Þriðjudagur 21. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Berum ábyrgð á eigin heilsu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Geir Gunnar Markússon hefur ákveðnar skoðanir varðandi næringarfræði og raunar heilbrigði almennt. Hann segir að Þín heilsa ehf. sé myndlíking á hlutafélagi (vinnu) sem samanstandi af fjórum þáttum: Næringu, hreyfingu, svefni og sálinni. Allt þarf þetta að vera í jafnvægi til að árangur náist og fólk þarf að fara að sinna þessari vinnu eins og raunverulegu starfi en launin eru í samræmi við það.

 

„Allt þarf þetta að vera í jafnvægi til að árangur náist, þetta er bara keðja sem er órofa heild, þar sem eitt hefur áhrif á annað. Engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn,“ segir Geir Gunnar sem starfar á Heilsustofnun NFLÍ og er reynslubolti í þessum fræðum og óhræddur við að ráðast á bábiljur. Nú eru flestir alltaf að hugsa um kílóin og til hans leita skjólstæðingar eftir góðum ráðum. „Það er því miður ekki til nein töfralausn. Ef allir þessir megrunarkúrar og fæðubótarefni virkuðu þá ættum við flest að vera fit og flott en það er ekki raunin. Það verður að huga að þessum fjórum þáttum sem tilheyra Heilsunni ehf.

En hvers vegna þyngjumst við, bæði Íslendingar og Vesturlandabúar? „Því er auðvelt að svara. Við lifum í mjög óheilbrigðu umhverfi á Vesturlöndum. Við höfum ofgnótt af mat og við erum umkring dauðum gervimat. Þá eru flestir sem sitja við vinnu eða heima, hreyfingarleysið er algjört. Streita og svefnleysi spila einnig mjög stóran þátt í þessu og gerir okkur erfiðara að breyta mataræðinu og hreyfingunni til betri vegar.“

Hann segir að orkuefnin séu þrjú. „Það er prótín sem m.a. byggir vöðvana og er hluti ensíma, fita sem er fóðrun og þar eru mikilvæg hormón og svo kolvetnin sem eru er orkugjafinn. Lengi vel var fita aðalóvinur okkar í mataræðinu en sem betur fer er sú tíð liðin en þá hefur einelti hafist gegn kolvetnum. Ég sem næringarfræðingur elska öll þessi næringarefni, því þau hafa öll sína verkun og gildi fyrir líkamann. En þegar við erum farin að þyngjast þá mættu margir fara að huga að því að minnka við sig kolvetnin en þó enga öfga eða sleppa þeim alveg, heldur að takmarka sem mest alla óhollustu sem inniheldur einföld kolvetni eins og gos, sælgæti, kex, kökur og unnar vörur með viðbættum sykri. Ef fólk takmarkar þetta sem mest er það að lifa við þokkalegt heilbrigði og fær meiri orku af alvörumat.“

190 kósídagar

Gunnar Geir segir að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir hversu oft það sé að verðlauna sig með mat. „Það eru allt að 190 kósídagar hjá venjulegri fjölskyldumanneskju á Íslandi árlega. Við erum að tala um daga eins og jól, páska og áramót, öll afmælin, allar helgar, þorrann, góuna, bóndadaginn og konudaginn, í saumaklúbbum og í karlaklúbbum og svo mætti lengi telja. Það er eins og fólk geti ekki komið saman án þess að eitthvað af mat sé á boðstólum. Þetta er meira en helmingur af einu ári sem telur 365 daga. Það er því ekkert skrítið að fólk fitni. Ef við tökum helgar sem dæmi, þá er fólk farið að finna lyktina af helginni á fimmtudeginum og fær sér ef til vill rauðvínsglas og smávegis osta, á föstudegi er helgin hafin og fólki finnst þá gjarnan að það megi gera vel við sig. Á laugardögum er svo hápunktur helgarinnar með miklu sukki í mat og á sunnudeginum eru afgangarnir frá undanförnum dögum í boði. Og vitanlega taka allir þessir kósídagar í þegar verið er að huga að þyngdarstjórnun. Við ættum að hafa meira um andleg kósíheit í stað matar kósíheita, fara saman í göngutúr, knúsast og almennt veita hvort öðru góðan félagsskap.“

- Auglýsing -
Að sögn, Geirs ætti fæði að vera sem næst upprunanum.

Næringarfræðingurinn segir að best sé að byrja á sálinni í heilsueflingu. ,,Það eru allt of margir sem leggja af stað í þeim tilgangi að grenna sig sem gera það í mikilli streitu og kvíða. Við erum uppfull af þekkingu en margt af henni er bara vitleysa eins og það að mega ekki borða brauð. Það er bara mýta. Mjög margir sem koma til mín í næringarráðgjöf og vilja grennast byrja samtalið á því að segja: „Ég er búinn að taka burtu allt brauð“. Brauðið virðist í dag vera orðið upphaf allrar okkar fitusöfnunar. En að grípa í tvær grófar brauðsneiðar yfir daginn er í góðu lagi en auðvitað er ég ekki mæla með því að fólk lifi á brauði og sérstaklega ekki næringarsnauðu hveitibrauði. Í grófu brauði með korni og fræjum eru mörg góð næringarefni eins og t.d. vítamín, steinefni og trefjar. Bjór er hins vegar bara „brauðsúpa“ með lítið sem ekkert næringargildi og áfengi mun aldrei teljast hollt. Dagskammturinn fyrir konur af bjór ætti ekki að fara yfir 330 ml og fyrir karlmen er það um 500 ml, þó má ekki safna þessu upp og fara á fyllirí einu sinni í viku.“

„Við erum uppfull af þekkingu en margt af henni er bara vitleysa eins og það að mega ekki borða brauð. Það er bara mýta.“

Heilsufæði er næringarríkt og ætti að vera sem næst upprunanum

En er einhver munur á að borða appelsínu og drekka appelsínusafa út frá næringarsjónarmiðum ,,Já, það er það sko heilmikill munur. Það eru mest bara kolvetni (ávaxtasykur) í appelsínusafa. Þú ert einungis að kreista safann úr appelsínu og færð því ekki mikilvæg næringarefni eins og trefjar, vítamín og steinefnin sem eru í appelsínunni sjálfri ef þú borðar hana alla. Þetta er líka svo óeðlileg leið til að neyta matar. Hver mundi t.d. borða 3-4 appelsínur eins og er í einu appelsínusafaglasi? Ég myndi því ekki skrifa upp á safakúra,“ segir Geir Gunnar.

- Auglýsing -

Nú eru vinsælar föstur, sem m.a. fela í sér að borða ekki neitt í 16 tíma og borða í 8 tíma, svokallað 16:8 mataræði og eru þá margir að borða frá hádegi til kvöldmatar. ,,Það er margsannað að ef þú borðar hollan morgunverð þá stuðlar það að jöfnum blóðsykri og þú færð þér síður óhollustu yfir daginn og ert frekar í kjörþyngd. Okkur á að þykja vænt um líkama okkar, starfsemi hans er vélin sem við göngum fyrir rétt eins og bíll fyrir bensíni eða rafmagni. Það má fasta að mínu mati í 12 tíma á sólarhring, svokölluð 12:12 fasta, þá borðum við ekkert eftir kvöldmat og næst ekki fyrr en morgunverður er á borð borinn. Það er raunhæfur lífsstíl sem fólk ætti að reyna að tileinka sér í einhvern tíma áður en það reynir lengri og öfgafyllri föstur.

Prótínstangir eru ekki hollar

En hvað með prótínstangir eru þær eins hollar og margir vilja halda? „Það er ekki nóg að búa til prótínstykki með 20 g af prótínum með góðu bragði og í flottum umbúðum. Við verðum að skoða innihaldsefnin í þessari matvöru. Mitt faglega mat á því hvort prótínstöng sé heilsusamleg byggist á þessum fimm atriðum: lág í viðbættum sykri, lág í sætuefnum, gervi- og aukefnum, há í prótíni, há í trefjum og náttúruleg.

„Það er ekki nóg að búa til prótínstykki með 20 g af prótínum með góðu bragði og í flottum umbúðum. Við verðum að skoða innihaldsefnin í þessari matvöru.“

Eftir að hafa metið prótínstangir eftir þessum atriðum þá eru nánast engar stangir á markaði hér sem standast allar þessar fimm kröfur. Við verðum því miður að horfast í augun við það að verksmiðjur geta ekki búið til hollan millibita í formi prótínstanga. Oft er lítill munur á þessum „prótínstöngum“ og t.d. bara hefðbundnu nammistykki eins og Snickers, fyrir utan hátt prótínmagn. Það er betra er að fá sér lúkufylli af möndlum til að fá prótínskammtinn og vera þá í leiðinni laus við viðbætta sykurinn, öll gervi- og aukefnin,“ segir næringarfræðingurinn að lokum.

Texti / Unnur Hrefna Jóhannsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -