Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Engin verður svikinn af „borgarferð“ til Akureyrar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það verður engin svikinn af „borgarferð“ til Akureyrar, þessarar höfuðborgar Norðurlands eins og hún er oft kölluð, því þar er allt til alls, matar- og listamenning auk margra íþróttafélaga. Auðveldlega er hægt að eyða nokkrum dögum á Akureyri án þess að komast yfir allt sem hún hefur upp á að bjóða.

 

Léttur rígur hefur alltaf ríkt á milli Reykjavíkur og Akureyrar en ég held að hann risti ekki djúpt. Sunnanmenn hafa sína sérstöðu og norðanmenn sína en bæirnir eiga margt sameiginlegt þrátt fyrir að hinn fyrrnefndi hafi fleiri íbúa. Þeir sem koma fljúgandi til Akureyrar missa ef til vill af hinu fagra Eyjafjarðarmynni, en hins vegar er flugið 40-45 mínútur á meðan það er 5-6 tíma útsýniferð um landið okkar ef keyrt er. Leigubílar eru hins vegar ódýrari á Akureyri en í höfuðborginni því vegalengdir eru styttri. Meðalverð á ferð með leigubíl var um 1000-2000 kr. auk þess sem margt er göngufæri ef gist er í miðbænum eða nálægt honum.

Hin fallega Akureyrarkirkja vekur strax athygli strax þegar komið er í miðbæinn. Hún er glettilega lík Hallgrímskirkju, enda arkitektinn sá sami, húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson. Hann komst svo að orði við vígsluna árið 1940 að Akureyrarkirkja væri ,,langveglegasta og fegursta kirkjubygging sem reist hefur verið af lúterskum söfnuði“. Og vissulega er hún glæsileg. Í fagurskreyttum gluggum hennar má sjá sögu kristninnar á Íslandi og þess vegna er hægt að mæla með að þramma upp tröppurnar og sjá dýrðina. Í miðbænum er líf og fjör, búðir, bíó, verslanir, fjölbreyttir veitingastaðir og kaffihús. Gæðin eru oftast mikil á veitingastöðum og verðlagið svipað og í Reykjavík.

Skemmtilegar íþróttir

Það er rík hefð fyrir fjölbreyttu íþróttalífi á Akureyri. Hlíðarfjall er nánast í miðbænum og þar er gaman að skíða eða vera á snjóbretti. Þá er tilvalið að skella sér á skauta, í íshokkí eða krullu í Skautahöll Akureyrar. Auk þess sem getið er að ofan eru handbolti og fótbolti vinsælar íþróttir og svo er auðvitað sundið en það eru hvorki meira né minna en þrjár sundlaugar í bænum eða nágrenni hans. Þá má ekki heldur gleyma göngu- og hjólreiðum í Kjarnaskógi.

Listasafnið á Akureyri er yngsta listasafn landsins. Hugmyndin að stofnun þess kom upphaflega frá Jónasi Jónssyni frá Hriflu í blaðagrein sem hann skrifaði árið 1960. Þrír áratugir liðu uns hugmyndin um Listasafnið á Akureyri komst aftur í umræðuna og varð hún loksins að veruleika á afmælisdegi bæjarins þann 29. ágúst 1993. Listasafnið á Akureyri er til húsa þar sem áður var Mjólkursamlag KEA en byggingin er undir sterkum áhrifum frá Bauhaus-skólanum og hinni alþjóðlegu funkís-hreyfingu. Listasafnið á Akureyri er miðpunktur og sameiningartákn Listamiðstöðvar í Grófargili.

- Auglýsing -
Listasafnið hýsti áður Mjólkursamlag KEA en hefur nú fengið nýtt hlutverk.

Listasafnið á Akureyri leggur áherslu á að virkja sem flesta til þátttöku, að fræða almenning um sjónlistir og efla umræðu um samfélagið, menningu og listir þar sem safnkennsla og fyrirlestrahald skipar stóran sess. Þá er einnig lögð áhersla á samstarf við erlenda aðila, ekki hvað síst á Norðurlöndum. Safnið leitast við að setja upp árlega nokkrar metnaðarfullar sýningar til að efla menningarlíf bæjarins, auka við þekkingu, áhuga og efla skilning á sjónlistum.

Listfengir Akureyringar

Minjasafnið á Akureyri geymir  muni og ljósmyndir sem tengjast lifnaðarháttum fyrri tíma í Eyjafirði og á Akureyri. Í sýningum er leitast við að gera sögu fjarðarins skil á sem bestan hátt til fróðleiks og ánægju fyrir safngesti. Í safninu eru bæði grunnsýningar sem rekja sögu héraðsins og Akureyrar og þar virðist fyrirtækið KEA hafa marga þræði í hendi sér og vera allt í öllu. Þá eru eru skammtímasýningar um ýmis efni. Sólarhringskort á Minjasafnið, í Nonnahús, Davíðshús og Laufás kostar 2000 kr.

- Auglýsing -

Ekki hægt að sleppa umfjöllun um hið fallega Hof, menningarhús Akureyrar og nágrennis, en þar eru ávallt fjölbreyttir viðburðir. Ég naut söngs Andreu Gylfadóttur og djasstríós hennar og auðvitað má ekki gleyma Leikfélagi Akureyrar, sem alltaf er með spennandi og skemmtilegar sýningar.

Rithöfundum gert hátt undir höfði

Davíðshús er hús Davíð Stefánssonar skálds frá Fagraskógi og stendur við Bjarkarstíg 6. Eftir lát Davíðs ánöfnuðu erfingjarnir bókasafni og innanstokksmunum og upphaflega átti að koma hvoru tveggja fyrir á Amtbókasafninu en nokkrir vinir Davíðs efndu þá til landssöfnunar og húsið var keypt og afhent Akureyrarbæ til umsjónar. Þar var opnað safn á efri hæð og íbúðin varðveitt eins og hann skildi við hana. Bókasafn Davíðs var eitt merkasta bókasafn landsins í einkaeigu og þar er að finna fágæt listaverk eftir vini skáldsins. Safnið er aðeins opið yfir sumartímann en heimasíða safnsins er: minjasafnid.is.

Nonnahús er bernskuheimili Jóns Sveinssonar, Nonna, rithöfundar sem samdi hinar vinsælu bækur um Nonna og Manna. Ármann var yngri bróðir höfundar en hann lést langt fyrir aldur fram úr berklum. Nonni var kennari en vegna veikinda hætti hann kennslu í Danmörku og sneri sér þá að því að skrifa Nonnabækurnar sem alls urðu 12 og voru þýddar á 30-40 tungumál og gefnar út í milljónum eintaka. Þær fóru því jafnvíða og höfundurinn sjálfur sem ferðaðist um heiminn og hélt um 5000 fyrirlestra í ótal löndum. Árið 1930 var Jón gerður að heiðursborgara Akureyrar. Bernskuheimili hans hefur nú verið gert að safni en Nonnahús er eitt af elstu húsum bæjarins, byggt um 1850 og er dæmigert fyrir kaupstaðarheimili fyrri tíma. Safnið er opið yfir sumartímann en þó er hægt að fara þangað að vetrarlagi en þá er engin leiðsögn.

Fallegt leirtau í fallegri umgjörð í Nonnahúsi.

Matthías Jochumsson er sennilega langþekktastur fyrir textann við þjóðsöng okkar Íslendinga, Ó Guð vors lands, en honum var fleira til lista lagt. Hann var einnig prestur,  blaðamaður og ritstjóri. Matthías leit alltaf að starf blaðamannsins sem fræðslustarf og til að hvetja til hvers konar drengskapar. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðar Lýðs á Akureyri. Hann var dugandi í stjórnmálabaráttu en vildi láta anda mannúðar, víðsýni og friðar göfga allan landslýð. Hús hans, Sigurhæðir, er til sýnis á sumrin.

Texti / Unnur Hrefna Jóhannsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -