Föstudagur 26. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Elísa sigraðist á átröskun og lét drauminn rætast: „Með kitl í maganum yfir öllum möguleikunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikkonan Elísa Gyrðisdóttir útskrifaðist um jólin úr Kvikmyndaskóla Íslands og hlaut Bjarkann fyrir stuttmyndina Undiröldu en verðlaunin eru veitt fyrir bestu útskriftarmynd Kvikmyndaskóla Íslands. Elísa hefur þurft að ganga í gegnum eld og brennistein í gengum ævina en nú horfir hún fram á veginn með sól í hjarta. Mannlíf ræddi við Elísu um námið, erfiða tíma og framtíðina.

„Ég er svona frekar kaótískt kamelljón, finnst gott að treysta bara og henda mér út í hlutina, enda búin að upplifa mörg gerólík tímabil í lífinu og prófa flest sem mér hefur dottið í hug hingað til,“ sagði Elísa þegar hún var spurð hver hún væri og hvaðan hún kæmi. „Ég vakna langflesta daga í góðu skapi með kitl í maganum yfir öllum möguleikunum og hugmyndavélina mallandi, sérstaklega þegar mér finnst ég hafa farveg fyrir sköpunarkraftinn. Þó ég geti vel notið þess að vera ein þá er örugglega leitun að félagslyndari manneskju, það skemmtilegasta sem ég veit er fólk, hvort sem ég er að spjalla við manneskjurnar eða leika þær.

Ég segist eiginlega alltaf bara vera frá Íslandi þegar fólk spyr mig hvaðan ég sé, finnst svo erfitt að svara þessari spurningu því ég hef búið á sjö stöðum á Íslandi og í þremur löndum. Ég er ættuð frá Borgarfirði Eystra og hinum Borgarfirðinum hérna fyrir vestan, en ég flutti til Oslóar tólf ára gömul og þaðan til Ástralíu þar sem ég gekk í menntaskóla. Árin eftir það flakkaði ég töluvert milli Íslands, Ástralíu og Hong Kong, svo ég hef sterkar taugar í ýmsar áttir. Ég hafði aldrei í lífinu búið á neinum stað lengur en í fjögur ár, en nú hef ég búið á Álftanesi í sjö ár og held ég skilji í fyrsta sinn hvernig tilfinning það er að hafa skotið rótum. Ég kalla mig allavega stoltan Álftnesing, þó það megi örugglega rökræða það eitthvað við þá sem eru í alvörunni héðan, þetta er allavega yndislegur bær með yndislegu fólki sem stendur þétt saman. 

Mér líður oft eins og ég sé búin að lifa mörgum lífum, því ég hef lifað eitthvað svo hröðu, kaflaskiptu lífi og hef stöðugt þurft að aðlaga mig glænýjum aðstæðum. Það hentar mínum persónuleika samt mjög vel og leiklistin gefur manni á svo skemmtilegan hátt tíma til að máta enn fleiri líf á stuttum tíma. 

Allt þetta rót hefur örugglega tekið eitthvað á taugakerfið, en það hefur líka gefið mér mikla trú á eigin getu þar sem ég hef sannað endurtekið fyrir sjálfri mér að ég get alltaf spjarað mig. Svo víkkar þetta hressilega út sjóndeildarhringinn hvað varðar annað fólk og þeirra upplifanir, sem hjálpar auðvitað þegar kemur að því að setja sig í spor annarra og leika þeirra líf. Þannig að ég er bara mjög þakklát fyrir alla þessa fjölbreyttu lífsreynslu hingað til sem hefur verið svona um það bil allt sem manneskja þarf nema sett í blandara.“

Við gerð Undiröldu – Mynd: Þorsteinn Rafnsson – www.rafnsson.is

Glímdi við átröskun eftir áföll í æsku

- Auglýsing -

„Mig hefur alltaf klæjað í sálina að komast í leiklist í Kvikmyndaskólanum, en ég reyndi eins og ég gat að fara ekki þangað,“ svaraði leikkonan af hverju hún hefði ákveðið að fara í Kvikmyndaskóla Íslands. „Ég útskrifaðist af leiklistarbraut í menntaskólanum í Ástralíu og ætlaði mér hiklaust í þessa átt, en fann alltaf einhverja leið til að bremsa mig af. Ég held ég hafi á hverju ári síðustu 5-10 árin sent póst á Kvikmyndaskólann og spurt eitthvað út í námið eða stundatöfluna og fundið afsökun fyrir því að sækja ekki um, því óttinn við að mistakast fékk alltaf að ráða. Eftir áföll í æsku þróaði ég með mér átröskun sem fylgdi mér í tvo áratugi og það var í rauninni ekki fyrr en ég tæklaði áföllin – eins og fram kemur í myndinni – að ég gat sigrast á átröskuninni og fundið sjálfsmildina til að leyfa mér að gera bara það sem mig langaði að gera við mitt eina líf og skila þessum hugsanaflækjum.“

Mynd: Þorsteinn Rafnsson – www.rafnsson.is

„Ang Lee, David Lynch og Louis Theroux gera hluti sem mér finnst spennandi af mjög ólíkum ástæðum,” segir Elísa um hennar helstu fyrirmyndir í kvikmyndagerð. „En ég verð ofsalega spennt þegar konur taka að sér gígantísk verkefni í þessum hingað til karllæga bransa og rúlla þeim upp, eins og Greta Gerwig til dæmis. Svo eru Eva Sigurðardóttir og Kolbrún Anna Björnsdóttir mjög spennandi íslenskar fyrirmyndir. Það gefur frá sér eitthvað rafmagn til allra í kring þegar íslenskar konur taka stökkið og dúndra hugmyndunum sínum af stað í framleiðslu.

Annars held ég að það verði öflugt þegar við förum að geta sameinað betur „male & female gaze“ í kvikmyndagerð og notað allt þetta ólíka til að dýpka og gera verkin sterkari í stað þess að slást um hver er með kíkinn.“ 

- Auglýsing -
Skjáskot úr Undiröldu

Dýrmætar minningar og allir tilbúnir til að hjálpa

„Ég vissi það um leið og ég byrjaði að þetta yrðu einhver eftirminnilegustu og dýrmætustu ár lífs míns og tveimur árum seinna get ég staðfest að það er algjörlega tilfellið,“ sagði Elísa um lífið í skólanum. „Þetta er auðvitað þvílíkt hörkupúl, við erum í rauninni í tvenns konar námi á sama tíma, annars vegar leiklistinni og hins vegar kvikmyndagerðinni og stundaskráin er þjöppuð alveg upp í topp alla daga. Það var ekkert endilega neitt grín að klára þetta með tvö grunnskólabörn, hjónaband, heimili og vinnu, en með mögnuðum stuðningi úr öllum áttum og skipulagi þá hafðist það.

Ég get auðvitað bara talað út frá reynslu af leiklistardeild, en þar er kennslan virkilega vönduð, utanumhaldið mikið, falleg og fagleg tengsl við kennarana og við finnum sterkt að þau standa með okkur alla leið. Við fáum mjög fjölbreytta kennslu með mismunandi leikaðferðum svo allir geta fundið leið sem þeir tengja vel við. Svo lærum við að beita röddinni, lærum sviðsbardaga, talsetningu, söng og praktískar leiðir til að koma okkur áfram í bransanum, allt milli þess að nota munnskol fyrir kossasenur yfir í að kynna hugmyndir sínar fyrir stórum fjárfestum og semja um tekjur. 

Á tæknilegu hliðinni fá allir tækifæri til að prófa allt sem í boði er í náminu, það fá allir að taka upp, skrifa, leikstýra, lýsa, klippa, hljóðvinna, lita. Ef viljinn er fyrir hendi þá er hægt að soga í sig algjörlega ótrúlegt magn af þekkingu gegnum kennara og samnemendur og ég hef verið smá þekkingarvampíra þessi tvö ár, reynt að fá eins mikið og mögulegt er út úr þessu námi og það er eiginlega lygilegt hvað ég hef troðið miklu í hausinn á mér. 

Það sem kennir okkur kannski mest er öll reynslan á setti hjá hvert öðru, ég hef hreinlega ekki tölu á því hvað ég hef leikið eða unnið öðruvísi í mörgum stuttmyndum undanfarin ár en það eru fleiri tugir. Svo er ýmislegt sem smellur hjá manni þegar maður byrjar að fá greidd verkefni og sér hvað er líkt og ólíkt með Kvikmyndaskóla verkefnum og bransaverkefnum, það er oft mjög áhugaverður samanburður sem Kvikmyndaskóla settin standast oft en stundum alls ekki og bæði er mjög lærdómsríkt. 

Stemningin er þannig að allir eru alltaf tilbúnir að hjálpa og kenna. Vináttan sem myndast undir þessu álagi í skólanum er ansi skilyrðislaus, það er ákveðið fólk sem ég segi bara já við áður en þau eru búin að segja mér hvað þau vilja, ég þarf ekki að vita meira því ég myndi gera um það bil hvað sem er.“ 

Skjáskot úr Undiröldu

Setur eigin reynslu í myndina

Útskriftarmynd Elísu heitir Undiralda og vann eins og áður segir verðlaun sem besta útskriftarmynd Kvikmyndaskólans um jólin. En um hvað er myndin?

„Undiralda er eiginlega þriðja barnið mitt, mér þykir ofsalega vænt um þetta verkefni og fólkið sem gerði myndina að veruleika. Handritið er í grunninn skrifað út frá áhrifamiklu samtali sem ég átti við frænda minn fyrir nokkrum árum, en auðvitað er myndin ekki um okkur sem persónur þannig lagað, heldur einhver útgáfa af sannleikanum. Það eru ýmsir straumar í gangi á sama tíma í þessari mynd, en í grunninn er þetta kannski um að snúa einhverju erfiðu yfir í eitthvað fallegt. Mig langaði líka til að opna á þennan part af umræðunni út frá minni reynslu og skoða spurningar eins og hvað þurfi að vera til staðar svo fyrirgefning geti átt sér stað og hvað viljum við í staðinn fyrir þöggun. 

Sagan er um Eyju, kaldhæðna en skemmtilega konu sem fer á ættarmót hjá fjölskyldu sinni sem hrærist í djúpu meðvirknimynstri. Hún tekur kærastann sinn með sem andlegan stuðning, enda er hann einstaklega hress og er hennar tenging við raunveruleikann utan þessarar flóknu fjölskyldu. Þegar líður á kvöldið fer Eyju að ofbjóða framkoma ættingja sinna og hún endar á því að láta frænda sinn horfast í augu við þá staðreynd að hann misnotaði hana kynferðislega þegar hún var barn og hann var unglingur. Frændinn tekur því á mjög óvæntan hátt, þetta hrærir rækilega í vatnsbóli fjölskyldunnar og þau þurfa bæði að takast á við það sem flýtur upp á yfirborðið í kjölfarið á þessum samskiptum.“ 

Mynd: Þorsteinn Rafnsson – www.rafnsson.is

„Fólk verður oftast skrýtið á svipinn þegar ég reyni að útskýra að þetta sé samt eiginlega svört kómedía, ekki endilega samsetning sem fólk er vant, en einhvern veginn virkar þetta nú samt saman. Mér fannst mikilvægt að halda mjög varlega utan um þetta málefni og tilgangurinn er ekki að sjokkera neinn, svo það eru ýmis smáatriði í framleiðslu myndarinnar sem undirstrika það og fyrirbyggja vonandi óþægileg hughrif, þó það sé auðvitað aldrei hægt að stýra því hvernig fólk upplifir myndina. 

Ég var svo óendanlega heppin að fá hreinlega íslenskt kóngafólk til að leika á móti mér í þessari mynd. Björgvin Franz Gíslason leikur Daníel frænda Eyju, Jónmundur Grétarsson leikur Jóa kærasta hennar, Elva Ósk Ólafsdóttir leikur mömmu Eyju, Ragnheiður Steindórsdóttir leikur móðursystur Eyju, sem er einnig mamma Daníels, og Þórunn Erna Clausen leikur konu Daníels. Þessi listi er náttúrulega algjörlega út í hött, ég skil varla eftir á hvernig ég þorði yfir höfuð að biðja þessa stórleikara að vera með, en ég hafði svo sterkt á tilfinningunni að þessi saga þyrfti og ætti skilið að vera sögð af fólki með mjög mikla leikreynslu og djúpa tilfinningagreind. 

Það var svo sem ekkert grín að ætla síðan að mæta þeim fimm í senu fyrsta tökudaginn á einhverjum jafningjagrundvelli, auðvitað bara smá hlægilegt að ætla sér það, en þetta fólk sýndi mér svo botnlaust tilfinningalegt örlæti sem manneskju og leikara að þetta bara small allt saman með þeirra hjálp. 

Björgvin Franz, þessi þjóðargersemi sem hann er, hélt svo innilega fallega utan um sitt hlutverk að ég held virkilega að enginn annar á plánetunni hefði getað tæklað þetta flókna viðfangsefni svona vel fyrir mig. Ég setti mig auðvitað í mjög berskjaldaða stöðu með því að í rauninni endurupplifa þetta mál fyrir framan „kamerur“ og hefði örugglega getað vakið upp áfallið á einhvern hátt. En það var svo hnitmiðaður andlegur undirbúningur, samtöl og æfingar í algjörlega opnum samskiptum að ég treysti Bjögga af öllu hjarta þegar við fórum loks í tökur og hann og „krúið“ mitt sköpuðu algjörlega öruggt umhverfi fyrir taugakerfið mitt. Þar má auðvitað nefna leikstjórana mína, Antoníus Antoníusson og Magdalenu Ólafsdóttur og aðstoðarleikstjórann Rosalie Rut Sigrúnardóttur, ásamt öllum hinum mögnuðu manneskjunum á settinu. Myndin er tekin upp af Ragnari Smára Sigurþórssyni tökumanni, en allir í „krúinu“ eru núverandi eða útskrifaðir nemendur úr Kvikmyndaskólanum. Leikararnir höfðu orð á því að þeim liði alls ekki eins og þau væru á Kvikmyndaskólasetti heldur bara venjulegu setti, sem segir ansi mikið um vinnusiðferðið og metnaðinn hjá mínu fólki, er endalaust stolt af þeim og þakklát.“

Mig langar að halda áfram að segja sögur sem skipta máli og finna vinkla sem eru ekki endilega þeir algengustu,“ sagði Elísa um hennar eigin markmið í kvikmyndagerð. „Ég hef mikinn áhuga á ólíkum sjónarhornum og því „concepti“ að tvennt eða fleira geti verið satt í einu. Besta efnið finnst mér vera eitthvað sem er fyndið og skemmtilegt en hreyfir samt við mér á einhvern hátt og sýnir mér hlutina í öðru ljósi en áður. Það er fullt af sögum sem bíða eftir að vera sagðar – ég á svo sem lager í bankahvelfingunni en svo er heimurinn fullur af áhugaverðu fólki með spennandi sögur – og ég hlakka til að koma þeim í heiminn. Svo langar mig bara að styðja eins mikið og ég get við allar þessar mögnuðu manneskjur sem ég þekki í þessum bransa og draga þau með mér í einhver alveg klikkuð ævintýri.“ 

Skemmtilegasta starf í heimi

„Undiralda fer í smá fínpússun og verður síðan send út í heim á kvikmyndahátíðir, en eftir það væri virkilega gaman að geta sýnt hana hérna heima,“ sagði Elísa um framhaldið. 

„Mér finnst auðvitað skemmtilegast að leika, en mun alveg klárlega líka skrifa og framleiða mitt eigið efni með hjálp frá öllu hæfileikaríka fólkinu sem ég hef safnað að mér gegnum námið. Við höfum fengið tengsl við „casting“ skrifstofur gegnum skólann og ég hef verið svo heppin að fá að byrja að leika smærri og stærri hlutverk í íslenskum og erlendum verkefnum áður en ég kláraði skólann, svo vonandi fæ ég að halda áfram að spreyta mig í því á næstunni. Ég hef líka áhuga á svo gríðarlega mörgu tengdu faginu, til dæmis nándarþjálfun, talsetningu, söng, veislustjórnun og spuna svo eitthvað sé nefnt, ég hlýt að finna góðan farveg fyrir þennan sprengikraft sem fylgir því að gera það sem manni finnst skemmtilegast í veröldinni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -