Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

„Álfar eru ekki síður spennandi en draugar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í bókinni Krossgötur fjalla Bryndís Björgvinsdóttir, þjóðfræðingur og rithöfundur, og Svala Ragnarsdóttir heimildaljósmyndari um álfatrú, álfabyggðir og aðra bannhelga staði á Íslandi, en við slíkum stöðum megum við mannfólkið ekki hrófla samkvæmt þjóðtrúnni. Bókin er einnig ljósmyndaverk þar sem Svala myndaði alla þá 54 staði sem fjallað er um í verkinu.

Bryndís Björgvinsdóttir. Mynd / Leifur Wilberg Orrason

„Ég hafði lengi vel mikinn áhuga á draugum en fannst álfar ekki eins spennandi,“ byrjar Bryndís þegar hún er spurð um tilurð bókarinnar. „Ég hef auðvitað menntun í þjóðfræði og þar stúderum við meðal annars þjóðsögurnar. Það var ekki fyrr en við Svala ákváðum að kortleggja álfabyggðir í Hafnarfirði út frá þjóðsögum sem þessi gríðarlegi áhugi á álfum kviknaði. Það var fyrir fjórum árum síðan. Ég hef komist svo sannarlega að því að álfar eru ekki síður spennandi en draugar. Í gegnum álfatrúna birtast ýmsir áhugaverðir siðir, og ýmislegt sem getur sagt okkur margt um samband manns og náttúru, bókmenntir, brandara, hrylling og sögu lands og þjóðar, svo eitthvað sé nefnt.“
Hún segir að niðurstöðurnar vegna bókarinnar hafi verið nokkrar. „Þær snerta meðal annars á samband kristni og álfa, sambandi drauga, dverga og álfa, og sambandi okkar mannfólksins við náttúruna þar sem við álítum álfana vera okkar næstu nágranna, um leið og þeir tilheyra öðrum heimi. Naktir klettar og hraun eru ekki dauð svæði og með því að líta til álfahefðarinnar sem er mjög forn, má sjá að hægt er að líta á þessa mjög svo íslensku náttúru sem lifandi náttúru – hún er lifandi að innan sem utan.

Við sumarhús rétt við Geysi í Haukadal stendur álfsteinninn Skyggnissteinn upp úr viðarpalli. Þegar húsið var byggt 1993 þurftu húsbyggjendur að lúta því skilyrði að hrófla ekki við steininum á lóðinni. Mynd / Svala Ragnarsdóttir.

Náttúran lifandi
Sjálf trúir Bryndís því að náttúran hafi gildi í sjálfri sér óháð okkur manninum og hún eigi að njóta þess að búa í góðu nágrannasambandi við okkur mannfólkið þar sem tekið sé tillit til hennar óháð okkar þörfum. „Álfatrúin endurspeglar slík viðhorf: að náttúran sé lifandi og að það sé ekki okkar að umbreyta henni í sífellu eftir því sem okkur hentar best hverju sinni. Álfatrúin biður okkur um að staldra við og hugsa til framtíðar og hvaða afleiðingar gjörðir okkar gagnvart stokkum og steinum kunna að hafa í stóra samhenginu. Á þann hátt trúi ég á álfa – sem náttúruvætti eða náttúran sjálf holdgerð. Á myndunum í bókinni okkar Svölu má „sjá“ álfa óbeint, það er að segja þau sýnilegu raunverulegu áhrif sem þessi forna hjátrú hefur á umhverfi okkar – vegalagningu, framkvæmdir, byggingar, sólpalla og slíkt.
Hver er þinn uppáhaldsálfastaður? Nú er stórt spurt. Líklegast Hamarinn í Hafnarfirði, sem lýst hefur verið sem fagurri álfahöll. Þar á að vera hátt til lofts og vítt til veggja. Fólk sem býr við Hamarinn hefur lýst góðum kynnum af álfum og þá sérstaklega sjálfri álfadrottningunni sem þar á að búa. Hún á það meðal annars til að fá lánaða hluti.“

Svala Ragnarsdóttir. Mynd / Richard King

Ýmislegt gert til að raska ekki ró álfanna
Bryndís stundaði alla rannsóknarvinnu með Svölu, þær ferðuðust saman um landið og tóku viðtöl. „Ég sá um textavinnuna en Svala tók myndir. Það var ótrúlega gott uppbrot að fá að ferðast um landið með yfirnáttúrunni og Svölu og kynnast landinu upp á nýtt út frá þessu sjónarhorni bannhelgrar náttúru, sögu og fornrar þjóðtrúar. Spjalla við allskonar fólk og heyra sögur þess.
Við komumst fljótlega að því að ekki var nóg að skoða bara álfasteina. Í bókinni er einnig fjallað um dvergasteina, álagabletti og álagasteina, völvuleiði og fornmannahauga. Í íslenskri þjóðtrú eru ótrúlega mörg fyrirbærin sem gæða landið yfirnáttúrulegu lífi. Skemmtilegast var að sjá hvernig mannfólkið hefur til dæmis lagt girðingar sínar í kringum fornmannahauga til að raska ekki ró hinna látnu, eða girðingar í kringum álfasteina til að halda okkur sjálfum frá álfum. Álfatrúin setur okkur mannfólkið líka í skemmtilegt og oft svolítið fallegt samhengi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -