Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

 Erfið vinkona

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég og Emma kynntumst í sex ára bekk og urðum strax vinkonur. Þrjátíu árum seinna áttaði ég mig hins vegar á að vináttan var einhliða því Emma naut góðs af mér en gaf lítið eða ekkert til baka.

Emma var einkabarn foreldra sinna. Þau höfðu reynt lengi að eignast barn en ekkert gengið og voru búin að sætta sig við að verða barnlaus þegar mamma hennar varð ófrísk.  Gleðin og hamingjan var mikil þegar lítil stúlka komin í heiminn og ekki minnkaði hún neitt eftir því sem Emma stækkaði. Um það leyti sem við gengum í fyrsta sinn inn í skólabyggingu með stórar töskur á bakinu var Emma þegar sannfærð um að hún bæri af öðrum börnum.

Hún var ljóshærð með þykkt liðað hár, öfurlítið búlduleit með spékoppa og stór blá augu. Mamma hennar hafði verið heimavinnandi frá því hún fæddist en þau hjónin voru mjög vel stæð. Mun betur stæð en foreldrar mínir sem bjuggu í blokk og unnu bæði úti. Emma var læs þegar hún byrjaði í skólanum og mamma hennar hafði kennt henni ýmislegt í reikningi líka. Ég var aftur á móti ósköp venjulegur krakki. Emma var því langt á undan mér og öllum öðrum og hélt því forskoti lengi.

Fyrir tilviljun settist Emma við hliðina á mér og við fórum saman út í frímínútur. Þegar hún komst að því að ég bjó í næstu götu við hana spurði hún hvort ég vildi ekki vera samferða henni og mömmu hennar í bílnum heim. Brátt var það orðið að fastri venju að þær mæðgur sóttu mig á morgnana og ég fór heim með Emmu á daginn. Við unnum heimavinnuna okkar við borðstofuborðið heima hjá henni og lékum okkur svo þangað til ég þurfti að fara heim í kvöldmat.

Lokuð úti á svölum

- Auglýsing -

Einhverju sinni þurfti mamma Emmu að skreppa frá og við urðum eftir einar heima. Emma vildi leika sér í Barbíleik en ég var niðursokkin í púsluspil sem ég hafði fundið í herberginu hennar og hlýddi ekki þegar hún bað mig að hætta því. Hún horfði á mig svolitla stund og áttaði sig á að ég ætlaði ekki að gefa mig. Þá sagði hún: „Komdu með mér inn í herbergið hennar mömmu. Ég ætla að sýna þér svolítið.“

„Ég hélt fyrst að þetta væri bara stríðni og bráðum myndi hún koma og hleypa mér inn aftur en tíminn leið og ekki kom Emma. Ég kallaði og bankaði en fékk ekkert svar.“

Hjónaherbergi pappa hennar og mömmu var algjör ævintýraheimur og Emma vissi vel að ég myndi ekki neita þessu boði. Hjónarúmið var risastórt og fallegt kínverskt silkiteppi breitt yfir það. Stórt snyriborð stór úti í horni og á því voru ótal fjársjóðir. Ilmvatnsglös, kristalskrús með skartgripum og silfurkreytt burstasett. Ég fann alltaf fyrir lotningu þegar ég gekk þangað inn og við höfðum stundum fengið að fara inn í fataherbergið og skoða pelsa, glæsikjóla, skó og töskur. En að þessu sinni stefndi Emma beint að svalahurðinni.

„Komdu,“ sagði hún. „Ég ætla að sýna þér.“ Hún opnaði hurðina og ég elti hana út. Ég var ekki fyrr komin út á svalirnar en hún stökk inn og læsti hurðinni. Ég hélt fyrst að þetta væri bara stríðni og bráðum myndi hún koma og hleypa mér inn aftur en tíminn leið og ekki kom Emma. Ég kallaði og bankaði en fékk ekkert svar. Þetta var að vetri til og snjór yfir öllu. Svalagólfið var þakið krapi og ég á sokkunum. Ég veit ekki hversu langur tími leið en ég var orðin mjög köld og hrædd. Frá svölunum á efri hæðinni sást inn um stóran stofugluggann um nær allt rýmið á neðri hæðinni. Allt í einu sá ég hvar Emma kom niður stigann og gekk beint inn í eldhús. Hún opnaði ísskápinn og fór að taka sér til eitthvað að borða og þá áttaði ég mig á að ekki var á dagsskrá að hleypa mér inn á næstunni.

- Auglýsing -

Klifraði niður af annarri hæð

Óttinn og kuldinn rak mig til að leita annarra leiða og ég klifraði því yfir handriðið og tókst einhvern veginn að láta mig síga niður með þakrennunni og niður í garðinn. Ég hljóp að útidyrahurðinni og hringdi, ætlaði að ná í skóna mína, úlpuna og skóladótið en Emma svaraði ekki. Þetta endaði með að ég gekk heim sokkunum og peysunni. Mamma var alveg brjáluð og fór til að sækja eigur mínar. Þegar hún kom til baka var hún alveg miður sín því mamma Emmu hafði neitað að hlusta á nokkuð af því sem mamma sagði og tilkynnti að dóttir hennar myndi ekki framar leika sér við barn eins og mig.

„Emma var reyndar snillingur í að öðlast vináttu og aðdáun hinna fullorðnu. Hún var hlýðin og eftirlát þegar þeir voru nærri og færði til dæmis kennaranum reglulega blóm og alltaf páskaegg fyrir hverja páska.“

Í nokkrar vikur eftir þetta forðaðist ég Emmu og hún mig en svo fór hún að sækjast eftir félagsskap mínum aftur. Mamma var alltaf tortryggin út í hana og ekki að ástæðulausu. Ef ég gerði ekki eins og Emma vildi gerði hún alltaf eitthvað á hlut minn þótt það væri aldrei jafnalvarlegt og í þetta fyrsta sinn. Blýantur með skrauti á sem mér þótti vænt um hvarf og fannst brotinn á gólfinu í skólanum, húfa sem amma prjónaði handa mér var klippt í sundur og margt fleira. Alltaf sagðist Emma saklaus og ég vildi trúa henni þótt mamma gerði það aldrei.

Emma var reyndar snillingur í að öðlast vináttu og aðdáun hinna fullorðnu. Hún var hlýðin og eftirlát þegar þeir voru nærri og færði til dæmis kennaranum reglulega blóm og alltaf páskaegg fyrir hverja páska. Þannig var þetta alla grunnskólagöngu okkar. Margt breyttist hins vegar þegar við komum í menntaskóla. Saxast hafði á forskotið sem Emma hafði í námi og nú stóð ég mig mun betur en hún. Emma fann sig aldrei í framhaldsskóla því kennararnir höfðu lítinn áhuga á henni og hún var aldrei miðpunktur athyglinnar eins og áður. Emma hætti eftir tvö ár og fór í skóla út í Bretlandi. Mamma hennar flutti út og hélt heimili fyrir þær mæðgur á meðan.

Blómstraði án vinkonunnar

Meðan Emma var úti blómstraði ég.  Áður höfðum við verið að mestu tvær því flestar aðrar stelpur gáfust fljótt upp á Emmu en nú varð ég hluti af stórri stelpuklíku sem tók upp á mörgu skemmtilegu og ég kynntist raunverulegri vináttu í fyrsta sinn. Á sumrin þegar Emma var heima vildi hún taka upp þráðinn og að allt yrði eins og áður en ég var ekki tilbúin til þess. Ég reyndi að draga Emmu inn í kíkuna en hinum stelpunum líkaði ekki við hana og þoldu ekki stjórnsemina í henni.

„Þarna áttaði ég mig á að ég kærði mig ekki um þessa vináttu og sagði það hreinskilinislega. Nokkrum sinnum í gegnum árin hefur Emma hringt í mig full og ýmist vælt um að hún vilji laga vináttu okkar eða ausið yfir mig svívirðingum.“

Samverustundir okkar Emmu urðu því sífellt færri en þráðurinn á milli okkar slitnaði aldrei alveg. Hún hélt áfram í háskólanám í háskólanám í Bretlandi og kynntist þar velefnuðum manni sem hún giftist. Ég heyrði ekkert frá henni í ein fimm ár en kvöld eitt var hringt heim til mín. Það var orðið nokkuð áliðið og ég komin upp í rúm, enda mið vika. Emma var á línunni, nokkuð drukkin og nú átti að gera upp gamlar sakir. Hún hellti sér yfir mig og sagði mig sníkjudýr sem notið hefði góðs af henni og hennar fjölskyldu og svo yfirgefið hana þegar hún þurfti mest á mér að halda.

Ég sagðist ekki skilja hvað hún ætti við því ég kannaðist ekki við að hafa á nokkurn hátt haft hag af vinátu við hana. Hún öskraði þá á mig ókvæðisorð og skellti síðan á. Mér leið hálfilla daginn eftir og hringdi því í sameiginlegan kunningja sem sagði mér að Emma væri skilin og komin heim. Hann sagði að skilnaðurinn hefði verið ljótur og líklega væri Emma þess vegna miður sín. Ég ákvað því að hringja og vita hvort ég gæti gert eitthvað fyrir gamla vinkonu sem ætti erfitt. Emma reyndist ekki í betra skapi en kvöldið áður þótt hún væri ódrukkin í þetta sinn og hún sagði ýmsa ljóta hluti um mig. Meðal annars að ég hefði logið upp sögunni af því þegar hún lokaði mig úti á svölunum.

Þarna áttaði ég mig á að ég kærði mig ekki um þessa vináttu og sagði það hreinskilinislega. Nokkrum sinnum í gegnum árin hefur Emma hringt í mig full og ýmist vælt um að hún vilji laga vináttu okkar eða ausið yfir mig svívirðingum. Ég bregst alltaf eins við. Ég segi: „Mér þykri vænt um þig Emma og óska þér alls hins besta en ég vil ekki umgangast þig. Þú notar fólk en kannt ekki að gefa af þér.“

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -