Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Fékk eitt tækifæri en brást

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Vinkona mín var afar drykkfelld í um tíu ár og hafði brennt ýmsar brýr að baki sér. Hún fór loks í meðferð og kynntist þar góðum manni. Lífið á það til að koma á óvart og vinkona mín fékk aldeilis að upplifa það.

 

Lilja vinkona átti alltaf erfitt með vín, alveg frá því hún byrjaði að drekka þegar hún var á sautjánda árinu. Hún gat ekki stoppað fyrr en hún var orðin ósjálfbjarga og hvernig henni tókst að líta svo á að hún væri að skemmta sér þegar hún varð sér iðulega til skammar, gerði öðrum lífið leitt og vaknaði svo með dúndrandi móral ef hún mundi eitthvað, á ég erfitt með að skilja.

Lilja drakk ekki um hverja helgi, sem betur fer, en nógu mikið samt til að valda foreldrum sínum sorg, missa frá sér góðan kærasta, hætta í skóla, missa starf minnst tvisvar og fæla frá sér vini. Hún var orðin 26 ára gömul þegar hún fór loksins í meðferð. Þá hafði hún náð á tíu árum að brenna flestar brýr að baki sér.

Nýtt og betra líf

Meðferðin gekk vel og þar kynntist hún góðum manni, sex árum eldri, sem var jafnákveðinn í því að hætta að drekka og hún. Þetta var ekki fyrsta meðferðin hans en hann var greinilega harðákveðinn í að þetta yrði sú síðasta. Hann hafði verið í eiturlyfjum líka, sagði hann henni.

- Auglýsing -

Þau fóru að vera saman fljótlega eftir að meðferð lauk og fluttu út á land þar sem þau stofnuðu heimili. Siggi var Lilju mikill styrkur, hvatti hana óspart áfram og hún leit mikið upp til hans. Þau urðu fljótlega virk í samtökunum á staðnum og þá sérstaklega Siggi. Fyrr en varði varð hann einn af innstu koppum í búri þar.

Siggi átti son frá fyrra sambandi, tíu ára gutta, sem hafði lítið verið í samskiptum við föður sinn. Þeir feðgar þekktust því sama og ekkert en Sigga langaði til að taka upp sambandið við hann að nýju. Barnsmóður hans leist ekki sérlega vel á það til að byrja með, enda hafði Siggi oft hætt í neyslu en alltaf fallið og margoft svikið soninn. Nú var allt breytt.

Lilja var orðin ófrísk að eldra barninu þegar sonur Sigga kom í fyrstu helgarheimsóknina. Hann var fýldur yfir því að hafa samkeppni um föður sinn, var tortrygginn gagnvart Lilju og sýndi henni mikinn dónaskap. Hann vildi fá að vera einn með pabba sínum. Lilja eldaði góðan mat en stráksi vildi ekkert borða. Pabbi hans fór með hann út í sjoppu og keypti handa honum það sem hann langaði í, hamborgara og sælgæti. Ekki dugði að láta drenginn svelta. Það var Lilju mikill léttir þegar Siggi skutlaði stráksa í bæinn á sunnudagskvöldinu en hún var vongóð um að allt yrði í lagi með tímanum. Hann kom einu sinni í mánuði og var hjá þeim yfir helgi og með mikilli þolinmæði og ást tókst Lilju að ná vináttu hans og trausti.

- Auglýsing -

Þegar strákurinn kom í annað eða þriðja skiptið og hélt uppteknum hætti, tók Lilja til sinna ráða. Siggi hafði eldað lasagna á föstudagskvöldinu, vissi að syninum þótti það afar góður matur en sá stutti vildi samt ekki borða neitt. Þá fór Lilja og sótti fulla skál af sælgæti og setti fyrir framan hann. Hann fékk þessa sælgætisskál sem Lilja fyllti jafnóðum á, daginn eftir líka og á sunnudeginum fór drengurinn að grátbiðja um mat. Hann lagaðist heilmikið eftir þetta og hefur líklega haft húmor fyrir þessu skemmtilega uppátæki Lilju. Þau urðu perluvinir með tímanum. Barnsmóðir Sigga fékk hláturskast þegar þau sögðu henni frá þessu. Hún var mjög ánægð með að drengurinn væri loksins farinn að umgangast föður sinn reglulega og að allt væri komið í besta lag hjá Sigga.

„… sjaldan liðið betur“

Sonur fæddist í fyllingu tímans og ekki svo löngu seinna bættist dóttir við. Þegar þau voru komin á leikskólaaldur ákvað Lilja að mennta sig. Hún hafði oft verið örg út í sjálfa sig fyrir að hafa tekið vímuna fram yfir skólann en ákvað að láta þau leiðindaár ekki eyðileggja fyrir sér framtíðina. Hún hvikaði hvergi frá ákvörðun sinni og þótt hún væri oft þreytt og stressuð gafst hún aldrei upp.

Eftir um fimm ára sambúð áttaði Lilja sig á því að sjúkdómurinn hafði náð tökum á Sigga aftur, hann var farinn að reykja hass reglulega og hafði gert um nokkurt skeið. Allir héldu að hann væri edrú, hann stundaði sína fundi eins og venjulega en þegar Lilja fann ummerki um neyslu á bílgólfinu áttaði hún sig á því að hann var fallinn. Nú skildi hún ástæðu slappleika, geðvonsku og pirrings sem Siggi hafði sýnt annað slagið. Púslin röðuðust hratt saman í huga hennar og hún varð sjálfri sér reið fyrir að hafa verið svona grunlaus.

Þetta var mikið áfall. Lilja gat ekki hugsað sér að búa með honum lengur. Siggi átti mjög erfitt með að skilja það en flutti út og fékk að búa hjá ættingjum sínum í sama bæ. Þau voru bæði mjög óhamingjusöm og eftir að Siggi hafði lofað upp á æru og trú að hætta allri neyslu fóru þau að búa saman aftur. Lilja vildi að hann færi í meðferð en Sigga tókst að sannfæra hana um að það væri ekki nauðsynlegt, hann ætlaði sér ekki að missa fjölskyldu sína.

Lilja sagði honum að það myndi taka hana tíma að læra að treysta honum aftur og hann sætti sig við það. Það kom fyrir að hún gekk á hann og spurði hvort hann væri byrjaður að reykja dóp aftur. Þá var hann kannski bara dauðþreyttur, en hló að henni og faðmaði, sagði henni að hafa engar áhyggjur. Lilja róaðist og bað hann fyrirgefningar.

Hún hafði lokið náminu og var komin í mjög gott starf. Framtíðin brosti við fjölskyldunni.

„Lilja átti það til að spyrja Sigga ef augun í honum voru eitthvað skrítin hvort allt væri í lagi, en hann var farinn að taka því illa svo hún hætti því.“

Allt gekk vel um tíma, Siggi var glaður og kátur og ímynd heilbrigðisins. Hann var farinn að stunda gönguferðir nánast daglega. Lilja átti það til að spyrja Sigga ef augun í honum voru eitthvað skrítin hvort allt væri í lagi, en hann var farinn að taka því illa svo hún hætti því.

Óvænt uppgötvun

Lilja var inni í herbergi hjá börnunum að koma þeim í rúmið þegar henni var litið út um gluggann. Hún sá Sigga í íþróttagallanum en sást ekki sjálf þar sem hún var búin að slökkva ljósið. Í stað þess að Siggi færi sína vanalegu leið fór hann inn í bílskúr sem þau notuðu sem geymslu og gengu sjaldan um, og bar sig laumulega.

Lilja trúði varla sínum eigin augum, var hann fallinn aftur? Hún vildi vera algjörlega viss, lauk við að taka til fatnað barnanna fyrir næsta dag og fór svo út. Hún opnaði litlu dyrnar að skúrnum og rak inn höfuðið. Hasslyktin leyndi sér ekki þrátt fyrir galopinn glugga en Siggi var farinn út.

Áfallið var ekki jafnmikið og í fyrra skiptið og Lilja ákvað með sjálfri sér að hún ætlaði ekki að láta svíkja sig framar.

Þegar Siggi kom inn, nokkru seinna, brosandi og kátur eftir göngutúrinn, sagði hún honum frá uppgötvun sinni og tilkynnti honum rólega að þessu væri lokið hjá þeim. Hann hefði fengið eitt tækifæri.

Fyrst reyndi Siggi að segja að henni skjátlaðist og svo sá hann að það dugði ekki og varð hreinskilinn. Sagði henni að hann hefði reykt hass reglulega síðasta hálfa árið og það hefði sannarlega hvorki bitnað á honum né fjölskyldunni. Honum hefði aldrei liðið betur.

„Geturðu ekki horft fram hjá þessu, í alvöru, þetta veitir mér svo mikla vellíðan,“ sagði hann biðjandi. „Ég get alveg reykt og fúnkerað vel í lífinu.“

En Lilju varð ekki haggað.

Það spurðist hratt út að Siggi væri fallinn og það olli mörgum vonbrigðum sem höfðu litið upp til hans og haft hann sem fyrirmynd. Hann hafði sótt fundi þessa mánuði og lofsungið edrúmennskuna en verið sjálfur í bullandi neyslu á sama tíma.

Það er líklega stærsti gallinn við að búa á litlum stað og vera svolítið þekktur, eins og Siggi var hjá þeim bæjarbúum sem voru í samtökunum og aðstandendum þeirra, að fréttin fer á örskotsstundu um bæinn.

Lilja tók sig upp með börnin nokkru síðar og flutti á höfuðborgarsvæðið. Þá var hún búin að tryggja sér mjög gott starf sem menntun hennar var eins og sniðin fyrir.

Fastur í sjálfsblekkingu

Siggi flutti í bæinn á eftir henni nokkrum mánuðum seinna. Hann hittir börnin sín nokkuð reglulega og hefur verið edrú þegar hann sækir þau, boðar forföll annars. Þau gista þó ekki hjá honum fyrr en hann er kominn á beinu brautina aftur og hann hefur ekki kvartað yfir þeim skilyrðum Lilju. Hún er að vernda börn sín með þessu, ekki hefna sín á fyrrverandi, eins og hún hefur þó fengið að heyra frá fólki í föðurætt barnanna. Siggi leigir herbergi og honum gengur illa að halda vinnu. Hann er greinilega enn í neyslu og það kemur sífellt meira niður á honum þótt hann sé enn fastur í sjálfsblekkingu um að hann geti neytt vímuefna og náð að lifa góðu lífi. Það var Lilja sem hélt lífi hans saman á sínum tíma eftir að hann var fallinn, en án þess að vita það.

Lilju þykir vænt um hann en treystir honum ekki lengur, hún þekkir sjálfa sig það vel að hún veit að hann mun aldrei geta áunnið það aftur hjá henni. Það yrði alltaf einhver undirliggjandi ótti. Siggi fékk eitt tækifæri en brást henni og börnunum, en sjálfum sér ekki síst.

Sonur Sigga frá fyrra sambandi heldur tryggð við hálfsystkini sín og fyrrum stjúpmóður og kemur oft í heimsókn. Þetta er duglegur og klár strákur sem Lilju þykir afar vænt um.

Ég er mjög ánægð með ákvörðun Lilju sem hún tók algjörlega ein og óstudd. Það að gefa Sigga eitt tækifæri eftir að hann féll í fyrra skiptið er bara mannlegt, en það hefði verið rangt, að mínu mati, og borið vott um meðvirkni að hafa tækifærin fleiri. Ég óttast að svo hefði getað farið ef Lilja hefði ekki verið búin að ná sér í góða menntun og getað komið hratt og vel undir sig fótunum. Án efa hefði lífið orðið henni miklu erfiðara annars. Líf einstæðra mæðra með litla menntun er ekki jafngott og margir halda, ég tala af reynslu þar, það eru pörin sem þykjast vera „einstæðar mæður“ til að fá hærri bætur sem hafa það ágætt en margir rugla þessu saman.

Ég vona að þessi saga hjálpi öðrum sem standa mögulega í svipuðum eða sömu sporum. Lykillinn að góðu lífi Lilju í dag er ekki bara menntunin, heldur það að hún stóð með sjálfri sér og tók ekki ábyrgð á lífi Sigga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -