Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

„Börnin okkar vildu ekkert vita af nýja manninum mínum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Börnin mín voru orðin uppkomin þegar ég fann mann sem mig langaði að verja lífinu með. Neikvæð viðbrögð þeirra komu mér á óvart. Ég fékk hjálp úr óvæntri átt við að koma vitinu fyrir þau.

 

Við Hjálmar skildum þegar börnin okkar voru átta og tíu ára. Skilnaðurinn fór fram í nokkuð góðri sátt. Við höfðum vaxið hvort frá öðru og öll ást horfin, bara vaninn eftir. Mér til undrunar tók Hjálmar því illa þegar ég bað hann um skilnað. Hann jafnaði sig þó smám saman og við gátum rætt málin af skynsemi. Við ákváðum að reyna af öllum mætti að láta skilnaðinn ekki bitna á börnunum. Bæði kusu börnin að búa áfram hjá mér en við leyfðum þeim að velja. Þau hittu pabba sinn mjög reglulega en hann keypti sér íbúð skammt frá húsinu sem við bjuggum í og heimili hans varð þeirra annað heimili. Hjálmar vildi ekki að ég borgaði hann út úr húsinu þótt hann hefði fullan rétt á því að fá helming andvirðis þess en ég hafði reyndar erft húsið eftir föður minn sem lést skömmu eftir að við Hjálmar fórum að vera saman.

Við höfðum það bæði mjög gott og ég hef aldrei þurft að hafa fjárhagsáhyggjur.

Nýir makar

Ég hafði lítinn áhuga á því að kynnast mönnum fyrstu árin eftir skilnaðinn og fannst óvirðing við börnin mín að bjóða þeim upp á stjúpfeður í röðum. Börnin mín sátu ein að mér og þekktu ekkert annað.

- Auglýsing -

Ég átti mína karlkynsvini en bauð þeim aldrei heim og hélt tilveru þeirra að mestu leyndri fyrir börnunum mínum. Engin alvara fylgdi þeim samböndum.

Hjálmar eignaðist góða konu nokkrum árum eftir skilnaðinn. Hún átti uppkomin börn. Ég varð vör við nokkra afbrýðisemi hjá börnunum okkar þegar konan kom til sögunnar en Hjálmar var mjög ákveðinn við þau og sagðist ekki hlusta á neitt bull. Fram að þessu höfðu þau getað gengið inn og út hjá honum og það hélt áfram en hlutirnir breyttust eðlilega nokkuð þegar hann fór að búa með konunni. Ég reyndi að róa þau en áttaði mig á því að litlu dekurrófurnar okkar vildu bara að hlutirnir væru eftir þeirra höfði og að ekkert breyttist. Við höfðum leyft þeim að komast upp með að ganga alltaf að okkur vísum. Ég áttaði mig almennilega á því þegar ég sjálf varð ástfangin.

Elskan hann Leifur kom inn í líf mitt þegar ég við vorum bæði á miðjum fimmtugsaldri. Við fórum að spjalla saman í bókaverslun og þegar hann bauð mér að drekka kaffibolla með sér í kaffihúsinu á staðnum þáði ég það. Til að gera langa sögu stutta þá urðum við ástfangin við fyrstu sýn. Við vildum bæði fara hægt í sakirnar en ástin lætur ekki að sér hæða. Á skömmum tíma leið okkur eins og við hefðum alltaf þekkst og það voru ekki liðnir margir mánuðir þegar við ákváðum að fara að búa saman.

- Auglýsing -

Tortryggni

Dóttir mín var farin að búa með kærasta sínum þegar þetta gerðist en yngra barnið, sonurinn, var 19 ára og bjó í lítilli stúdíóíbúð sem ég hafði látið innrétta fyrir hann í kjallara hússins. Þau brugðust ekki illa við þegar ég sagði þeim fyrst frá því að ég hefði kynnst góðum manni en það breyttist þegar þau áttuðu sig á því að alvara var í spilinu og að við ætluðum að fara að búa saman. Þegar ég bauð Leifi heim í mat í fyrsta skiptið mættu þau ekki og þóttust vera upptekin. Mér sárnaði við þau því ég vildi að þau kynntust honum og sýndu honum eðlilega kurteisi. Leifur sagði að þetta væri ábyggilega erfitt fyrir þau, þetta myndi jafna sig. Ég var ekki jafnviss og hann.

Börnin hans Leifs tóku mér vel og mun betur en ég þorði að vona, miðað við framkomu barnanna minna. Mamma þeirra var reyndar gift aftur góðum manni sem þeim líkaði vel við.

Ég óttaðist að gera illt verra ef ég léti sverfa til stáls á svona viðkvæmum tíma.

Þegar ég síðan sagði þeim að ég ætlaði að fara að búa með Leifi og að hann flytti til mín vissi ég ekki hvert þau ætluðu. Þau reyndu mikið að sannfæra mig um að það væri misráðið af mér. Þau voru tortryggin og gengu meira að segja svo langt að benda mér á að hann ásældist eigur mínar. Ég benti þeim á að Leifur ætti sjálfur ágæta íbúð sem sonur hans ætlaði að leigja af honum, hann ætti mun dýrari bíl en ég og hefði góð laun. Allt kom fyrir ekki, þau héldu áfram að vera tortryggin. Börnin mín höguðu sér eins og spilltir dekurkrakkar sem þau voru vissulega. Ég sá þau í alveg nýju ljósi. Þau höfðu alltaf verið einstaklega ljúf og góð en það var greinilega vegna þess að þau fengu alltaf allt sem þau vildu. Þeim fannst þetta ógna tilveru sinni og brugðust við af eigingirni.

„Þau höfðu alltaf verið einstaklega ljúf og góð en það var greinilega vegna þess að þau fengu alltaf allt sem þau vildu. Þeim fannst þetta ógna tilveru sinni og brugðust því illa við.“

Fjandskapur

Leifur flutti til mín þrátt fyrir allt og hamingja okkar var mikil frá fyrstu stundu. Aðeins einn skugga bar á og það var framkoma barnanna minna. Þegar strákurinn kom upp til að borða passaði hann sig á því að gera það ekki á sama tíma og við. Ef hann rakst á Leif lét hann yfirleitt sem hann sæi hann ekki. Dóttir mín hafði verið dugleg við að koma í mat til mín og bjóða mér í mat en nú hætti hún að koma nema hún væri viss um að Leifur væri að heiman. Hún reyndi nokkrum sinnum að bjóða mér einni í mat en ég þáði það ekki. Ég sagði fyrir rest að Leifur væri maðurinn minn og að annaðhvort byði hún okkur báðum eða hvorugu. Leifur var sallarólegur yfir þessu öllu saman og sagði að þetta myndi lagast. Ég var ekki jafnvongóð.

„Hún reyndi nokkrum sinnum að bjóða mér einni í mat en ég þáði það ekki. Ég sagði fyrir rest að Leifur væri maðurinn minn og að annaðhvort byði hún okkur báðum eða hvorugu.“

Hjálmar hringdi óvænt eitt kvöldið og ætlaði að tala við son okkar sem var með slökkt á gemsanum en stráksi hafði farið í bíó með vinum sínum. Við fórum að spjalla saman og hann spurði mig hvernig gengi. Ég sagði að allt væri í sómanum en þegar hann gekk á mig ákvað ég að segja sannleikann. Börnin okkar vildu ekkert vita af nýja manninum mínum og sýndu það við hvert tækifæri. Mér létti eftir samtalið við Hjálmar. Hann sagði mér að krakkarnir hefðu reynt að vera með leiðindi þegar hann fór að vera með konunni sinni og börn hennar hefðu til að byrja með verið tortryggin í hans garð. Allt væri komið í gott lag núna og vonandi gerðist það líka í mínu tilfelli.

Ástandið breyttist hægt og rólega þegar sambúð okkar Leifs hafði varað í um ár. Það gladdi mig mikið en ég vissi ekki fyrr en löngu seinna að ég hafði fengið góða hjálp úr óvæntri átt –frá fyrrverandi eiginmanni mínum. Hann ákvað að ræða þessi mál við börnin okkar og tók víst ekki á þeim með neinum silkihönskum.

Óttuðust um eigur mínar

Þótt hlutirnir hefðu lagast fann ég að börnin höfðu nokkrar áhyggjur af eigum mínum, eða tilvonandi arfi þeirra, og ég áttaði mig á því að þau litu á allt mitt sem sitt. Þau spurðu mig, reyndar skömmu eftir að við Leifur fórum að búa saman, hvað gerðist ef ég dæi skyndilega, hvort Leifur erfði eigur mínar. Það fauk illilega í mig og ég sagði að þau væru lögerfingjar mínir, við Leifur værum ekki gift og það væri ekki á döfinni. Börn Leifs væru lögerfingjar hans og fengju allt eftir hans dag. Þetta væru samt okkar eigur og við gætum gert það sem við vildum við þær, selt allt og lagst í ferðalög ef okkur sýndist svo. Mikið sárnaði mér en ég komst að því fljótlega að þetta er ekkert einsdæmi.

Fyrrverandi konan hans Leifs missti manninn sinn snögglega og það var ekki liðin vika frá útförinni þegar börn hans, yngsta innan við tvítugt, mættu heim til  ekkjunnar og tóku þaðan hluti sem höfðu verið í eigu föður þeirra. Þau tóku kannski ekki húsgögn en völdu sér muni sem hann átti. Strákurinn hans tók til dæmis úr föður síns og hefur gengið með það síðan. Ekkjan lét þetta yfir sig ganga til að halda friðinn og sagði að þeim væri að sjálfsögðu velkomið að fá hlutina hans. „Velkomið?“ sagði þá eitt barnið, „við eigum rétt á því!“ Börnin hans hefðu fengið þessa hluti ef þau hefðu beðið um þá en fannst greinilega óþarfi að sýna sjálfsagða kurteisi. Ég þekki ekki vel lögin um óskipt bú en mig grunar að þessir krakkar séu hvergi nærri hættir, pabbi þeirra átti helminginn í íbúðinni á móti konunni og spurning hvort hún komist upp með að sitja í óskiptu búi.

Mitt, mitt, mitt!

Samband okkar Leifs er yndislegt. Við erum skráð í sambúð en gifting hefur ekki komið til tals. Kannski spilar inn í hvernig börnin mín hafa látið en ég minnist þess ekki að hafa litið á eigur móður minnar sem mínar eigin á meðan hún lifði, eins og þau virðast gera.

Ég vissi til dæmis að mamma laumaði oft einhverju að ungu konunni sem leigði í kjallaranum hjá henni og þreif einnig fyrir hana. Hún gaf konunni alltaf væna peningaupphæð í jólagjöf sem mér fannst fallega gert. Mamma var með fullu viti og sjálfráða einstaklingur. Hún var alltaf örlát og börnin mín fengu að njóta þess. Unga konan er útlensk og einstæð móðir að auki og gekk illa að sjá sér og dóttur sinni farborða. Ég fór oft í búðir fyrir mömmu en eftir að þessi kona kom til sögunnar tók hún við því hlutverki. Konan keypti ekki bara inn fyrir mömmu og þreif fyrir hana, heldur snerist fyrir hana á allan hátt og eldaði oft matinn fyrir hana, með því móti fannst konunni hún líklega geta þegið eitthvað frá mömmu. Ég hitti þessa konu nokkrum sinnum og vissi að hún misnotaði ekki góðvild mömmu. Henni þótti vænt um mömmu og það var gagnkvæmt.

Eftir lát mömmu leigði ég út hæðina sem hún hafði búið í en útlenda konan sem reyndist mömmu svo vel býr enn í kjallaraíbúðinni og borgar sömu leigu og áður. Það er mín leið til að sýna henni þakklæti fyrir öll elskulegheitin við mömmu.

Leifur er í fínu sambandi við fyrrverandi konu sína og var henni mikill stuðningur í erfiðleikum hennar. Stjúpbörn hennar voru ekki leiðinleg við „nýju“ konuna á meðan pabbi þeirra var á lífi en sýndu henni aðra og verri hlið á sér eftir að hann lést. Það hefur gert henni sorgarferlið mun erfiðara. Vissulega eru  dæmi þess að eftirlifandi maki taki eignir út úr dánarbúinu til að gefa eigin börnum og svo þegar kemur til skiptanna er lítið eftir fyrir lögerfingjana. Þetta eru alltaf erfið mál og ég ætla að gæta þess að hafa alla hluti á hreinu varðandi mig og börnin mín. Þau virðast hneyksluð á framkomu fólksins gagnvart stjúpu sinni sem gerir mig vonbetri um að Leifur lendi ekki í sömu leiðindum ef ég kveð þennan heim á undan honum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -