Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Erum að verða of sein að bjarga jörðinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Valgerður Árnadóttir kom með látum inn á pólitíska sviðið þegar hún bauð sig fram fyrir hönd Pírata í borgarstjórnarkosningunum í vor. Vala, eins og hún er oftast kölluð, er vegan og mikil baráttukona fyrir réttindum dýra en hún er framkvæmdastjóri Samtaka grænmetisæta. Kvenréttindabaráttan er henni einnig hugleikin en nýverið stofnaði hún viðburðafyrirtækið Puzzy Patrol sem berst fyrir því að konur fái sömu tækifæri og karlar í tónlistarheiminum.

Valgerður Árnadóttir prýðir nýjustu forsíðu Vikunnar.

Vala var ekki há í loftinu þegar hún tók ákvörðun um að gerast grænmetisæta. Hún varði nótt á tjaldstæði við hlið sláturhúss og vaknaði við veinið í grísunum áður en þeim var slátrað. Næstu tuttugu og fimm árin var hún fiskæta en það var frásögn vinkonu hennar sem opnaði augu hennar fyrir grimmd mjólkuriðnaðarins. „Vinkona mín fæddi veikt barn sem var ekki hugað líf. Á meðan drengurinn hennar barðist fyrir lífi sínu þurfti hún að mjólka sig og einnig eftir að hann dó vegna þess að mjólkin fór ekki strax. Þá sorg sem hún upplifði við að þurfa að mjólka sig þrátt fyrir að barnið hennar væri dáið tengdi hún við upplifun kúnna. Þær ganga einnig með afkvæmin sín í níu mánuði sem er svo tekið af þeim við fæðingu svo hægt sé að mjólka þær fyrir mannfólkið, sem í raun þarf ekki á mjólkinni að halda. Ég missti algerlega lystina og ég sem hafði sagt að ég „elskaði ost“ gat ekki hugsað mér að stuðla að þessarri þjáningu.“

Vala tók þátt í Veganúar í janúarbyrjun fyrir tveimur árum síðan og eftir það var ekki aftur snúið. Hún segir breytingarnar á heilsu og almennri líðan virkilega jákvæðar. „Áður en ég varð vegan var ég með krónískt mígreni og þrálátar ennis- og kinnholusýkingar. En við það að taka út mjólkurvörur hurfu nánast mígreniköstin og ég hef bara einu sinni fengið kvef á þessum tæpu þremur árum. Ég missti líka nokkur kíló af „mjólkurskvapi“, húðin varð betri og ég hressari og orkumeiri. Ég fór meira að segja að æfa crossfit og ganga á fjöll, eitthvað varð ég að gera við alla þessa aukaorku,“ segir Vala og hlær dillandi hlátrinum sem einkennir hana. „Mér líður miklu betur bæði andlega og líkamlega og mér finnst ég loksins lifa lífinu eftir eigin sannfæringu og gildum en ekki þeim sem samfélagið hefur sagt mér að gera frá fæðingu,“ segir hún og meinar hvert einasta orð.

Aðspurð hvort hún hafi fengið mikla gagnrýni fyrir lífsstíl sinn segir hún ótrúlegt hvað veganismi getur vakið harkaleg viðbrögð hjá fólki. „Fólk á það til að finnast það knúið til að réttlæta eigin kjötneyslu fyrir mér eða segja mér að ég sé öfgafull og nota þaðan af verri viðurnefni.

Eins er fullkomlega viðurkennt að gera grín að veganisma við hin ýmsu tækifæri, það er ekki komið á bannlista eins og rasismi og kvenfyrirlitning.

Ég verð að vonum oft þreytt á óumbeðnum réttlætingum annarra og hef þurft að biðja fólk vinsamlegast um að hætta að predika yfir mér. Stundum hef ég líka hvæst á móti þegar fólk lætur mig ekki í friði í fjölskylduboðum og öðrum mannamótum, ég er bara mannleg,“ segir Vala einlæg.

ÁREITI SEM FYLGIR ÞVÍ AÐ VERA KVENKYNSPLÖTUSNÚÐUR

Vala er gallharður femínisti og málefni kvenna eru henni afar hugleikin. Hún ákvað að stofna viðburðafyrirtækið Puzzy Patrol en það sérhæfir sig í að skipuleggja viðburði með listakonum og feminískum talskonum til að styðja við konur í listum. Hún segir hugmyndina hafa kviknað kvöldið sem Donald Trump var settur í embætti forseta Bandaríkjanna. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og þetta tiltekna kvöld var ég að þeyta skífum á Kaffi Vinyl og hafði í tilefni dagsins hannað og prentað á boli fyrir mig og vinkonur mínar með slagorðinu „Pussy grabs back“. Ég spilaði einungis tónlist með konum eða samda af konum, hipphopp og R&B. Þetta framtak vakti þvílíka lukku og bandarískar konur sem voru á staðnum þökkuðu fyrir stuðninginn með tárin í augunum. Þær höfðu lagt í ferðalag til Íslands til að vera sem lengst frá Bandaríkjunum þennan dag, sem þær kölluðu sorgardag fyrir konur. Ég stofnaði stuttu seinna Puzzy Patrol með Ingibjörgu Björnsdóttur vinkonu minni sem er menntuð í viðburðarstjórnun. Það er mikill uppgangur í hipphoppi og margar flottar tónlistarkonur í þeim geira sem fá ekki sömu tækifæri og strákarnir og þess vegna einbeittum við okkur að þessari tónlistarstefnu til að byrja með. Við vorum með okkar eigið kvöld á Airwaves og héldum svo málþing og stórtónleika með öllum helstu tónlistarkonum landsins í Gamla bíói í janúar. Ingibjörg er að flytja til Danmerkur og við erum að skoða það að fara í norrænt samstarf. Flytja tónlistarkonur út og erlendar konur kæmu hingað að spila,“ segir Vala sem þeytir skífum undir dj-nafninu Pussy Valore.

- Auglýsing -

Áreiti frá hinu kyninu segir hún óneitanlega fylgifisk þess að vera kvenkynsplötusnúður. „Eins og það er gaman að þeyta skífum og skemmta fólki þá getur áreitið orðið erfitt, sérstaklega þegar þú ert kona. Ég á nokkrar vinkonur sem eru plötusnúðar og er oft þeim til samlætis og stuðnings þegar þær spila. Nýlega var ég Dj de la Rosa til samlætis og stóð hjá henni við dj-búrið, aðallega til að hindra að menn færu ekki inn fyrir það til að fikta í græjunum eða skipta um lag, enda halda menn að konur geti það ekki þótt þær vinni sem plötusnúðar. En þetta tiltekna kvöld var rosahress steggjahópur á staðnum sem margoft komu og báðu um óskalög og reyndu að draga mig á dansgólfið sem ég neitaði alltaf kurteisislega. Ég lét skýrt í ljós að ég hefði ekki áhuga en svo þurfti ég að fara á klósettið og til þess þurfti ég að fara yfir dansgólfið. Ég var ekki fyrr búin að taka nokkur skref þegar ég var gripin og mér lyft upp í loftið eins og bikar á fótboltamóti.  Sigri hrósandi karl sneri mér í hringi eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það fauk í mig og ég bað hann að setja mig niður en hann sleppti mér ekki fyrr en dyravörðurinn kom aðvífandi og hótaði að henda honum út ef hann léti mig ekki niður.

Steggjunum fannst öllum við dyravörðurinn vera voða fýlupúkar, auðvitað eiga menn að fá að grípa konu sem þeim líst vel á og sveifla henni upp í loft eins og bavíanar með bananaklasa.

Mér fannst þetta mjög niðurlægjandi og ég hugsaði með sjálfri mér að það er ekki eins og ég sé tvítug smástelpa. En svo rann upp fyrir mér að einmitt á þeim aldri lét ég mig bara hafa svona hegðun. Þetta var bara partur af því að vera ung og sæt og álitin vera einhver hlutur sem mátti káfa á, lyfta upp og grípa í án þess að fá leyfi og því miður viðgengst það enn. En mér finnast eldri menn vera verri en þessi yngri, ég vona að yngri kynslóðin sé að læra betri siði, bæði hvað varðar drykkju og hvað varðar virðingu gagnvart konum.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

- Auglýsing -

 

Texti: Helga Kristjáns

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -