Föstudagur 12. apríl, 2024
2.8 C
Reykjavik

Sigurbjörn Árni fór í lyfjahlé fyrir Ólympíuleikana: „Ég er fúll yfir því að vera með sortuæxli“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, skólastjóri Framhaldsskólans á Laugum, greindist í febrúar með fjórða stigs sortuæxli. Hann hafði árið 2013 tekið eftir fæðingarbletti á öðrum handleggnum sem honum fannst vera grunsamlegur en lét ekki athuga hann fyrr en tveimur árum síðar. Bletturinn var þá fjarlægður og settur í ræktun og kom í ljós að þetta væri sortuæxli. Sigurbjörn fór í kjölfarið í stærri aðgerð þar sem eitlar í holhöndinni voru fjarlægðir og næstu árin fór hann reglulega til húðsjúkdómalæknis til að fylgjast með blettum og voru nokkrir fjarlægðir til öryggis.

Það var svo eftir síðustu áramót sem honum leið eins og hann væri með magakveisu. „Einn morguninn í janúar var eins og eitthvað hefði poppað út úr kviðnum á mér í beltisstað vinstra megin. Ég hélt að þetta væri kviðslit. Ég var alltaf að kenna á fimmtudögum og læknar sem hingað koma komu einnitt á fimmtudögum og ég lét ekki kíkja á þetta fyrir en þremur til fjórum vikum síðar. Ég var svo sendur í myndatöku og kom í ljós að ég væri fullur af æxlum. Þetta var á föstudegi og það var svolítið töff inn í helgina. Það kom svo í ljós að þetta sem kom út úr kviðnum reyndist vera sortuæxli sem hafði tekið sér bólfestu í fituvefnum á mér undir húðinni og hafði svo vaxið út í gegnum bandvefinn og spratt þar af leiðandi fram út undan húðinni. Þetta var góð kúla sem kom þarna yfir nótt.“

Ég var svo sendur í myndatöku og kom í ljós að ég væri fullur af æxlum.

Reglulegt tékk síðustu ár til að fylgjast með blettum á húðinni eftir að sortuæxlið á handleggnum hafði verið fjarlægt. Sigurbjörn er spurður hvort aldrei hafi verið boðið upp á myndatöku í tengslum við það eftirlit. „Ég spurði lækni að þessu og samkvæmt bókinni þá er þetta talin vera eðlileg meðferð og almennt viðurkennd. Það er hægt að spyrja hvað sé forsvaranlegt varðandi skannanir en það er allta einn sem dregur stutta stráið eins og ég og það er ekkert gaman. Kunningi minn fékk sortuæxli fyrir 10 árum og var í eftirliti næstu árin og allt í góðu. Svo greindist hann í vor með 13 æxli í höfðinu og hann dó í sumar. Þetta voru sortuæxli. Þetta getur gerst og sumir eru óheppnir. Það er bara þannig.“

Sortuæxli eru tengd við mikil sólböð og ljósabekkjanotkun og segir Sigurbjörn að hann hafi mikið farið í ljósabekki þegar hann var unglingur og að hann hafi mikið legið út í sólinni þegar hann bjó í Bandaríkjunum á sínum tíma.

 

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

- Auglýsing -

 

Skítadíll

Þegar Sigurbjörn er spurður um stöðuna í dag þá segist hann vonast til að hún sé góð. „Ég fór í skanna í júlíbyrjun og þá höfðu æxlin minnkað aðeins nema æxli í höfðinu á mér; það hafði ekkert breyst. Þá fór ég reyndar í lyfjahlé svo ég kæmist á Ólympíuleikana og yrði ekki þreyttur þar,“ segir hann en hann hefur meðal annars unnið sem íþróttalýsandi. „Ég hef ekki farið í skanna síðan. Svo varð ég eftir að heim kom stressaður yfir því að þetta lyfjahlé hafi kannski ekki verið sniðugt. Ég bara verð að treysta því að þetta haldi allt áfram í sömu átt. Ég veit ekki hvenær ég fer næst í skanna; það hefur ekki verið rætt.“

- Auglýsing -

Hann segir þetta vera skítadíl. „Ég er fúll yfir því að vera með stortuæxli og hugsanlega lifa ekki mjög lengi. Þetta er bara óheppni. Ég verð stundum leiður og dapur. Ég vakna stundum á næturna og er eitthvað að velta þessu fyrir mér og stundum fer hausinn á mér á flug. En ef maður hefur nóg að gera þá hefur maður um annað að hugsa. Það hjálpar manni ekkert að velta sér upp úr þessu.

Ég verð stundum leiður og dapur.

Sumir verða blindir og aðrir missa fót. Þeir sem greinast með sortuæxli lifa ekki lengi. Það er talað um 11 mánuði sem miðlunsgildi varðandi framgang sjúkdómsins; sumir lifa skemur en aðrir lengur. Það er alltaf einn af hverjum fimm eða sex sem eru lifandi eftir fimm ár. Ég veit um mann sem hreinsaðist af þessu. Það verður örugglega sjokk ef myndir sýna fram á að þetta hafi stækkað og sé að sækja í sig veðrið. En þá verður að díla við það. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég muni ekki leiða dóttur mína til altaris ef hún giftir sig og hvort ég verði aldrei afi; þetta er samt fjarlæg framtíð af því að ég á það unga krakka. Annars reyni ég að vera kátur. Ég er frekar léttur.“

 

Vara sig á sólböðum og ljósabekkjum

Sigurbjörn segir að það sem fari mest í taugarnar á sér sé hvað hann verður þreyttur; segir að það tengist frekar lyfjagjöfinni heldur en sjúkdómnum sjálfum. „Ef ég er að fara í girðingavinnu eða að moka skít þá eru þetta þrír til fjórir tímar og þá er ég bara búinn. Ef ég verð þreyttur þá verð ég ónýtur í nokkra daga á eftir þannig að ég verð að hætta áður en ég verð þreyttur,“ segir skólastjórinn sem í fyrrahaust tók við ásamt bróður sínum búi foreldra þeirra en bróðir hans sér almennt um reksturinn þótt Sigurbjörn hjálpi stundum til á kvöldin og um helgar. Þeir eru með um 90 kindur og 35 hesta. Annars er hann mest í skólanum þar sem nemendur eru um 100 þar sem er oft mikið fjör. „Ég held að Framhaldsskólinn á Laugum sé góð viðbót við framhaldsskólaflóruna. Dreifbýlið er mikilvæg undirstaða og það þarf að gefa ungu fólki kleift að búa í dreifbýli og þá er ég ekki að tala um Laugar eða nágrenni þar sem við búum nálægt Akureyri. Ég á við aðra staði víða um land. Það væri í lagi að hvetja ungt fólk til að búa úti á landsbyggðinni.“

Sigurbjörn elskar náttúruna, talar um ferska loftið og frelsið.

Og hann elskar lífið.

Hann talar um lærdóminn af veikindunum. Hann nefnir fyrst hve nauðsynlegt það sé að passa sig á sólböðum og ljósabekkjum og bætir svo við að fólk eigi ekki að fresta hlutunum. „Það er ekki víst að það komi morgundagur eða annað ár til að framkvæma hlutina. Ég hef líka kannski lært eitthvað æðruleysi.“

Hann segist ekki óttast dauðann og segist ekki hafa velt honum mikið fyrir sér. „Ég hef trú á því að ég hafi breytt þannig að ég komist upp til Guðs. Til himna. Ég reikna með eftirlífi; svo getur vel verið að sú mælistika sem ég hef um mínar gjörðir sé allt önnur en þeirra sem eru hinum megin.“

Það er ekki víst að það komi morgundagur eða annað ár til að framkvæma hlutina. Ég hef líka kannski lært eitthvað æðruleysi.

 

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -