Sjóarinn Steingrímur Helgu Jóhannesson: „Ég gjörsamlega gargaði á hafið og kallaði nafn hans“

top augl

„Ég stoppaði í fjörum hér og þar og gjörsamlega gargaði á hafið og kallaði nafn hans,“ segir Steingrímur Helgu Jóhannesson í viðtali við Reyni Traustason. Steingrímur var á sjónum um árabil og í hittifyrra var hann í túr á skuttogaranum Tómasi Þorvaldssyni. Þetta átti að vera 40 daga túr á grálúðu. „Á 37. degi kom atvik upp,“ segir Steingrímur, en í kaffitímanum snemma morguns sá hann sms frá föður sínum sem bað hann um að hringja í sig sem allra fyrst; þetta tengdist bróður Steingríms.

„Hann hafði átt erfitt og honum leið ekki vel,“ segir Steingrímur um bróður sinn, „þannig að mig grunaði hvað væri á bak við þessi skilaboð. Við Hörður bróðir vorum bara tveir og við misstum móður okkar ungir. Þetta hefur allt verið erfitt fyrir okkur öll þessi ár; við vorum bara tveir og vorum nánir. Það tók mig 10 mínútur að taka upp tólið og hringja í pabba. Ég vissi nákvæmlega  hvað þetta var þegar hann svaraði. Hann sagði „Hörður, bróðir þinn, er dáinn.“ Þegar svona gerist og að vera úti á sjó; það bara hrundi allt einhvern veginn. Ég hrundi sjálfur. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég settist niður og fór að gráta.

Ég fór til stýrimannsins og sagði hvað hefði gerst og spurði hvort ég gæti fengið eitthvað róandi. Svo fór ég niður í klefa og ég mætti ekkert niður á vakt eftir kaffi. Svo kom Bessi skipstjóri og talaði við mig og sagði að hann ætlaði að skutla mér í land. Þarna vorum við úti á Hala. Hann skutlaði mér upp á grunn og þar var fullt af snurvoðarbátum og það átti að henda mér í bát sem var fyrstur til að fylla og svo átti ég að fara með honum í land sem var gert. Ég kom í land í Bolungarvík,“ segir Steingrímur sem leigði bílaleigubíl og segist hafa ekið áleiðis suður með augun stútfull af tárum og reiði. „Ég vissi ekki almennilega hvað hafði gerst hjá honum,“ segir hann og á við látinn bróður sinn. Í þessari ferð suður stoppaði hann svo í fjörum hér og þar og gjörsamlega gargaði á hafið og kallaði nafn látins bróður síns.

Hörður.

Eiginkona Steingríms ók á móti honum og hittust þau í Bjarkarlundi og það hjálpaði mikið. „Hún stóð mikið við bakið á mér. Ég þakka áhöfninni fyrir en þeir voru mikið að aðstoða mig.“

Ég var ekki tilbúinn til að gera neitt.

Steingrímur ákvað eftir þetta að koma sér í land. „Ég var ekki tilbúinn til að gera neitt. Ég var heima í um fjóra mánuði og fór að vinna í landi sem vinnslutæknir. Ég held ég hafi verið þar í mánuð og svo gafst ég upp. Ég var ekki með hausinn í takt við lífið.“

Steingrímur, sem segir að Hörður hafi látist af völdum hjartaáfalls, segir að það hafi verið búið að reyna að hjálpa honum mikið. „Sumt fólk er þannig að það vill ekki láta hjálpa sér. Ég reyndi eins og ég gat.“

Hörður hafði búið á Spáni og segir Steingrímur að það hafi tekið um sex vikur að koma líki hans til Íslands.

 

3.600 tonna togari

Steingrímur fæddist í Vestmannaeyjum. Svo flutti fjölskyldan norður og árið 2004 flutti Steingímur svo í Eyjar til að fara á sjóinn. Faðir hans var sjómaður og var þá á Snorra Sturlusyni og hringdi Steingrímur í föður sinn og bað um að fá pláss. „Ég fékk þetta „ætlar þú á sjóinn?“. Steingrímur segir að það séu margir sjómenn í ættinni. „Bróðir minn, Hörður heitinn, var sjómaður.

Ég var á Snorra Sturlusyni þangað til hann var seldur. Mér gekk mjög vel þarna um borð og hafði aldrei unnið þessa vinnu áður og fékk fast pláss bara strax. Svo var Snorrinn seldur og þá fór ég á Þór í Hafnarfirði hjá Guðrúnu og Gústa og var þar í þrjú ár. Flott áhöfn. Topppláss og allt magnað þarna um borð.“

Hafið lokkar og laðar en það gera líka útlönd stundum og Steingrímur vildi út. Út til Noregs. Hann vildi fara á sjóinn með frændum vorum Norðmönnum. Hörður bjó þá í Haugesund.

„Ég sagði upp á Þór, fór út og var kominn með vinnu innan tveggja vikna á einum stærsta togara í Noregi. Tvö millidekk og hvað eina. 3.600 tonna togari.“ Steingrímur varð vinnslustjóri; fékk þá stöðu í þriðja túr.

„Það er gríðarleg ábyrgð að vera vinnslustjóri á svona stórum togara og úti í Noregi. Þetta er svolítið svart og hvítt að vera í þessari stöðu hérna heima og úti því þarna úti ertu með alla ábyrgð undir skipstjóranum. Ábyrgðin var mín að skila góðum afurðum og bera ábyrgð á báðum vöktum.“ Hann segir að þarna hafi hann fílað sig í tætlur. Þarna var hann í þrjú ár og svo var skipið selt.

 

Á reki í fárviðri

Steingrímur segir frá minnisstæðum túr á þessum norska togara. Þeir voru í Flæmska hattinum í janúar. Kvöldið áður en togarinn átti að láta frá höfn kíkti Steingrímur á pöbb og hitti þar gamlan, norskan sjómann. Síðhærðan og tannlausan.

„Hann spurði mig hvað ég væri að gera og ég sagði það og að ég væri að fara í Flæmska hattinn og myndi leggja af stað morguninn eftir. Þá reif hann í öxlina á mér: „Ekki fara. Ég er búinn að fara þangað og ég ætla aldrei aftur þangað.“ Hvaða bull var þetta? Ég vissi að þetta væri slæmt hafsvæði en við fórum þangað á versta tíma ársins og það er enginn þarna í janúarmánuði.“

Svo lagði togarinn frá bryggju.

Ég man að það var kolniðamyrkur, snjóhríð, 20 stiga frost.

„Þetta var níu daga sigling og þegar við mættum út þá var veður eins og ég hafði aldrei séð áður. Ölduhæðin var svo mikil. Ég man að það var kolniðamyrkur, snjóhríð, 20 stiga frost og bara klikkað veður. Kallinn ákvað að láta þá fara. Það hristu allir hausinn. En eftir um hálftíma til klukkutíma kallaði hann niður: „Það verður að hífa þetta; það er eitthvað að.“ Svo var byrjað að hífa og hlerarnir komu upp. Ég var á dekki þarna og þá var annar grandarinn slitinn þannig að það var híft upp á öðrum og reynt að koma þessu inn og grandaspilin voru ekki að hafa þetta. Lengjan var svo komin inn og það var ákveðið að hjálpa þessu að komast inn með gilsum og öðru.“

Svo drapst á skipinu. Í þessu fárviðri.

„Meira að segja neyðarljósin kviknuðu ekki og á sama tíma fengum við brot á okkur. Ég og Otto Svalbard, Færeyingur, vorum stjórnborðsmegin og fundum að það flaug einhver andskotinn yfir okkur. Við vorum heppnir að vera lifandi eftir þetta því þegar ljósið var komið á þá var þetta grandari sem hafði flogið úr stæði hinum megin og skór sem eru notaðir á hlerana. Þetta flaug yfir. Skórnir smölluðust, grandarinn náttúrlega losnaði allur en við sluppum furðu vel.

Það sem gerðist þarna er að við fengum í skrúfuna.“

Steingrímur segir að hann hafi hugsað í þessum aðstæðum að þetta yrði sitt síðasta. Tilfinningin var þannig.

„Svo ákvað kallinn að reyna að slaka krananum aftur niður og reyna að húkka í eitthvað í skrúfunni þannig að hann festist líka og kraninn var pikkfastur. Við vorum bara vélarvana úti. Og stopp. Bara á reki. Svo var færeyskur togari á leiðinni út og það voru tveir sólarhringar í hann. Það var fljótara að bíða eftir honum heldur en að fá skip úr landi. Við biðum og þegar þeir komu var skotið úr línu og það tók heilan dag að ná línunni yfir; það var svo vont veður. Loksins heppnaðist það og við vorum drengir í land og vorum í St. Jones í fjóra daga.

Við vorum uppi í bæ að fá okkur og menn að taka úr skrúfunni. Það fór allt í skrúfuna.

Svo fórum við aftur út á sjó og kláruðum túrinn og náðum að fylla togarann af þorski. Þetta var einn stærsti túr sem ég hef farið í.“

Svo kom að því að togarinn var seldur til Rússlands.

Steingrímur fór á annað skip hjá stærsta útgerðarfyrirtæki Noregs og var þar vinnslustjóri í þrjú ár en svo flutti hann til Íslands og fór að vinna hjá Samherja.

Maður er búinn að heyra margar sögur af þeim.

Var ekki gott að vinna hjá þeim?

„Jú, jú. Maður er búinn að heyra margar sögur af þeim hvað þetta sé mikið skítabatterí og hitt og þetta. Maður heyrði sögur af því að það var hringt frá útgerðinni og sagt „þú ert að fara þangað“ og ef þú sagðir „nei“ þá varstu rekinn. En ég lenti aldrei í svoleiðis þannig að ég hef ekkert út á það að setja. Ég hef ekkert út á þessa útgerð að setja þannig. Ég fór á Oddeyrina.“

 

Allt í brúnum reyk

Oddeyrin var einu sinni á Barentshafi á leið til Íslands. „Þetta var desembertúr. Jólatúr. Það var búið að þrífa allt og græja allt. Það voru flest allir sofandi þessa nóttu en ég var uppi í setustofu að horfa á bíó. Ég var að horfa á Suðurlandið. Myndina. Ég hafði ekki séð þessa mynd áður og vissi lítið um þetta slys. Þarna komst ég að því að þeir höfðu verið að sigla sömu siglingaleið og við til Íslands. Og þarna vorum við um 100 mílur frá Langanesi. Ég var nýbúinn að klára að horfa á myndina og kominn í koju og það liðu svona 10 mínútur þangað til alarmið um borð fór í gangi; brunavarnarkerfið. Það kom óhugur í mann; ennþá með þessa mynd í huga. Ég henti mér í fötin og fór beint upp í brú og þá var manni tilkynnt að það hefði kviknað í. Það var allt í brúnum reyk. Það hafði kviknað í niðri í vél; í rafalnum. Við náðum að slökkva í þessu sem betur fer. Það var magnað hvernig þetta hitti í mark; á sama tíma. Svolítið sérstakt.“

Þetta er eins og ein fjölskylda.

Steingrímur var á Oddeyrinni þangað til hún var seld til Noregs. „Mér var boðið að fara með skipinu og ég gerði það. Við fórum þrír út með skipinu; ég átti að sjá um vinnsluna, svo var það vélstjóri og stýrimaður. Og svo einn á dekki. Við áttum að koma nýrri áhöfn af stað. Ég var þarna í þrjá túra og svo fór ég aftur heim. Ég fór svo á Björk hjá Samherja. Ég fór þaðan 2019 og fór svo að vinna hjá Brim; var á Helgu Maríu.“ Hann segir að þar sé toppáhöfn frá brú og niður í vél. „Þarna leið mér best af öllum skipum sem ég hef verið á. Þetta er eins og ein fjölskylda. Heilsteypt fjölskylda.“

Svo segist hann hafa verið á flakki; nefnir Hrafn Sveinbjarnarson.

 

Hættur á sjónum

Steingrímur sá um tíma um hlaðvarpsþætti, Sjóarann, þar sem hann tók viðtöl við sjómenn en hann er hættur því. Hann segist hafa tekið viðtöl við um 40 sjómenn sem muna tímana tvenna frá því jafnvel fyrir áratugum síðan. „Þetta er tími sem maður þekkti ekki áður og að heyra þessar minningar og um þessa háska; það er magnað að heyra þetta frá þessum mönnum.“

Hann er ekki bara að hætta með þættina heldur er hann líka að hætta á sjónum. „Ég ætla að fara að gera eitthvað annað. Ég ætla að vera meira með fjölskyldunni,“ segir Steingrímur sem á tvo syni og tvö stjúpbörn. „Ég er búinn að vera á sjónum í 18 ár. Þetta er ekkert ægileg saga miðað við þessa kalla sem ég hef talað við en mér finnst það slatti fyrir mig og ég ætla að prófa eitthvað nýtt.“

Hann skráði sig í nám. „Það heitir gæðastjórnun og ég er búinn með hluta af því, diplóma, í Noregi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni