimin eða rög við að tala um einkamál sín en sér ekki ástæðu til að íþyngja öðrum með þeim og hún kann alls ekki við drama. Fáar manneskjur eru hins vegar betri hlustendur en hún.

„Anna er líka þeirrar gerðar að hún kýs að einbeita sér frekar að hinu góða en því slæma.“

Og nú er Anna Ólafsdóttir Björnsson á forsíðu Vikunnar, blaðinu sem hún skrifaði áður fyrir og á eingöngu góðar minningar um vegna þeirra fjölbreyttu og merku viðmælenda sem hún kynntist. Vatnslitamyndir hennar eru til sýnis í Bókasafni Garðabæjar og til stendur að sýna þær einnig í Bókasafni Kópavogs síðar á árinu. Vonandi verður þessi lífsglaði fjölfræðingur öðrum innblástur að því að rækta sín áhugamál og taka upp ný.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -