Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Jóhann Valgeir er Austfirðingur ársins: „Núverandi hús hefur þurft mikla ást en ekki fengið hana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jóhann Valgeir Davíðsson, íþróttakennari á Eskifirði er Austfirðingur ársins 2022.

Austurfrétt segir frá því að Jóhann Valgeir, hafi verið kosinn Austfirðingur ársins 2022 af lesendum miðilsins en titilinn hlýtur hann fyrir dugnað sinn við að benda á bágt ástand á íþróttahúsinu á Eskifirði.

„Það er mikill heiður að vera Austfirðingur ársins. Sá hópur sem áður hefur verið valinn er fjölbreyttur og sýnir hvað vakið hefur mesta athygli ár hvert. Kannski man fólk vel eftir þessu máli hér því það kemur upp í lok árs og var heitt í bæjarfélaginu,“ segir Jóhann Valgeir í samtali við Austurfrétt.

Barðist fyrir rannsókn á íþróttahúsinu

Undanfarin ár hefur hann verði ötull við að vekja athygli á hræðilegu ástandi hússins en það hefur til að mynda lekið eftir stórrigningar. Það var svo í haust að botninn tók þó úr þegar hann birti ljósmyndir í hóp Eskfirðinga á Facebook en á þeim mátti sjá vatn vella út úr blöðrum sem myndast höfðu í veggjum íþróttahússins. Vakti þetta það mikla athygli að Ríkissjónvarpið gerði frétt um málið og tók viðtal við Jóhann Valgeir.

Sjá einnig: Starfsmaður félagsmiðstöðvar í Fjarðabyggð sendur í leyfi nokkrum dögum eftir gagnrýni á myglu

- Auglýsing -

Eftir þetta fór að bera á áhyggjum bæjarbúa af myglu og var sett talsverð pressa á Fjarðarbyggð að rannsaka málið. Það var svo gert og kom í ljós í byrjun janúar að myglu var sannarlega að finna í húsinu en það var tekið úr notkun fyrir áramót og er nú verið að skoða með framhaldið.

„Fyrsta myndin sem ég set inn úr húsinu er frá 2014. Fólki fannst hún hræðileg en það gerðist lítið. Það var leki sem var lagaður en þá fór að leka annars staðar. Þakið var loðið, trúlega myglað. Það var ekkert loftræstikerfi en nokkur ár eru síðan því var komið upp.

Lekinn hefur aukist síðustu ár. Í haust var hægt að nota þriðjung salarins því það var allt á floti. Það er hundleiðinlegt að vinna við slíkar aðstæður.

- Auglýsing -

Þetta hljómar eins og nöldur á Facebook, sem það vissulega er að vissu leyti, en það breytir því ekki að sveitarfélagið átti að vita um stöðuna. Ef ég hefði ekki verið byrjaður að nöldra þá væri ekkert að gerast núna heldur málið í einhverri nefnd. Stundum þarf að grípa til örþrifaráða. Íþróttahúsið er ekki vel nýtt af bæjarbúum, það er fyrst og fremst notað af skólanum. Það er því kannski bara við kennararnir, starfsfólk hússins og stöku þjálfari sem vitum hversu slæmt ástandið var. Síðan fer fólk að hugsa til þess að barnið þess geti verið í mygluðu húsi og þá vaknar það. Foreldrar hafa kvartað yfir veikindum sem hafa lagast við að barnið var tekið úr íþróttum. Ég get ekki sagt til um hvort það sé rétt, ég er ekki læknir. En maður hugsar líka um sjálfan sig, um hvort maður vilji starfa í mygluðu húsnæði. Þess vegna er gott að fá vissuna. Ef húsið er ekki myglað þá er það gott en ef svo er þá þarf að díla við það. En burtséð frá því þá nennir enginn að vinna í mygluðu húsi,“ sagði Jóhann Valgeir.

Hitafundur á Eskifirði

Mikill hitafundur var haldinn fyrir tveimur vikum á Eskifirði en þar kröfðust íbúar nýs íþróttahúss. Bæjarfulltrúar sögðu hins vegar að ekki væri til peningur fyrir nýju húsi eins og er en mikilvægt væri að komast að því hversu alvarlegt málið væri.

„Ég kom þessu bara af stað, nú hafa Íbúasamtökin og fleira gott fólk tekið við boltanum. Það sást á fundinum að þetta skiptir fólk máli. Það mætti margt fólk og það var reitt. Núverandi hús hefur þurft mikla ást en ekki fengið hana. Íþróttahúsin eru hverjum stað mikilvæg. Á okkar hús vantar til dæmis stórar dyr. Við ætluðum eitt sinn inn með leiktæki af bæjarhátíð en þau voru of stór. Með umbótum er hægt að nýta íþróttahúsið betur. Ég er ánægður með að hreyfing sé komin á hlutina. Hvort nýtt hús rísi hér við skólann eða inni í landi (samkvæmt skipulagi á að reisa íþróttahús við hlið sundlaugarinnar í botni fjarðarins, um 1,5 km frá skólanum) skal ég ekki segja til um. Ég skil hvort tveggja vel. Ég veit heldur ekki hvort það borgi sig að rífa niður í núverandi húsi til að gera við það eða rústa því og byggja nýtt eða hvort hægt sé að stækka húsið þar sem það er nú. Það hlýtur að þurfa að meta á einhverjum tímapunkti. Hvort það borgi sig verður fólkið sem til þess er kjörið að ákveða. Persónulega vil ég bara stærra hús og góða vinnuaðstöðu, að við fáum hús sem bæjarbúar sætta sig við næstu 50 árin en ekki skítamix til að þagga niður í fólki. Það er ekki nóg að setja upp loftræstikerfi ef þakið heldur áfram að mygla,“ sagði Jóhann Valgeir við Austurfrétt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -