Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Slapp naumlega frá barnaníðingi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Sumarið 1963 var Emil tíu ára. Þá byggðu strákar dúfnakofa; áttu dúfur. Emil var þar á meðal. Mikið var byggt á þessum árum og auðvelt að fá efni í kofa. Þetta voru litlir kofar úr mótatimbri og svo settu strákarnir tjörupappa á þakið svo það læki ekki. Svo voru búrin úr neti sem strákarnir keyptu í Reykjavík eða fengu hjá körlum sem voru að múra. Þetta var tími sakleysis og gleði en í paradís leynast ævinlega höggormar.

Þetta voru alls konar dúfur og hver tegund hafði sín einkenni. Blágráar húsdúfur, litskrúðugar skrautdúfur, hvítir ísarar sem voru loðnir fram á tær. Svo voru hojarar. Þeir voru líka hvítir og með mikið stél og þeir reigðu hausinn aftur á bakið. Það voru lífleg viðskipti milli strákanna með dúfurnar og mikið um alls konar skipti. Þetta var góður tími. Það var gaman.

Svo fréttu strákarnir af dönskum karli inni í Reykjavík sem sagt var að ætti helling af dúfum.  Dag einn ákvað Emil að heimsækja þennan karl. Honum hafði verið sagt hvar karlinn átti heima.  Nú átti hann hundraðkall í seðlum og eftir hádegi einn daginn ákvað hann að fara með strætó til Reykjavíkur að hitta karlinn og athuga hvort ekki væri hægt að fá hjá honum dúfur.

„Svo kom karlinn aftur og læsti útidyrunum og sagði eitthvað á dönsku sem Emil skildi ekki. Emil brá. Karlinn hafði læst útidyrunum. Hvers vegna?“

Hann fann hentugan pappakassa inni í geymslu undan vörum sem vinur mömmu hans og pabba hafði komið með. Og svo lagði Emil af stað með samanbrotinn kassann undir hendinni út á stoppistöð. Emil fann húsið þar sem karlinn átti heima og gekk um húsasund inn í bakgarð. Þegar þangað kom sá hann stórt dúfnahús með enn þá stærra útibúri. Þarna var alveg hellingur af dúfum af öllu tagi. Emil horfði í undrun á þetta góða stund og hlustaði á kurrið í dúfunum. Ja, hérna, þetta var enginn smákofi. Þetta var sko alvörudúfnahús og ekkert smáræði af dúfum.

Hann hringdi dyrabjöllu og það kom lítill feitur karl til dyra og heilsaði á útlensku. Það hlaut að vera danska. Karlinn var jú danskur. Þetta var góðlegur karl sem brosti breitt. Emil heilsaði honum og sagðist vera kominn til að fá að sjá dúfur. Karlinn talaði ekki íslensku, en Emil fannst hann samt skilja það sem hann sagði. Hann gerði honum skiljanlegt að hann ætti að koma inn fyrir og bíða.

- Auglýsing -

Þykkar, ljótar hendur

Frá dyrunum var komið inn í litla stofu, en karlinn fór inn á gang að tala í síma og talaði áfram á dönsku. Emil fór úr skónum og horfði í kringum sig. Þarna var borðstofuborð með bólstruðum stólum í kring. Hinum megin við dyrnar voru hillur með bókum og myndum. Á veggnum við hliðina á þeim nær dyrunum inn á ganginn var mynd af Jesú Kristi. Úti í horninu var lágt borð og á því lampi með stórum skermi. Á veggnum hinum megin við gluggann hékk gömul pendúlklukka sem gekk hægt og letilega, tikk takk – tikk takk – tikk takk.

Svo kom karlinn aftur og læsti útidyrunum og sagði eitthvað á dönsku sem Emil skildi ekki og honum brá. Kallinn hafði læst útidyrunum. Hvers vegna?  Emil varð smeykur. Hafði karlinn bara verið að þykjast tala í símann til að gabba hann inn í húsið? Emil stóð við borðið í stofunni og kallinn settist á stól alveg upp við hann og áður en hann vissi af hafði karlinn tekið hann í fangið og byrjað að káfa á honum. Karlinn hafði þykkar, ljótar hendur og svo andaði hann líka eitthvað svo undarlega. Hann var með gular skakkar tennur. Hann var andfúll og það var vond lykt af honum. Hann var í gljáslitnum gráröndóttum buxum og grænni skyrtu. Hann var með feitt andlit og bláar kinnar. Hann var gamall og ljótur.

- Auglýsing -

Karlinn talaði eitthvað við sjálfan sig á dönsku, eitthvað sem Emil skildi ekki og hann fór líka með hendurnar á staði sem enginn má snerta. Emil leið mjög illa. Hann var hræddur. Þegar um hálf mínúta var liðin hringdi síminn inni á ganginum og þá sleppti karlinn taki sínu á Emil og hvarf inn á ganginn til að svara. Emil stóð nú aftur í þeim sporum sem hann hafði staðið meðan hann hafði beðið eftir karlinum nokkrum andartökum áður. Hann vissi ekki í hverju hann var lentur og ekki heldur hvað hann ætti að taka til bragðs.

Vildi ekki læra dönsku

Karlinn var pirraður og talaði hátt á dönsku. Hann hafi verið upptekinn. Hann vildi losna úr þessu símtali og talaði hátt og frekjulega. Þá allt í einu hrökk Emil við. Eldsnöggt horfði hann í kring um sig. Hann staðnæmdist augnablik við myndina af Jesú og þótti svipur hans alvörugefinn. Honum fannst hann horfa á sig eins og hann væri að senda sér skilaboð með sínum alvarlega, milda svip. Því næst leit hann á útidyrnar. Lykillinn stóð í skránni. Nú gerðist allt í senn. Hann tók ákvörðun og framkvæmdi á sama augnabliki. Hann gekk að dyrunum, greip skóna sína, sneri lyklinum í skránni, opnaði dyrnar og fór út. Á einu andartaki var Emil kominn út undir bert loft. Dúfunum brá við þennan hraða og óvænta umgang og þær flögruðu upp í búrinu. En það gerði ekkert til. Hann langaði ekkert í þessar dúfur. Það var hægt að fá nóg af þeim annars staðar. Pappakassinn hafði orðið eftir inni hjá karlinum og hann var að hugsa um að snúa við og sækja hann, en hætti við það. Hann hljóp á sokkunum fram hjá dúfnahúsinu og út á gangstéttina við götuna. Þar fór hann í skóna sína og án þess að reima þá hraðaði hann sér burt frá þessu húsi. Hann var þögull.

„Því næst leit hann á útidyrnar. Lykillinn stóð í skránni. Nú gerðist allt í senn. Hann tók ákvörðun og framkvæmdi á sama augnabliki.“

Þegar strákarnir spurðu Emil hvort hann hefði farið að heimsækja danska dúfnakarlinn svaraði hann án þess að hugsa; að karlinn hafi ekki verið heima. Svo leið sumarið með strákum og dúfum. Síðan kom haustið og skólinn byrjaði. Og nú var í fyrsta sinn komið að því að Emil ætti að læra dönsku. En hvernig sem á því stóð, þá opnaði hann ekki dönskubókina. Alveg var sama hvaða brögðum var beitt til að fá upp úr honum hvers vegna. Allt kom fyrir ekki. Hann sagði ekki neitt. Hann þagði. Hann ætlaði ekki að læra dönsku, fannst hún ljót. Mamma hans reyndi allt sem hún gat, en tókst ekki að tjónka neitt við hann. Að lokum gafst hún upp og pabbi hans gaf honum utan undir og sagði honum að skammast sín. Emil sat þögull og niðurlútur með kökk í hálsinum og reyndi að kyngja honum.

Heppinn að sleppa

Allt frá því að þetta atvik átti sér stað hefur það verið til í hugskoti mínu. Stundum hefur það legið í dvala og ekki minnt á sig í langan tíma, jafnvel einhver ár. Þó hefur ekki mikið þurft til að minningin um það geri vart við sig. Dæmi um algert hugsunarleysi samfélagsins er t.d. að það eru iðulega leikin í útvarpi lög manna sem hlotið hafa dóma fyrir barnaníð eða verið við það bendlaðir, eins og Hallbjörn og M. Jackson. Það er líka nóg að heyra kaþólsku kirkjuna nefnda til að þessi minning vakni. Umræðan um uppreist æru kynferðisafbrotamanna var líka einstaklega óvægin og opinberaði vel þekkingarleysi margra á eðli og alvarleika þessara mála. Fjölmiðlar og stjórnvöld hafa líka enn sem komið er afar takmarkaðan skilning á upplifun þeirra sem burðast með reynslu þessa ofbeldis.

Nýjasta dæmið er áskorun um að þolendur stígi fram með reynslu sína, en komið hefur verið upp vettvangi fyrir þá hjá Neyðarlínunni. Það fyrsta sem mætir þeim sem hafa vilja samband er krafa um nafn og netfang. Ef byggja á brýr til þessa hóps verður að hugsa leiðirnar betur en hér er verið að reyna. Með þessu móti næst ekki til nærri allra sem til eru í að opna á reynslu sína.

Ég var mjög heppinn fyrir að verða 60 árum, að sleppa frá þessum manni áður en þetta gekk lengra. Ég er Vikunni þakklátur fyrir að birta þessa upprifjun undir nafnleynd. Hún skipti mig öllu máli. Þótt ég hafi komist óskaddaður frá þessu atviki, er það mér engu að síður viss lausn frá því, að skrifa um það eins og ég hef nú gert. Þeir sem styrkja vilja Stígamót finna bankaupplýsingar samtakanna auðveldlega á stigamot.is.

Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur í Vikunni. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -