Mánudagur 4. nóvember, 2024
7.8 C
Reykjavik

Fegin því að hafa ekki gefist upp á klettinum mínum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ég og maðurinn minn rugluðum ekki saman reytum fyrr en eftir margra ára vinskap. Vinir mínir skildu ekkert í vináttu okkar tveggja í fyrstu, þeim þótti Jonni hálfskrítinn, að minnsta kosti frekar sérstakur og ólíkur mér, en þeir hefðu þá átt að kynnast tengdaforeldrum mínum og mági.

Ég hitti Jonna í boði sem hann hafði aldrei ætlað sér að mæta í en vinur góðrar vinkonu minnar hafði boðið fjölda fólks til sín og linnti ekki látum fyrr en þessi sérkennilegi samstarfsmaður hans samþykkti að koma. Ég fór að spjalla við hann og lét þurrleg svör hans ekki fæla mig frá. Smám saman þiðnaði þessi myndarlegi maður örlítið og ég ákvað með sjálfri mér að hann væri bara svona feiminn. Ég sagði honum í spjallinu að ég væri að fara að flytja og eina vandamál mitt í lífinu, sagði ég í gríni, væri að ég kynni ekki að aftengja ljós. „Ég skal gera það fyrir þig,“ sagði hann, og ég samþykkti það eftir smástund. Ég er kannski ekki besti mannþekkjari í heimi en Jonni virtist maður sem hægt væri að treysta. Hann mætti heim til mín til að aftengja ljósin, ég gaf honum kaffi og við spjölluðum heillengi saman. Hann heimtaði að fá að mæta á flutningsdaginn og hjálpa mér við að bera húsgögn og kassa, og þannig má segja að vinátta okkar hafi hafist. Hann var aldrei uppáþrengjandi, okkur leið vel saman og mér líkaði sífellt betur við hann.

Brúnaþungur úti í horni

Öðrum vinum mínum fannst Jonni frekar sérstakur og spurðu mig stundum af hverju ég væri að púkka upp á hann. Í partíum eða matarboðum var hann þegjandalegur, stóð kannski brúnaþungur úti í horni og virti fyrir sér gestina með manndrápssvip. Hann sótti í félagsskap minn, átti fáa aðra vini, ef nokkra, og umgekkst mest foreldra sína og eldri bróður sem bjuggu ekki svo fjarri höfuðborginni. Hann átti í samskiptum við vinnufélagana en þeir voru ekki vinir sem hann umgekkst utan vinnu, meira bara kunningjar.

„Í partíum eða matarboðum var hann þegjandalegur, stóð kannski brúnaþungur úti í horni og virti fyrir sér gestina með manndrápssvip.“

Ég var stundum á ferð með Jonna í bílnum hans og ef hann þurfti að koma við heima hjá foreldrum sínum var mér aldrei boðið inn. „Þau eru svolítið sérstök,“ viðurkenndi Jonni fyrir mér, flýtti sér með erindið og kom svo aftur út í bíl.

- Auglýsing -

Smám saman opnaðist skelin hjá Jonna, hann varð mannblendnari og sífellt oftar hrókur alls fagnaðar. Ég varð vör við að vinum mínum fór að líka vel við hann og steinhættu að minnast á að hann væri skrítinn.

Það sem ég kunni svo vel við í fari Jonna var hversu traustur hann var, ég gat alltaf stólað á að það sem hann sagði stæðist og hjálpsemi hans var einstök. Það var samt engin einstefna í gangi, að hann væri gefandi og ég þiggjandi, við hjálpuðum hvort öðru á margvíslegan hátt og okkur kom mjög vel saman.

Ég hafði verið gift tvisvar áður, ég missti fyrri manninn sem veiktist skyndilega og dó eftir nokkra mánuði, og átti með honum tveggja ára barn. Þann seinni skildi ég við vegna framhjáhalds hans og mikillar stjórnsemi. Hann vildi til dæmis vita hvar ég væri öllum stundum. Ég hafði fyrst á tilfinningunni að hann hefði verið svikinn af konu og þetta væri óöryggi sem myndi rjátlast af honum en svo reyndist ekki vera, þetta var bara stjórnsemi. Þegar hann fór að reyna að einangra mig frá vinum mínum og vildi sitja einn að mér og ég var að breytast í litla mús sem reyndi sífellt að þóknast honum gafst ég upp. Hjónabandið stóð í tæp tvö ár og þótt hann lofaði öllu fögru treysti ég honum ekki, ég átti mjög erfitt með að treysta eftir þetta samband.

- Auglýsing -

Ég var ekki nema rétt rúmlega þrítug þegar við Jonni kynntumst og ég veit að foreldrar hans voru ekki sérlega spenntir fyrir þessari vinkonu hans sem hann talaði oft um við þau, einstæðri móður með tvö hjónabönd að baki.

Jonni átti í tveimur eða þremur samböndum við konur en ég er eiginlega viss um að léleg félagsleg færni hans hafi eyðilagt þau. Hann leitaði stundum ráða hjá mér í ástamálum og ég gerði mitt besta til að ráðleggja honum.

Feginleika minn þegar samböndunum lauk gat ég ekki skýrt fyrir sjálfri mér en áttaði mig löngu síðar á að ég var einfaldlega hrifin af honum án þess að gera mér almennilega grein fyrir því. Hann viðurkenndi svipað fyrir mér síðar, að hann hefði verið frekar óhress með þá menn sem ég var að slá mér upp með þótt lítil alvara væri að baki, nema kannski einu sinni þegar ég átti í sambandi í rúmt ár. Við Jonni prófuðum tvisvar að vera saman en það var eins og vantaði neistann hjá okkur báðum en það átti eftir að breytast.

Tók af skarið

Það var ég sem tók af skarið. Þá höfðum við hist mikið um hríð og ég fann hvað ég saknaði hans þegar hann var ekki hjá mér og upplifði líka að honum væri ekki sama um mig. Eitthvað hafði breyst á milli okkar. Við vorum farin að þekkja hvort annað afar vel eftir öll þessi ár og gátum í raun ekki án hvort annars verið. Við ákváðum að fara að búa saman en þá bjó dóttir mín á unglingsaldri enn hjá mér. Við giftum okkur nokkrum árum seinna og allt hefur gengið vel. Dóttirin er flutt að heiman og búin að gera okkur að ömmu og afa.

Ég veit ekki hvernig foreldrum Jonna varð við en þau sögðu ekkert neikvætt við hann. Ég var án efa ekki draumatengdadóttirin, svo mikið er víst.

„Eitthvað hafði breyst á milli okkar. Við vorum farin að þekkja hvort annað afar vel eftir öll þessi ár og gátum í raun ekki án hvort annars verið.“

Okkur var boðið í heimsókn til þeirra fljótlega eftir að sambandið varð opinbert, alveg örugglega að undirlagi Jonna. Þau voru ósköp indæl en innileg voru þau ekki, slíkt upplifði ég aldrei frá þeim og ég sá þau svo sem heldur aldrei vera þannig við synina.

Heimili þeirra var mjög hefðbundið, sérlega hreint og snyrtilegt en tengdamamma, þrátt fyrir fulla vinnu við kennslu í grunnskóla, lagði mikinn metnað í að sæist ekki rykkorn á neinu. Ég áttaði mig á því með tímanum og fékk svo staðfestingu á því hjá Jonna, að þau ættu nákvæmlega enga vini. Heimur þeirra snerist um hvort annað, heimilið og synina. Þau spurðu aldrei út í neitt mér viðvíkjandi, eins og um dóttur mína, síðar barnabarnið, starf mitt eða annað, þau höfðu einfaldlega engan áhuga. Aftur á móti vildu þau fá að vita allt um Jonna og spurðu hann margra spurninga. Mér fór að finnast þetta fyndið, það ergði mig aldrei því ég fann að þau reyndu ekki að móðga mig á nokkurn hátt.

Eftir að pabbi Jonna dó hittum við mömmu hans oftar en áður. Bróðir Jonna var fluttur norður á land og heimsótti mömmu sína sjaldnar en áður, helst yfir sumartímann og á stórhátíðum. Við Jonni fórum til hennar í mat um jólin eftir að hún varð ein en fram að því höfðum við haldið jólin heima hjá okkur en heimsótt þau, farið í kaffi til þeirra á jóladag eða annan dag jóla.

Eftir að hafa borðað þurrt kjöt og afskaplega óspennandi meðlæti fyrstu jólin hjá henni og með bróður Jonna, tók ég með mér góða sósu og dásamlegan eftirrétt að ári, ég er mikil sósukerling og vil líka hafa bragð af matnum mínum. Því var ekki illa tekið svo sem en af áhugaleysi og kannski pínulítilli furðu. Við Jonni fengum okkur af sósunni, ekki mæðginin, og þau vildu heldur ekki eftirréttinn svo við tókum hann bara með mér heim aftur.

Engir vinir

Tengdamamma vinnur mikið í garðinum sínum á sumrin, það er hennar eina áhugamál og einnig les hún mikið, helst ævisögur og bækur um sögu, og fer í kirkju á sunnudögum. Hún virðist vera ánægð með lífið, komin á eftirlaun fyrir nokkru. Ég vildi að hún ætti vinkonur en hún virðist ekki vera einmana á nokkurn hátt. Hún býður nágrönnum sínum góðan dag, er kurteis og indæl, en heldur öllum í fjarlægð, það er eins og hún vilji ekki kynnast öðru fólki. Það er erfitt að komast upp með það á litla Íslandi, eða það hefði ég haldið, en hún og maðurinn hennar heitinn gátu það. Hún er einkabarn foreldra sinna og á lítinn frændgarð.

Bróðir Jonna er háskólamenntaður og vann áður á skrifstofu en fyrir nokkrum árum fór hann að vinna sjálfstætt heima og þarf ekki lengur að vera í samskiptum við fólk nema í gegnum tölvupóst. Hann er mjög sérstakur og á enga vini, frekar en mamma hans. Sennilega hefði Jonni orðið svona og einangrað sig nema rétt á meðan hann var í vinnunni, hann hefur sjálfur talað um það og sagt að kynnin við mig og vinátta okkar hafi öllu breytt. Honum finnst vissulega gott að vera stundum einn og ver löngum stundum úti í bílskúr þar sem hann hefur komið sér vel fyrir, en hann forðast sannarlega ekki fólk. Hann var gerður að yfirmanni á vinnustaðnum sínum fyrir nokkrum árum og er vel þokkaður, sýnist mér.

Ég er afskaplega fegin því að hafa ekki gefist upp á honum sem vini á sínum tíma þótt hann hafi oft verið bæði erfiður og leiðinlegur en það var þetta traust sem ég bar til hans, ég vissi einhvern veginn að hann myndi aldrei bregðast mér. Eftir tætingslegt líf; óregluheimili í æsku, makamissi og erfiðan skilnað var ómetanlegt að eignast svona „klett“ sem ég gat reitt mig á. Hann þurfti svo sannarlega líka á mér að halda til að öðlast gott líf, eins og hann hefur margoft sagt við mig. Jonni hefur gert margar tilraunir til að draga bróður sinn út úr skelinni en án árangurs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -