Föstudagur 29. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Alfreð Steinar skipstjóri fann Rósagarðinn: „Okkur var rænt og við fluttir nauðugir til Litháen“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þegar ég lít til baka get ég ekki neitað því að hafa átt að mörgu leyti ævintýralegt líf. Fjölbreytt,“ segir Alfreð Steinar Rafnsson í hlaðvarpinu Sjóaranum.

Alfreð var togaraskipstjóri árum saman. „Sem betur fer kom aldrei neitt alvarlegt fyrir um borð hjá mér í minni skipstjórnartíð. Ég kom með alla kalla í land og það urðu aldrei nein alvarleg slys sem betur fer.“

Hann segist hafa orðið skipstjóri í fyrsta skipti eiginlega fyrir tilviljun. „Ég var búinn að vera stýrimaður á Hvalbak frá Stöðvarfirði og Breiðdalsvík og var með í því að sækja hann til Japan á sínum tíma. Fyrsti stýrimaður sem átti að leysa af treysti sér ekki til að fara með vegna heilsuleysis þegar skipið átti að fara í fyrsta túrinn svoleiðis að það lenti á mér. En svo æxlaðist þetta bara þannig og ég fór þarna nokkra túra en svo var ég þarna ekki nema í eitt ár.“

Þetta var 1974 og Alfreð um þrítugt.

 

Rósagarðurinn

- Auglýsing -

Alfreð vissi af Rósagarðinum sem eru víðáttumikil fiskimið langt úti í hafi á milli Íslands og Færeyja. „Íslendingarnir voru búnir að vita af honum í langan tíma og að þarna væru karfamið sem Þjóðverjarnir stunduðu mikið en aftur á móti fylgdi það sögunni að þarna væri óhemjumikið af flökum frá því á stríðsárunum. Strax eftir að ég fór að sigla með Snæfuglinum fór ég að bera í víurnar við menn þarna úti að fá keypt kort af Rósagarðinum. Það gekk nú ekki vel. Menn báru ekkert voðalega hlýjan hug til Íslendinga, þessir þýsku togaraskipstjórar,“ segir Alfreð en þetta var eftir að Íslendingar lokuðu landhelginni.

Ég hef stundum sagt það í gamni að þetta sé eina kenderíið sem ég hef farið á sem margborgaði sig.

„Það var dálítið skemmtilegt. Vinur minn sem vann hjá Peter Hein, umboðsfyrirtækinu í Cuxhaven, var búinn að vera að forvitnast um hvar væri möguleiki og að endingu þegar ég var að fara þarna í slipp ákváðum við að fara út að borða saman og hann bauð einum þýskum skipstjóra með sem hann vissi að væri í einhverjum fjárhagskröggum. Ég hef stundum sagt það í gamni að þetta sé eina kenderíið sem ég hef farið á sem margborgaði sig vegna þess að þegar fór að líða á kvöldverðinn og við vorum allir komnir í mjög gott skap þá fór ég að bera í víurnar við karlinn,“ segir Alfreð en hann hafði kort af Rósagarðinum í huga. „Ég sagðist vera tilbúinn að borga vel fyrir það. Það vildi svo til að frá því ég var búinn að vera að vinna hjá Sameinuðu þjóðunum þá átti ég ennþá tékhefti frá banka í New York þar sem launin mín höfðu alltaf verið sett inn og ég bauð honum að borga þessa upphæð og hann fengi tékkinn og ég kortin. Og það gekk.“

Og Alfreð komst yfir kort.

- Auglýsing -

Hann segir að það hafi fiskast vel í Rósagarðinum í þó nokkur ár. „Til að byrja með var mjög gott fiskerí og þetta var afbragðs karfi.“

Hann segir líka að það hafi aldrei legið fyrir að halda þessu leyndu.

„Það er gaman að segja frá því að ég vildi fá þennan kostnað greiddan frá sjávarútvegsráðuneytinu vegna þess að ég keypti þetta; ég var ekki einu sinni með leyfi frá minni útgerð. Ég borgaði þetta fyrst úr mínum eigin vasa.“

Það fengu allir þessar upplýsingar strax.

Hvað borgaðir þú mikið?

„Eigum við ekki að láta það liggja á milli hluta. Það var talsverð upphæð. Þá var það maður í sjávarútvegsráðuneytinu sem var aðstoðarmaður ráðherra og hann barðist á móti því að við fengjum þetta greitt af því að hann hélt því fram að við hefðum staðið svo vel að þessu sjálfir án þess að láta aðra vita en það var alls ekki rétt. Það fengu allir þessar upplýsingar strax.“

Það má segja að þarna hafi verið gullnáma.

„Hún var það. Ég hef stundum verið að pæla í því að það væri gaman að fá það tekið upp hjá Fiskistofu hvað fiskuðust mörg tonn þarna fyrstu fimm árin eftir að þetta opnaði. Það var töluvert mikið.“

Alfreð segir að eitt árið hafi þeir farið mest sex sölutúra til Þýskalands. „Svo voru þarna aðrir togarar sem stunduðu þarna mikið meira til dæmis Ögrinn og Vigrinn. Þeir fiskuðu mikið þarna. En svo bara þurrkaðist þetta upp. Ég held að það hafi sáralítið fengist í Rósagarðinum undanfarin ár.“

 

Hótun

Svo hófst annar kafli.

„Þegar ég hætti á Snæfuglinum þá lenti ég í útgerð austur í Litháen“

Fórstu að gera út?

„Já, ég og nokkrir kunningjar mínir tókum á leigu stórt verksmiðjuskip og gerðum það út í Rósagarðinum sem endaði í svakalegu ævintýri. Okkur var rænt þegar við vorum við Írland og fluttir nauðugir austur til Litháen. Þetta var fyrirtæki sem eignaðist skipið. Það var banki í Litháen sem tók skipið meðal annars eignanámi út af gjaldþroti. Þeir vildu fá eitthvað meira heldur en samningarnir okkar stóðu um,“ segir Alfreð en þeir voru með samninga við útgerðina sem fór í þrot.

„Við höfðum verið á Reykjaneshryggnum og gert það bara gott og svo vorum við í Írlandi að frysta markíl fyrir Íra yfir vetrarmánuðina. Ég var á leiðinni frá Castle Rown til Cork að sækja trollið okkar og varahluti og við ætluðum að fara beint út á hrygg. Þá var ég kallaður upp í brú og sá sem var flaggskipstjóri sagði að hann hefði fengið boð um að sigla skipinu til Klaipėda, hafnarborgar í Litháen, og að við værum ekki lengur við stjórn,“ segir Alfreð en hvað varðar flaggskipstjóra þá á hann við að það þurfti líka að vera skipstóri um borð frá Litháen þó Alfreð væri yfirstjórnandi á skipinu.

„Það var alveg sama hvernig við reyndum að koma vitinu fyrir hann. Mér tókst að hringja heim og láta vita hvað væri að ske en þeir komust fljótt að því og klipptu á loftnetið þannig að ég gat ekkert látið vita af mér aftur.“

If you don’t keep your mouth shut, I have the power to eliminate you.

Alfreð segir að flaggskipstjórinn hafi verið ansi magnaður karl. „Ég sagði að það væri verið að ræna skipinu en við vorum með 80 manns í áhöfn og þetta voru menn sem voru búnir að vinna hjá mér í meira en ár og mér mjög hliðhollir og þá sagði hann einhvern veginn á þessa leið: „If you don’t keep your mouth shut, I have the power to eliminate you.“

Það var bara hótun,

„Já, það var það.“

Ísköld.

„Já, hann gekk með skammbyssu alla leiðina.“

Alfreð segir að umræddur flaggskipstjóri hafi verið nýkominn um borð. „Þeir voru búnir að skipta um nokkra kalla þannig að það var búið að plana þetta löngu áður en hann kom um borð. Maðurinn sem var búinn að vera hjá okkur um borð var nýfarinn heim og þessi var nýkominn um borð þannig að þetta flokkaðist undir organized crime.“

Alfreð segir að Litháarnir, eða þessi banki, hafi séð ofsjónum yfir velgengni þeirra. „Það var náttúrlega spilling þar eins og víðar og sannleikurinn er sá að þeir voru búnir að úthluta öllum veiðarfærum og öllu til einhvers góðkunningja.“

Við hefðum getað farið lengra og farið út í skaðabótamál en það hefði kostað óhemju pening í réttarhöldum.

Fram undan voru málaferli sem stóðu yfir í tvö ár. „Þau kostuðu ansi mikinn pening þangað til þessi banki gafst upp. Við hefðum getað farið lengra og farið út í skaðabótamál en það hefði kostað óhemju pening í réttarhöldum svo okkur var ráðlagt að ganga til samninga. Þeir borguðu veiðarfærin og varahlutina sem voru um borð, þeir borguðu olíuna sem var nýbúið að kaupa og þeir borguðu 500 tonn af markíl sem ég var búinn að frysta í lestina. Þannig að þetta bjargaðist þannig að við gátum sjálfir gert upp okkar skuldir hérna heima. “

Alfreð segir að einhverjum árum seinnna hafi Samherji keypt þetta skip, flutt það til Póllands og gert það upp og selt síðan til Afríku.

 Alfreð Steinar Rafnsson

Mútur og flóttamenn

Alfreð réð sig til Þróunarsamvinnustofnunar og fór að kenna við sjómannaskóla í Namibíu og bjó hann þar í nokkur ár og vann svo í eitt ár á vegum Norðmanna. Talið berst að mútum og segir Alfreð að mútur og mútur sé ekki það sama.

Pesóinn hvarf með undraverðum hætti.

„Ég er búinn að vinna í svo mörgum mismunandi löndum og mismunandi kúltúr og ég get ekki dæmt menn fyrir að taka mútur. Ég hneyksla marga þegar ég segi að þegar ég átti heima í Manila á Filippseyjum þá mútaði ég lögreglunni einu sinni í viku. Við skrifstofuna okkar voru geysimikil gatnamót og þar var lögreglumaður sem stjórnaði traffíkinni. Hann slökkti alltaf á götuvitunum þegar mest var að gera. Það var búið að segja manni að maður yrði stoppaður annað slagið og ætti að vera með fimm pesóaseðil sem var smápeningur en mikill fyrir þá. Svo kom það fyrir einu sinni í viku að maður var stoppaður á þessum gatnamótum og beðinn um ökuskírteini. Maður fékk það aftur en pesóinn hvarf með undraverðum hætti. Lögreglumaðurinn sagðist ætla að sleppa manni í þetta skipti og ég ætti ekki að gera þetta aftur og svo endurtók þetta sig í næstu viku.“

Og þú gerðir aldrei neitt af þér?

„Nei, en hefði 100 pesóaseðill verið í ökuskírteininu þá hefið hann stoppað mig á hverjum degi.“

Alfreð vann þarna sem samræmingarstjóri hjá sjávarútvegsdeildinni. „Við vorum með rannsóknarskip á leigu og það var að fara úr einni lögsögu yfir í aðra og ég þurfti að sjá um að allir pappírar væru tilbúnir í hverju landi. Þetta voru fiskirannsóknir í Suður-Kínahafi og náðu niður til Indónesíu.“

Alfreð segir að áhöfnin hafi verið töluvert við björgunarstörf út af stríðinu í Kambodíu. „Það var ekki allt voðalega bjart og huggulegt sem maður sá“ Hann segist ekki mega segja frá; er bundinn trúnaði. „Ég get sagt að við máttum aldrei taka menn um borð til okkar sem við fundum í bátum sem voru á reki vélarvana því ef við tækjum þá um borð þá flokkuðust þeir sem flóttamenn. Af því að þetta var tælenskt skip þá báru Tælendingar meiri ábyrgð á þeim heldur en ef þeir hefðu verið venjulegir flóttamenn sem hefðu komið sjálfir í land þannig að við drógum þá nálægt landi svo þeir gætu sjálfir komið sér í land.

Norðmenn þurftu að taka við þessum flóttamönnum af því að þeir tóku þá um borð.

Við vorum með á leigu rannsóknarskip sem heitir Fridtjof Nansen. Þeir voru að koma úr lögsögunni á Filippseyjum á leið til Singapúr til að skipta um áhöfn. Þá komu þeir að skipi sem var að sökkva; þetta voru flóttamenn frá Kambodíu. Og þeir náttúrlega kipptu þeim um borð. Svo var haldið áfram og stefnt á Singapúr. Þegar það komst upp hvað þeir voru með þá var skipið einangrað í höfninni í Singapúr. Það mátti enginn fara í land. Af því að ég var samhæfingarstjóri þá þurfti ég að fara þarna niður eftir. Málið var ekki leyst fyrr en allir þessir menn, flóttamenn, ásamt skipshöfninni sem átti að skipta um voru sendir út á flugvöll og var flogið til Noregs. Norðmenn þurftu að taka við þessum flóttamönnum af því að þeir tóku þá um borð.“

Jú, Alfreð varð vitni að ýmsu sem hann má ekki segja frá og segir hann að þegar hann var fluttur heim og fór í gegnum dagblöð frá þessum árum þá kannaðist hann ekki við fréttir sem sagðar höfðu verið frá þessu svæði. „Þær voru svo ólíkar raunveruleikanum.“

 Alfreð Steinar Rafnsson

Latur í eðli sínu

Alfreð flutti heim til Íslands og keypti ferjuna Lagarfljótsorminn. „Það gekk ágætlega fyrsta árið en svo komu tvö slæm sumur; fáir ferðamenn þannig að þetta gekk ekki upp. Þá gerðist ég bara skrifstofublók og fór að vinna hjá Vinnumálastofnun sem vinnumiðlari og var þar þangað til ég komst á aldur. Eftir það hef ég verið að hlaupa í afleysingar hingað og þangað. Ég var í hvalaskoðun og var meira segja yfirstýrimaður í Breiðafirðinum á Baldri.“

Hann er spurður hvort hann gæti hugsað sér að fara aftur á sjóinn. „Ég varð fyrir smáheilsuvandamáli í vetur en það er aldrei að vita þegar maður hressist aftur. Púlsinn fór upp úr öllu valdi úti í Búdapest þegar þetta skeði. Ég lenti þar á spítala. En þetta stendur allt til bóta.“

Alfreð er spurður hvar honum hafi fundist skemmtilegast að lifa. „Það er voðalega erfitt að gera upp á milli. Ég hef bara haft svo gaman af lífinu og ég hef reynt að njóta þess í botn hvar sem ég er staddur. Kannski of mikið stundum.“

Þú lætur ekkert buga þig eins og þegar skipið var tekið af ykkur eða þegar Lagarfljótsormurinn hrökk í kút?

„Það er ekki til neins.“

Þetta er bara svona.

„Já, lífið heldur áfram.“

Hann segist núna vera mestmegnis heima. „Ég er að dunda mér smávegis við þýðingar þegar ég nenni. Annars tek ég því rólega. Ég er latur í eðli mínu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -