Föstudagur 12. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Fallegt, fjölskylduvænt og öruggt land

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir, doktorsnemi og stundakennari við Háskóla Íslands, býr ásamt fjölskyldu sinni í Senegal. Hún segir að Senegal sé fjölskylduvænt og öruggt land.

Guðrún Helga Jóhannsdóttir býr ásamt manni sínum Yakhya Diop og börnum í Senegal.

„Ég er gift Yakhya Diop, á fjögur börn, þrjú stjúpbörn og eitt á leiðinni. Við fluttum til baka á Klakann í maí síðastliðnum. Höfuðborgin Dakar er frekar þróuð miðað við höfuðborgir nágrannalandanna og þar er allt til alls, hvort sem um er að ræða hágæða læknisþjónustu eða lúxushótel,“ segir Guðrún Helga sem segir okkur hér frá nokkrum áhugaverðum stöðum á svæðinu.

Monument pour la renaissance Africaine
Áhugaverð, falleg og mjög umdeild 50 metra há bronsstytta í Oukam-hverfinu í Dakar. Styttan gnæfir yfir Dakarborg og horfir út á Atlantshafið. Abdoulaye Wade, fyrrum forseti Senegal, lét byggja styttuna og hlaut mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun en styttan kostaði um 2,8 milljarða króna í byggingu. Styttan var vígð á þjóðhátíðardegi Senegals, 4. apríl, árið 2010 en það ár voru 50 ár liðin frá því að landið fékk sjálfstæði frá Frökkum. Styttan er hæsta stytta Afríku og er nauðsynlegt stopp hvers þess sem leggur leið sína til Dakar.

Ile de Ngor
Ile de Ngor er eins og annar heimur. Lítil eyja alveg við Dakar, án rafmagns. Það tekur einungis 10 mínútur að komast þangað með bát. Um það bil 100 íbúar af Lébou-ættbálknum búa á eynni. Eyjan er umlukin fallegum ströndum og er loftslag þar mjög gott allt árið um kring, um það bil 25 gráður. Aðalatvinnuvegur eyjaskeggja eru fiskveiðar og ferðamannaiðnaður en fjöldi ferðamanna sækir eyna heim ár hvert.

Ile de Goree
Falleg eyja með sorglega sögu. Ile de Goree sem hefur 1.680 íbúa er í tveggja kílómetra fjarlægð frá Dakar. Eyjan var útskipunarstaður þræla sem seldir voru til Ameríku. Þar er áhugavert safn um þrælasöguna en einnig eru þar veitingastaðir og fallegar strendur. Eyjan er vinsæll áfangastaður ferðamanna og góð dagsferð frá Dakar.

Að sögn Guðrúnar er Senegal fjölskylduvænt land.

Parc de Bandia
Þetta er einn af fáum stöðum í Senegal þar sem hægt er að upplifa afríska safarístemningu. Garðurinn er í 65 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni Dakar, nálægt Saly sem er vinsæll ferðamannastaður. Í garðinum eru gíraffar, sebrahestar, apar, krókódílar, hýenur og nashyrningar auk annarra dýra. Keyrt er um garðinn og dýrin skoðuð í sínu náttúrulega umhverfi innan um aldagömul stórglæsileg baobab-tré.

- Auglýsing -

Lac Rose
Þetta vatn er nauðsynlegur áfangastaður fyrir hvern þann sem heimsækir Senegal. Það er í útjaðri Dakar og auðvelt að taka leigubíl þangað frá höfuðborginni. Vatnið er bleikt á litinn vegna mikils magns salts í því. Á staðnum er hægt að kaupa salt sem unnið er úr vatninu. Við mælum sérstaklega með því að leigja fjórhjól og/eða pallbíl og fara í ferð í kringum vatnið með leiðsögumanni. Það er algjörlega ómissandi og frábær skemmtun, leiðsögumaðurinn keyrir að vatninu og sýnir manni saltvinnsluna og gefur tíma fyrir myndatökur.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -