Sunnudagur 15. september, 2024
6.6 C
Reykjavik

Ragnheiður með þrjú lítil börn þegar veiktist: „Er sannarlega sjokk að fá lífshættulegan sjúkdóm“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hugmyndin er eldgömul. Alveg frá því ég var lítil stelpa var ég alltaf að reka mig á hvað kvenfólkið, bæði stelpur og konur, var einhvern veginn hornreka í þessu samfélagi karla. Ég var kannski ekkert að hugsa eins og einhver femínisti þegar ég var sex til sjö ára en samt sem áður rak ég mig á að ég hafði ekki sama rétt og strákarnir og konur höfðu ekki sama rétt og karlar; þær höfðu einhvern veginn ekki sama erindi,“ segir Ragnheiður Lárusdóttir en út er komin hennar þriðja bók, Kona/Spendýr, sem hún segir að fjalli um kvenhlutverkið í hinum ýmsu myndum og tengist það til dæmis jafnréttisumræðu, MeToo, móðurhlutverkinu og hvað það er gaman að vera kona.

Hún ólst upp fyrir vestan. Í Önundarfirði.

„Það voru alls staðar skil í umhverfinu á milli karla og kvenna. Ég held það hafi ekki verið nein sérstök karlrembusvín í minni sveit; tíðarandinn var bara svona. Ég man til dæmis þegar fyrsti kvenpresturinn tók til starfa og maður heyrði fólk tala um að það ætlaði ekki að láta einhverja kerlingu jarða sig eða manninn sinn.

Pabbi var prestur og ég var mikið í messum og í kirkjunni,“ segir Ragnheiður og nefnir hina heilögu þrenningu; föður, son og heilagan anda. „Það var engin kvenpersóna í þessu nema María mey og hún var ekkert mikið til umtals. Það var meira þessi heilaga þrenning sem var byggð upp á karlkyni. Og svo voru það postularnir. Þegar ég varð unglingur var ég eins og aðrar stelpur að berja af mér eða slíta af mér einhverjar gráðugar hendur sem maður vildi ekki hafa á sér. Ég var eina stelpan í strákabekk um tíma og vann svo mikið á karlavinnustöðum svo sem í vegavinnu og ég var strákastelpa en ég sá þetta samt alveg.

Þá var ég algjörlega komin í þetta spendýrshlutverk og var eins og belja á bás.

Svo var það að vera ólétt, eignast barn og hafa barn á brjósti. Þá var ég algjörlega komin í þetta spendýrshlutverk og var eins og belja á bás og það var ekkert mikið verið að tala við mann. Ég var hanteruð eins og einhver gripur. Mér fannst ég vera sett á bás með dýrunum þegar ég var ólétt. Það var ekkert mikið talað við mann. Það var bara verið að troða fingrum inn í mann og verið á þreifa á manni og ekkert verið að hlusta á það sem maður hafði sjálfur að segja. Þeta var auðvitað ekki illa hugsað en þetta var oft niðurlægjandi framkoma.“

Hún talar líka um óorðaða verkaskiptingu á heimilinu þegar börnin voru lítil. „Verkaskiptingin var svolítið kven- og karllæg.“

- Auglýsing -

Ragnheiður segir að bókin sé ekki hugsuð sem einhver brjálæðisleg femínísk baráttubók. „Ég er bara að segja frá minni upplifun og það að vera kona í heimi karla.“

Ragnheiður Lárusdóttir

Að grafa ljóð

- Auglýsing -

Ragnheiður, sem er íslenskukennari í menntaskóla og er auk þess söngkennari, segist hafa átt sér skáldadrauma en að enginn hafi mátt vita það. Hún faldi það sem hún skrifaði. Svo dreymdi hana um að verða söngkona.

„Ég var alltaf að skrifa. Aðallega ljóð. Ég skrifaði stundum sögur en ljóðið hefur alltaf verið mitt form.“

Um hvað skrifaði hún?

„Bara um allt mögulegt. Um sjóinn og fjölskylduna mína. Ég á ekkert af þessu. Ég henti þessu öllu.“

Nei, Ragnheiður faldi ekki bara það sem hún skrifaði.

Ég jarðaði þau af því að ég vildi ekki að neinn sæi þau af því að stelpur áttu ekkert að vera að skrifa ljóð.

„Ég gróf ljóðin. Um leið og þau urðu til þá jarðaði ég þau einhvers staðar í grenndinni. Ég bjó bara til holu og gróf þetta. Ég jarðaði þau af því að ég vildi ekki að neinn sæi þau af því að stelpur áttu ekkert að vera að skrifa ljóð. Þetta var fyrir karlana. Ég skrifaði ekki hefðbundin ljóð. Ég skrifaði alltaf óhefðbundin ljóð. Það þótti nú ekkert flott í sveitinni. Ég sýndi aldrei neinum mín ljóð en ég vissi að maður ætti að skrifa hefðbundið með stuðlum og höfuðstöfum og láta ríma.“

Svo fór hún í heimavistarskóla 13 ára gömul. Síðan lá leiðin í Lýðháskólann í Skálholti, þá í Menntaskólann við Hamrahlíð og loks í Háskóla Íslands og Söngskólann í Reykjavík.

Ragnheiður Lárusdóttir

Verðlaunahöfundur

Kona/Spendýr er þriðja bók Ragnheiðar. Fyrsta bókin hennar, ljóðabókin 1900 og eitthvað, kom út árið 2020 og fyrir handritið fékk hún Bómenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og hún var einnig tilnefnd til Maístjörnunnar. Næsta bók kom út í fyrra og heitir Glerflísakliður.

Ég var á sama tíma að glíma við þennan skilnað og hugsa um mömmu mína sem var með Alzheimer.

Ljóðin í 1900 og eitthvað fjalla um minningar Ragnheiðar allt frá bernsku og fram á fullorðinsár. Þar kemur einnig inn í erfiður skilaður sem hún gekk í gegnum. „Glerflísakliður er saga tveggja kvenna; saga mín, sem var að ganga í gengum sorg vegna skilnaðarins, og saga mömmu minnar sem fékk Alzheimer. Ég var á sama tíma að glíma við þennan skilnað og hugsa um mömmu mína sem var með Alzheimer. Mér batnar eftir því sem líður á bókina en mömmu versnar og svo deyr hún í lokin.

Þetta eru hversdagssorgir sem margir ganga í gegnum.“

Ragnheiður Lárusdóttir

Alls konar afleiðingar

Ragnheiður hafði gengið í gegnum áföll áður en hún skildi og missti móður sína. Hún fékk krabbamein og svo fékk sonur hennar hjartaáfall þegar hann var 15 ára. Hann náði sér að fullu.

„Ég fékk mjög erfitt krabbamein. Ég var lengi veik og þurfti að gangast undir margar aðgerðir,“ segir Ragnheiður sem segist alveg vera laus við krabbameinið sem var í tungurót og greindist hún árið 2004. „Ég fékk svo miklar geislaskemmdir þannig að það er búið að skera mig þvers og kruss og úrbeina mig og allt mögulegt. Ég fékk drep í kjálkann og þurfti að fá nýjan kjálka. Ég fór seinast í aðgerð árið 2018.“

Áhrif þess að greinast með krabbamein og ganga í gegnum veikindin eru eitt. Svo eru það áhrif alls þessa á sálina.

Ég hugsaði aldrei um að ég gæti verið dauðvona.

„Það er sannarlega sjokk að fá lífshættulegan sjúkdóm; ég átti þrjú lítil börn þegar þetta kom upp á. Þetta var erfitt fyrir alla fjölskylduna. Í mínum huga kom aldrei annað til greina en að berjast og hafa þetta af. Ég hugsaði aldrei um að ég gæti verið dauðvona. Ég var ekkert að pæla í því. Ég reyndi að útiloka það.“

Ég er lömuð í vörinni og munnurinn á mér er skakkur.

Afleiðingar krabbameinsmeðferðarinnar voru miklar og ekki síður erfiðar. „Ég er enn þann dag í dag að eiga við afleiðingar þess að hafa fengið þetta krabbamein. Ég á erfitt með að borða og ég er afskræmd í framan. Það eru alls konar afleiðingar. Ég er farin að venjast þessu svolítið en lengi framan af gat ég ekki horft á myndir af sjálfri mér. Ég eiginlega fór að gráta. Mér fannst þetta vera svo leiðinlegt. Fjölskylda mín og vinir segja að ég líti ekki illa út en ég passa ekki við mína eigin sjálfsmynd. Og það er svo óþægilegt. En auðvitað er ég farin að venjast þessu. Ég er lömuð í vörinni og munnurinn á mér er skakkur en að öðru leyti sést þetta ekki mikið. Þetta háir mér stundum í tali af því að maður verður ekki eins skýrmæltur með lamaða vör. Svo glímdi ég við mikinn tannmissi eftir geislameðferðina; allur harður og mjúkur vefur er í raun og veru dauður þannig að tennurnar bara fara. Það voru miklar rótarskemmdir og þetta var mjög kvalafullt. En þetta eru afleiðingar af geislameðferðinni. Þetta hefur verið vesen og stundum mjög þreytandi.“

 

Að læra að lifa á nýjan hátt

Hvað hefur Ragnheiður lært af því að ganga í gegnum öll þessi áföll?

„Mér finnst ég hafa fundið mikinn styrk í sjálfri mér. Ég hélt alltaf áður að krabbamein væri hræðilegt og svakalegt en svo þegar maður fær þetta sjálfur þá er þetta verkefni sem maður er að eiga við. Þetta er erfitt en maður bara gerir þetta. Ég varð ekkert skelfingu lostin en það er þreytandi að standa alltaf í einhverju svona veseni. Mig langar bara að hafa það skemmtilegt og notalegt.“

Sorgin kemur til tals. Fyrst gekk Ragnheiður í gegnum skilnað.

Ég þurfti að læra að lifa á nýjan hátt.

„Það er erfitt að missa maka sinn í skilnaði. Maður er ekki bara að missa hann heldur alla tengdafjölskylduna sína í leiðinni. Við vorum bara börn þegar við fórum að vera saman – 17 og 18 ára – og vorum saman í 36 ár þannig að ég þurfti að læra að lifa upp á nýtt. Það breyttist allt. Það breyttist allur manns lífsgangur, fjárhagur og fjölskyldumynstur og ég þurfti að selja heimilið og finna nýtt. Ég þurfti að læra að lifa á nýjan hátt. Það er mjög mikið álag. Ég held að það sé mjög vanmetin sorg í samfélaginu þegar fólk missir maka sinn á þennan hátt.“

Móðir Ragnheiðar greindist með Alzheimer 10 árum áður en hún lést og var það mikið sorgartímabil.

„Mamma mín var einstaklega klár og vel gefin kona og með stálminni; það var áfall þegar hún var farin að gleyma og gat ekki lengur séð um sig sjálf og var orðin ósjálfbjarga.“

Hvað er dauðinn í huga Ragnheiðar?

„Dauðinn er kveðjustund. Þegar maður er náinn foreldrum sínum þá er þetta svo mikið rof.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -