Þriðjudagur 23. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Áttræð Elínborg lætur ekkert stöðva sig: „Göngurnar hjálpuðu mér í sorginni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elínborg Kristinsdóttir gekk um árabil með Ungmennafélagi Íslands og nefnir göngu- og útivistarverkefnið „Fjölskyldan á fjallið“ sem var ætlað að auka samverustundir fjölskyldunnar og stuðla að líkamsrækt og hreyfingu sem og að njóta náttúrufegurðarinnar. Eitt árið voru til dæmis tilnefnd 22 fjöll víða um land þar sem settir voru upp póstpassar með gestabókum og þeir sem skrifuðu nafn sitt í þær gátu átt von á vinningum. Elínborg skráði nafn sitt í nokkrar gestabækur.

Hún var komin á bragðið. Göngur heillluðu hana.

„Mér fannst þetta bara vera svo skemmtilegt verkefni. Það var mjög hvetjandi.“

Eiginmaður Elínborgar, Guðni Sigurjónsson, lést árið 2008 en hann fór stundum með henni í göngur. Lífsförunautur hennar, sem hafði gengið með henni lífsins leið, var ekki lengur til staðar.

„Ég hugsa að göngurnar hafi hjálpað mér mest í sorginni. Þær dreifa svo huganum. Það var ýmislegt sem breyttist við það að missa manninn minn. Ég varð að taka á því eftir bestu getu. Lífið heldur áfram eftir dauðsfall ástvinar og maður varð að reyna að spila áfram eftir bestu getu.“

- Auglýsing -

Það var svo árið 2010 sem Elínborg fór að fara í göngur á vegum Ferðafélags Íslands og eftir það var ekki aftur snúið. Fyrsta veturinn var farið á eitt fjall í viku.

„Ég varð óstöðvandi eftir það. Mér fannst þetta vera svo skemmtilegt,“ segir Elínborg sem gekk með ferðafélaginu í mörg ár í kjölfarið.

„Eftir að ég hætti að vinna þegar ég var sjötug þá leit ég á göngur sem mína vinnu og það var bara skylda hjá mér að mæta í göngurnar. Göngurnar voru hvatning; þetta var hvatning fyrir mig því ef svo hefði ekki verið þá hefði ég örugglega ekki farið í þessar göngur.“

- Auglýsing -

Elínborg hefur farið á fjölda fjalla og segir að Mælifellshnjúkur sé uppáhaldsfjallið.

„Það er svo gaman að labba á það.“

Elínborg er spurð hvaða ferð hafi verið erfiðust.

„Ætli það hafi ekki verið tilraunirnar á Hvannadalshnjúk en ég hef því miður ekki komist þangað upp enn.“

Hvaða ferð er eftirminnilegust?

„Ætli það hafi ekki verið ferð til Spánar; það var æðislegt,“ segir Elínborg en hún fór ásamt hópi göngufólks til Spánar vorið 2019 þar sem var farið upp á fjallið Cruz de la Muela þar sem stór kross er uppi á fjallinu, einn daginn var gengið upp á Sierra de Bernia og þar þurfti fólk að skríða á gegnum þröng göng til að komast í gegnum fjallið og svo var farið upp á fjallið Puig Campana sem er næst hæsta fjall á Alicante-svæðinu.

„Á Íslandi er eftirminnilegust ferð sem ég og fleiri sem vorum í gönguhópnum „Fyrsta skrefinu“ á sínum tíma fórum upp á Snæfellsjökul í svo snarvitleysu veðri að við sáum hreint ekki neitt. Þá var ég búin að fara áður tvisvar sinnum á jökulinn í svo dásamlegu veðri. Fyrsta ferðin mín upp á jökulinn var Jónsmessuganga og að vera þar á ferðinni um nóttina; ég skrökva ekki en jökullinn var bleikur. Það var dásamleg ferð.“

Elínborg er spurð hvort hún hafi einhvern tímann verið hrædd í göngu.

„Já, ég hef einu sinni orðið svolítið smeyk. Þá skall á mig þoka. Þá var ég uppi á Þrælsfelli. Ég hafði ekki hugmynd um hvar ég var. Ég var búin að labba og labba og það endaði með því að þegar rofaði til þá sá ég niður í Víðidal Þá hafði ég alltaf labbað í þveröfuga átt við það sem ég átti að gera. En þetta fór allt vel.“

Elínborg gekk í vetur upp að gosstöðvunum á Reykjanesi.

„Mér fannst það vera æðislegt að ganga að gosinu. Meiriháttar alveg.“

Þetta eru ekki einu gosstöðvarnar sem Elínborg hefur gengið upp að en hún gekk upp á Fimmvörðuháls þegar þar gaus og svo fór hún upp á Heklu þegar þar gaus síðast.

Göngur eru hollar fyrir líkama og sál.

„Þetta er bara svo heilsubætandi. Manni líður svo vel úti þegar maður getur notið náttúrunnar. Það er ólýsanlegt að vera á þessum stöðum. Þeir eru náttúrlega mismunandi eins og þeir eru margir. Það er svo margt; dásemdin í kringum mann, fuglasöngurinn á sumrin og ég tala nú ekki um ef maður stoppar einhvers staðar við einhverja lækjarsprænu og hlustar á árniðinn og skoðar blómin. Það er svo margt sem þetta gefur manni.“

Elínborg á gamlan húsbíl sem hún hefur notað mikið til ferðalaga í mörg ár.

„Ég er nýkomin úr Skagafirði þar sem ég var í fimm daga og gisti í bílnum. Þetta er allt alveg ómentanlegt. Það er bara svoleiðis.“

Elínborg er áttræð og hún segir að það skipti miklu máli að eldra fólk gangi.

„Þetta bara heldur manni gangandi. Ég er ekki viss um að ég hefði það þrek í dag sem ég hef ef ég hefði ekki haldið þessu svona við með þessum göngum. Ég er hraust að eðlisfari og göngurnar halda mér við með það. Það er akkúrat ekkert að mér og það eru forréttindi að fá að njóta þess að geta gert þessa hluti. Ég myndi ráðleggja öllum sem mögulega geta gert þetta að drífa sig og fara á fjöll. Það þarf ekkert endilega að fara á hæstu fjöllin því að útsýnið af lægri fellunum er dásamlegt og breytir svo miklu fyrir manni,“ segir Elínborg og nefnir Úlfarsfell í þessu sambandi.

„En það er farið að draga úr þessu aðeins hjá mér. Ég er meira á láglendinu,“ segir áttræð konan sem mun síðar í sumar fara í nokkurra daga gönguferð um Austurland ásamt vinkonu sinni.

„Við ætlum að reyna að ná okkur í einhverjar göngur þar. Mig langar upp að Hengifossi og svo langar mig að fara í Stórurð. Svo langar okkur að fara í Stuðlagil. En þetta fer allt eftir veðri hvernig okkur gengur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -