Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Erfiður tengdasonur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Dóttir mín var kornung þegar hún fór að vera með manni sem okkur foreldrum hennar leist illa á. Við reyndum að skipta okkur sem minnst af sambandinu og vonuðum að hún sæi sjálf hvern mann hann hefði að geyma.

 

Lilja var 17 ára, að verða 18, þegar hún kynntist Jóa og það liðu nokkrar vikur þar til við hittum hann í fyrsta skipti. Hann var nýorðinn tvítugur, bráðmyndarlegur en bauð samt ekki af sér góðan þokka. Við hjónin vorum vingjarnleg við hann en áttuðum okkur fljótt á því að mjög erfitt var að halda uppi samræðum við hann. Hann hélt varla þræði og virtist ekki hafa áhuga á neinu nema líkamsrækt og bílum. Hann var ekki í fastri vinnu þrátt fyrir að hafa hætt í skóla strax eftir skyldunámið. Við komumst að því að hann vann svarta vinnu af og til en var á einhvers konar bótum. Hann bjó hjá foreldrum sínum í íbúð á vegum borgarinnar og var af þriðju kynslóð fólks sem var haldið uppi af borginni. Mér fannst furðulegt að alheilbrigður maður væri ekki í skóla eða fastri vinnu en Lilju fannst sniðugt að hann ynni svart. Við reyndum að segja henni hversu rangt það væri að láta aðra um að borga fyrir heilbrigðisþjónustu, gatnakerfið og annað slíkt en það fór inn um annað eyrað hjá Lilju og út um hitt. Hún var alveg blind á þennan strák. Einnig var hún hrifin af foreldrum hans sem hún sagði vera svo frjálslynda. Ekki síst í uppeldismálum því þeir nöldruðu ekkert þótt börnin þeirra á unglingsaldri fengju sér í glas, heldur drykkju bara með þeim. Ég sá að Lilja var með stjörnur í augunum yfir þessum „draumaforeldrum“ kærastans.

Í öngum okkar

Jói var mikið hjá okkur fyrstu mánuðina og Lilja vildi að hann fengi að flytja til okkar. Við pabbi hennar vorum ekki til í það. Við áttum ekki von á því að hún flytti þá heim til Jóa, okkur brá þegar hún fór en vonuðum að hún kæmi fljótlega heim aftur. Ég er sannarlega ekki snobbuð en þetta var mikið vandræðafólk sem mig langaði ekkert til að tengjast. Við hjónin vorum þó viss um að ef við gengjum of langt í að vara dóttur okkar við Jóa gæti það haft öfug áhrif og við myndum missa hana frá okkur. Við vonuðum bara að hún sæi sjálf hvaða mann hann hefði að geyma en ástin er blind.

„Ég er sannarlega ekki snobbuð en þetta var mikið vandræðafólk sem mig langaði ekkert til að tengjast.“

Lilja flutti aftur heim nokkrum vikum seinna en það var vegna þess að Jói var settur í fangelsi og látinn afplána dóm fyrir ofbeldi. „Fyrir eitthvað sem var alls ekki honum að kenna,“ fullyrti Lilja og bætti því við að hinn maðurinn hefði átt upptökin. Í blöðunum var talað um tilefnislausa árás en það sagði Lilja vera rugl.

- Auglýsing -

Við vorum í öngum okkar og ekki bara yfir vali Lilju á kærasta, heldur einnig yfir því að sonur okkar á unglingsaldri leit mikið upp til Jóa, fannst hann algjör töffari og vildi líkjast honum sem mest. Strax eftir skólann um vorið ákváðum við að senda hann til foreldra minna sem búa fyrir vestan. Við vonuðum að drengurinn sæi að sér. Sem betur fer gekk það eftir, hann breyttist við að fara að vinna með afa sínum og hitta gamla vini en við fjölskyldan höfðum búið á Vestfjörðum um nokkurra ára skeið á æskustöðvum mínum. Um haustið hóf hann nám í menntaskóla og hrifningin á Jóa virtist hafa minnkað heilmikið. Hann skemmti sér annað slagið með skólafélögum en ekkert meira en það.

Yndislegur ömmustrákur

Lilja og Jói leigðu sér litla íbúð skömmu eftir að hann losnaði úr fangelsinu. Hún tók sér hlé frá námi og fór að vinna. Algjör synd því hún átti ekki langt í að verða stúdent. Hún var reyndar orðin svolítið leið í skólanum áður en hún kynntist Jóa en ætlaði að reyna að klára stúdentinn og ákveða svo framhaldið. Gott og vel, hugsuðum við, hún er sjálfráða og heldur bara áfram námi ef áhuginn kviknar aftur.

- Auglýsing -

Lilja fékk starf í tískuvöruverslun og fannst það einstaklega skemmtilegt. Í kjölfarið fékk hún mikinn áhuga á tísku og fatahönnun.

Svo gerðist það sem við foreldrar hennar óttuðumst svo mjög. Lilja varð ófrísk og þar með tengd þessum manni og fólkinu hans út ævina í gegnum barnið.

Lilja var frekar veik á meðgöngunni og flutti til okkar þegar hún og Jói misstu leiguíbúðina. Jói kom mikið til hennar og mér létti við að sjá að hann virtist bera nokkra umhyggju fyrir Lilju. Hann bjó nánast alveg hjá okkur mánuðina áður en barnið fæddist en eftir fæðinguna ætluðu þau að finna sér aðra íbúð.

Yndislegur drengur kom í heiminn á tilsettum tíma. Ég var viðstödd ásamt Jóa en fæðingin tók lengri tíma en hann hafði þolinmæði fyrir. Undir það síðasta var hann mikið í símanum frammi og skrapp oft út til að reykja.

Jói entist ekki lengi í föðurhlutverkinu og eftir nokkrar erfiðar andvökunætur með grátandi ungbarni kaus hann að sofa heima hjá foreldrum sínum. Lilja var frekar sár en sagðist skilja hann vel, þetta hlyti að vera erfitt fyrir hann. Hún áttaði sig ekki á því að þetta væri einnig erfitt fyrir hana sjálfa, og ekki stakk hún af. Mig langaði að segja margt en ég stillti mig. Lilja rauk svo fljótt í vörn fyrir kærastann og það kom í veg fyrir að hún sæi sjálf hvernig hann væri.

Loksins

Auðvitað kom að því að Lilja gæfist upp á Jóa. Hún fullorðnaðist hratt eftir að hún eignaðist drenginn og fór að sjá Jóa í nýju ljósi. Hann vildi að þau héldu áfram sama lífi og áður en Lilja var ekki til í það.

Samband Lilju og Jóa lognaðist út af hægt og rólega án nokkurra láta. Lilja reyndi að fá Jóa til að hitta soninn reglulega en það gekk illa. Jói vildi koma þegar honum sjálfum hentaði og það var nánast aldrei. Stundum svaf drengurinn þegar Jói kom og var ekki enn vaknaður þegar hann fór en Jóa virtist vera sama.

„Jói vildi koma þegar honum sjálfum hentaði og það var nánast aldrei.“

Við hjónin vorum vongóð um að hann hyrfi alveg úr lífi okkar en það var líklega of gott til að vera satt.

Lilja bjó hjá okkur með litla ömmugullið mitt í rúm tvö ár. Hún var byrjuð í námi aftur, reyndar utanskóla, vann í versluninni og fór að búa með frænku sinni sem átti líka ungt barn. Jói kom stöku sinnum í heimsókn til þeirra og sonurinn var voða hrifinn af föður sínum. Fyrir kom að Jói fór í bíltúr með drenginn en þá þurfti Lilja að lána honum barnabílstólinn því Jóa fannst óþarfi að kaupa slíkan stól sjálfur. Ég var fegin því að hann fór aldrei fram á að drengurinn gisti hjá honum því hann bjó á óregluheimilinu hjá foreldrum sínum.

Ofsóknir

Um svipað leyti og Lilja fór að búa ein með syninum breyttist Jói, bæði í framkomu og útliti. Hann fór daglega í ræktina og blés út. Lilja sagði mér að hann væri líka kominn á kaf í stera og það gerði hann hálfklikkaðan í skapinu. Ég hitti hann eitt kvöldið heima hjá dóttur minni og dóttursyni og dauðbrá þegar ég sá breytinguna á honum. Hann var alltaf sæmilega kurteis við mig og það hafði svo sem ekkert breyst en hann talaði ekki um neitt annað en eigin árangur í líkamsrækt.

Lilja og Jói höfðu átt sín ástarsambönd með öðrum eftir að þau hættu saman en þegar Lilja fór að búa með manni fór það illa í Jóa. Ég er ekkert viss um að hann hafi verið hrifinn af henni en það var eins og honum fyndist hann eiga hana. Hann vildi að minnsta kosti stjórna henni og hún hafði alltaf tiplað á tánum í kringum hann til að styggja hann ekki. Hún hafði séð hann brjálaðan í skapinu og reyndi að koma í veg fyrir að hann missti stjórn á sér í návist barnsins.

Jói hafði, sem betur fer, ekki vit á því að reyna að stjórna Lilju í gegnum soninn en líklega hefði hann seint fengið forræðið yfir honum. Maður veit þó aldrei.

Lilja reyndi frá upphafi að gera samskipti feðganna regluleg en Jói vildi bara koma í heimsókn til drengsins og hennar þegar honum sjálfum þóknaðist, það breyttist ekkert. Sambandið við drenginn var þó lítið þegar Jói var með kærustu en yfirleitt entist það aldrei lengi og þá var Jói mættur aftur – iðulega undir áhrifum einhverra efna. Lilja sætti sig við heimsóknirnar því hún óttaðist að annars vildi Jói fara eitthvað með drenginn og það gekk ekki. Hún gætti þess þó að Jói yrði ekki var við það, þá hefði hann eflaust tekið barnið með valdi með sér út ef sá gállinn hefði verið á honum.

Gunni, kærastinn hennar Lilju, var á sjónum á þessum tíma og Lilja reyndi að sjá til þess að Jói kæmi í heimsókn þegar hann væri úti á sjó en það tókst ekki alltaf. Gunni var ekkert voðalega hrifinn af því að fá þennan háværa sterabolta inn á heimilið en sagði þó lítið. Þetta var faðir barnsins.

Eftir því sem neysla Jóa jókst varð hann erfiðari og hann fór að hóta Lilju. Hann vildi að hún losaði sig við sjóarann, eins og hann kallaði Gunna, hann vildi ekki hafa hann nálægt barninu. Hann hringdi og hótaði og mætti líka stundum að heimili Lilju og reyndi að komast inn. Lögreglan mætti reglulega en nágrannarnir hringdu oftar en Lilja eða Gunni vegna látanna í Jóa.

Friður

Þetta voru ömurlegar ofsóknir sem stóðu í nokkra mánuði og þá aðallega um helgar. Gunni hætti á sjónum því honum leist ekki á ástandið. Lögreglan stóð sig mjög vel við að fjarlægja Jóa en Lilja hikaði við að kæra barnsföður sinn, hún óttaðist að þá yrði hann öllu verri. Hún hefði þó gert það ef ofsóknirnar hefðu haldið áfram.

Jóa var stungið í steininn nokkrum mánuðum seinna fyrir ýmis brot og þá datt allt í dúnalogn. Jói róaðist mikið í fangelsinu og hafði líklega ekki sama aðgang að fíkniefnum og áður. Hann hringdi nokkrum sinnum í soninn sem hélt að pabbinn væri að vinna úti á landi. Það tókst nánast alveg að hlífa drengnum við þessu öllu saman því sá stutti flutti hreinlega til okkar hjónanna um helgar á meðan á mestu látunum stóð.

Gunni hefur staðið þétt við bakið á Lilju, þau eru búin að gifta sig og fjölskyldan hefur stækkað. Jói er að mestu hættur öllu rugli, orðinn fjölskyldumaður sjálfur og áhuginn á Lilju og syninum hefur minnkað mikið, þó ekki nógu mikið til að hann leyfi Gunna að ættleiða drenginn.

Kærasta og barnsmóðir Jóa er ágæt kona og sér til þess að drengurinn fái jóla- og afmælisgjafir frá föður sínum. Föðurafinn og -amman hafa nákvæmlega engan áhuga á honum.

Gunni hefur reynst stráknum eins og besti faðir og allt gengur fjölskyldunni í haginn. Þetta tímabil sem Jói var í lífi okkar er orðið eins og fjarlæg martröð en batnandi manni er best að lifa, svo að kannski á Jói eftir að verða góður faðir síðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -