Föstudagur 29. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Virkjum sköpunarkraftinn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

„Hvert barn er listamaður,“ var eitt sinn haft eftir Pablo Picasso, sem taldi brýnt að halda í listamanninn fram á fullorðinsár. Merking og sannleiksgildi þessara orða er augljóst, því með hækkandi lífaldri virðist draga úr sköpunargáfu og -gleði fólks. Flest börn virðast þannig vaxa upp úr sköpunargleðinni, um leið og þau laga sig betur að rammanum sem samfélagið sníður þeim. Raunin er sú að skapandi hugsun hefur í sögulegu samhengi fengið takmarkaða athygli. Dugnaður til hefðbundinnar vinnu og bóknáms hefur almennt notið meiri virðingar, á meðan sveimhugar og hugsuðir hafa jafnvel verið litnir hornauga. Vissulega hafa margir listamenn notið virðingar í gegnum tíðina og gera enn, en þeir hafa undantekningarlítið þurft að vinna mikið fyrir þeirri viðurkenningu og margir ekki hlotið hana fyrr en að sér gengnum.

Mikilvægi sköpunar, í hvaða formi sem er, hefur á undanförnum árum orðið fleirum ljóst. Við vitum nú betur að sköpun hefur ekki aðeins menningarlegt gildi, heldur eru skapandi greinar af ýmsum toga mikilvæg stoð í atvinnulífinu. Þær skapa þúsundir starfa og milljarða í útflutningstekjur, sem skipta verulegu máli fyrir samfélagið. Samhliða hefur okkur orðið ljóst mikilvægi þess að menntakerfið ýti undir sköpunarkraft barna, ungmenna, starfs- og háskólanema, en mennti ekki sköpunarkraftinn úr þeim sem móta munu framtíð lands og þjóðar.

Nýsköpun er hins vegar erfið í samfélagi þar sem „almenn skynsemi“ er ráðandi. Rótgrónar hugmyndir, hefðir og venjur geta reynst dýrkeyptar ef þær standa í vegi fyrir nýjum. Nýjar áskoranir kalla á nýja hugsun, nýjar aðferðir, nýjar hugmyndir og nýja hegðun. Við stöndum þegar frammi fyrir slíkum áskorunum, þar sem þjóðir heims keppast við að virkja sköpunarkraftinn hver á sínum stað. Árangurinn mun ráða mestu um samkeppnisfærni þjóða á 21. öldinni, hagsæld og velferð í hverju landi. Við ætlum ekki að missa af lestinni og íslensk stjórnvöld hafa þegar gripið til aðgerða. Þær eru af ýmsu tagi, en miða að sama marki. Þannig er vitundarvakning um mikilvægi íslenskunnar ekki aðeins af þjóðmenningarlegum toga heldur einnig liður í því að búa samfélagið okkar undir framtíðina.

Tungumálið er forsenda hugsunar og án þess verður engin hugsun til. Án góðrar þekkingar á tungumálinu komum við hugmyndum okkar ekki í orð, hættum að fá nýjar hugmyndir og drögum úr færni okkar til að breyta heiminum. Af því má leiða að lestur góðra bókmennta sé kannski ein mikilvægasta breytan í skapandi hugsun. Þess vegna eigum við að gera allt hvað við getum til að tryggja læsi allra barna, sem er grundvallarforsenda fyrir jöfnum tækifærum þeirra í og eftir skóla, hvert sem hugur þeirra stefnir.

Hvert og eitt okkar býr yfir hæfileikum sem gera samfélaginu gagn. Áhugasviðin eru ólík, ástríðan liggur á ólíkum sviðum og við höfum ólíkar skoðanir. Í því liggja óendanleg verðmæti, bæði menningar- og veraldleg. Það er hlutverk stjórnvalda að virkja þann fjölbreytileika og stuðla þannig að skapandi hugsun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -