Egill Sæbjörnsson: „Tími er bara hugmynd og það eina sem gerist er að hlutir hreyfast um“

top augl
Eftir fjögurra mánaða þunglyndi, kulnum, covid, þráhyggju og myrkur er hlaðvarpsþátturinn Þvottahúsið snúinn aftur. Það má með sönnu segja að bræðurnir Gunnar og Davíð Wiium hafi lagst undir feld af gefnum forsendum og snúið tvíefldir til baka en með nýjar stefnur og áherslur sem verða stöðugt kynntar aftur og aftur eftir því sem þær breytast.

Nýjasti gestur bræðranna er enginn annar en vísindamaðurinn Egill Sæbjörnsson sem hefur verið búsettur í Berlín í ein tuttugu ár þar sem hann hefur starfað við sín vísindastörf sem tvinnuð er í opnu flæði listsköpunar. Egill hefur komið til þeirra bræðra áður í Þvottahúsið en hann kom í þátt númer 34 sem tónlistar og listamaðurinn Egill S. og svo í þátt númer 95 sem Egill S. hinn óáræðanlegi.

Egill með Wiium bræðrum
Nú er hins vegar allt annað upp á teningnum. Egill er svo langt frá því að vera óáræðanlegur í þetta skiptið, enda eru engum vettlingartökum beitt í þættinum þar sem þeir kryfja mál sem snýr að grundvallarhugmyndum mannsins um sjálfan sig, tilgang sinn og örlög. Hver erum við og hvert erum við að fara, hvaðan erum við að koma og átti það sér stað einhverjum byrjun og er það einhver endir?
Gunnar byrjaði þáttinn með vangaveltum sínum tengdum áralangri þráhyggju hans fyrir svartholum og minntist á kenninguna „the big crunch theory“ sem Gunnar skilur þannig að sjálfur mikli hvellur hafi í raun ekki verið neitt annað en afsprengi svarthols og því gefnar forsendur fyrir því að heimurinn sem við þekkjum sé aðeins lítill angi í mögulega óendanlegri jöfnu sem einmitt á sér engan enda né upphaf. Kenningu þessa segir Gunnar að sé líklega búið að afsanna því þennsla alheims virðist vera að aukast en ekki hægja á sér sem annars myndi einkenna heim sem drægist saman í einingarpunkt alls efnis í alheiminum. Sökum þessarar hraðaukningar þennslu alheims segir Gunnar þá að sumir vísindamenn séu nú farnir að hallast að annarri kenningu sem hefur verið kölluð „The big freeze“ en þar þennst alheimurinn svo hrikalega að bil milli efniseinda einfaldlega verður það mikið að tengsl rofna og allt stirðnar í lokin í einskonar uber-alkul að eilífu sem einnig felur í sér möguleikan á upphafs og endaloksleysis. Egill tekur undir þetta og segist einmitt hafa komist að þessari niðurstöðu í sínum rannsóknum.

Egill skrifaði og leikstýrði heimildarmyndinni From Magma to Mankind fyrir tveimur árum þar sem hann útskýrir kenningu sína að maðurinn komi frá hrauni úr iðrum jarðar. Þar vill hann meina að uppruni mannsins liggi og að við þurfum einfaldlega að horfast í augu við að forfeður okkar hafi verið fljótandi hraun-drullupollar. Hann vill meina að við þurfum að fara að hætta að hugsa um líf sem eitthvað sem eigi sér andstöðu í dauðu efni eins og grjóti eða hrauni. Hann segir spurninguna hvort að þá sé líf á Mars eins og David Bowie söng um í margfrægu popplagi, vera fáranlega því auðvitað er líf á Mars, í hverju einasta sandkorni á Mars og alls staðar annars staðar sé heilt lífkerfi sem á sér ekkert upphaf og engan endi.

Egill með jónu
Í þættinum ræddu þeir einnig um sorgina og sektarkenndina sem fylgir þegar við missum frá okkur gæludýr og spurningin um hvort sálin sé á stöðugu flakki og taki sér bólfestu í nýju formi eða hvort sálin verði bara að mold og trjám og ánamöðkum eins og kisan sem Gunnar þáttarstjórnandi þurfti að grafa í garðinum hjá sér fyrir tveim vikum. Kisan var með brjóstakrabbamein og það greindist ekki fyrr en það var of seint, sem Gunnar vildi meina að framkalli mikla sektarkennd ofan í sorgina sem fylgir því að missa gæludýr. Spurningin um hvort hann hefði getað gert eitthvað til að koma í veg fyrir að kisan dó er spurning sem hann hefur spurt sig að daglega síðan að hún lést skyndilega kaldan laugardagseftirmiðdag.
Egill fór í lokin yfir efni sem hann er búinn að vera að vinna að síðustu ár sem myndi kannski flokkast sem möguleg útgáfa af framtíðinni. Heimur, vídd eða ástand þar sem mikið af breytum, sem við förum eftir í dag, hafa horfið, bráðnað eða umbreyst verulega. Heimurinn ber heitið ZIM og bað Gunnar Egill um að fara yfir einkenni þessa heims og Egill varð að ósk hans. Egill vill meina að í ZIM séu engir þrívíddar ásar. Hann vill meina að í ZIM sé tíminn liðinn og því tímaleysi, tungumál eru kynlaus og hugmyndafræði um lifandi og dautt hefur liðið undir lok, hún er einfaldlega ekki lengur til staðar. „Þetta er basically þannig að tími er bara hugmynd og það eina sem gerist í raun er það að dót hreyfist um,“ sagði Egill spekingslegur á svip. Lýsingin á ZIM er ekki bara áhugaverð heldur ber hún einnig í sér von inn í heim sem virðist oft á tíðum vera á barmi glötunar.
Það er alveg klárt að Egill er frumkvöðlamaður og brautryðjandi á sviðum lista og vísinda. Hugur hans er opinn og eins og hann sjálfur tók skýrt fram í lok þáttarins, þá eru allar hans kenningar settar fram með algjörum fyrirvara sem gerir hann að vísindarmanni framtíðarinnar, auðmjúkum vísindamanni.
Þennan upplífgandi og nærgætna þátt má sjá í heild sinni á spilaranum hér fyrir neðan ásamt að hlaðvarp Þvottahúsið má finna á öllum helstu streymisveitum á jörðinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni