Ragnar Ingi var næstum hrokkinn í tvennt um borð í togara: „Ég öskraði en það heyrði enginn í mér“

top augl

Gestur Sjóarans að þessu sinni er ljóðskáldið og kennarinn Ragnar Ingi Aðalsteinsson.

Ragnar er bróðir hagyrðingsins Hákons Aðalsteinssonar en að hans sögn gátu öll hans systkini ort enda var það tungumálið á heimilinu þegar hann var að alast upp. Hann rifjar það upp að faðir hans hafi verið hagyrðingur en þó hafi ekkert af hans ljóðum verið birt enda mun hann hafa lýst því yfir að það væri sjálfsagt að birta ljóð eftir hann svo lengi sem að það væru engar klámvísur eða níðvísur – en þá var víst ekkert eftir.

Sjómennska Ragnars hófst á unglingsárum á síðutogurum hvar hann kveðst hafa lært margt. Hann var til tiltölulega skamms tíma til sjós en segir frá því þegar hann komst í hann krappan eitt sinn.

„Þá skall vír í bakið á mér. Vírinn var til þess að hífa bobbingalengjuna inn. Hann liggur fram á spilið og þar er maður að hífa og hann var það lágvaxinn að hann sá ekki aftur ganginn. Ég festist undir vírnum og vírinn færist nær og nær stiganum þannig að það voru kannski 5-10 sekúndur í að ég færi bara í tvennt. Ég öskraði en það heyrði enginn í mér því það var vitlaust veður. Þá gerist það að stýrimaðurinn horfir aftur með og sér hvað er að gerast og skipar manninum að hætta að hífa en það munaði ekki miklu,“ segir Ragnar Ingi.

Eftir sjómennskuna gerðist hann kennari og lauk doktorsprófi í bragfræðum. Hann gerði rannsóknir á þróun stuðlasetningar frá því fyrir landnám og fram til dagsins í dag og yfirferð hans á niðurstöðum sínum eru ansi fróðlegar.

Viðtalið má sjá í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni