Fimmtudagur 25. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

Hafa elst ótrúlega vel

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Klassískar þríleikir og bókaflokkar sem njóta enn vinsælda.

Sjöwall og Wahlöö-bækurnar
Bækur hjónanna Sjöwalls og Wahlöö (sjá mynd hér að ofan) urðu tíu talsins. Þær eru taldar hafa markað tímamót í bókmenntasögunni og haft mikil áhrif á þá höfunda sem á eftir fylgdu. Aðalpersónan, sænski lögreglumaðurinn Martin Beck, er engin ofurhetja heldur ósköp venjulegur maður sem glímir við sín vandamál. Bækurnar komu út á árunum 1965-1975 og hafa elst ótrúlega vel. Meðal þeirra má nefna Morðið á ferjunni, Löggan sem hló, Pólís, pólís og Maðurinn á svölunum. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og nokkrar þeirra hafa verið kvikmyndaðar.

Ísfólkið
Bækurnar um Ísfólkið urðu alls 47 og fóru að koma út á Íslandi fyrir rúmum þrjátíu árum. Þær voru endurútgefnar af Jentas í nýrri þýðingu fyrir nokkrum árum. Í stuttu máli segja þær frá baráttu afkomenda Þengils hins illa við að aflétta þeim álögum sem hann lagði á einn í hverri kynslóð. Baráttan stendur yfir öldum saman og lesandinn fær að fylgjast með örlögum afkomendanna. Þetta eru magnaðar bækur sem grípa mann föstum tökum. Þetta eru einu bækurnar sem hér eru nefndar sem ekki hafa verið kvikmyndaðar, það hefur verið reynt en ekki tekist, einhverra hluta vegna.

Hringadróttinssaga
Stórkostlegar bækur eftir J.R.R. Tolkien. Þær komu fyrst út árin 1954 og 1955 í þremur bindum. Í þeim segir frá hobbitanum Fróða Bagga sem eignast dularfullan hring. Fljótlega kemur í ljós að eina leiðin til að stöðva hinn illa Sauron, sem hyggur á yfirráð í Miðgarði, er að fara með hringinn eina til Mordor og eyða honum þar. Fróði fer í þessa hættuför með fríðu föruneyti og lendir í mörgum ævintýrum á leiðinni. Bækurnar voru kvikmyndaðar og myndirnar eru mjög flottar og nutu gríðarlegra vinsælda. Endilega samt ekki sleppa því að lesa bækurnar, þær eru einstakar.

Lisbet Salander tölvuséní og Mikael Blómkvist blaðamaður eru frábært teymi.

Millenium-þríleikurinn
Stieg Larsson skrifaði þrjár flottar og spennandi bækur sem náðu miklum vinsældum um heiminn. Hann lést óvænt áður en sú fyrsta kom út, aðeins fimmtugur að aldri, en hafði ætlað að skrifa fleiri bækur um þau Mikael Blómkvist blaðamann og Lisbet Salander tölvuséní sem eru frábært teymi. Bækurnar voru auðvitað kvikmyndaðar og völdust einstaklega flottir leikarar í hlutverkin. Fjórða bókin, auglýst úr smiðju Stiegs heitins, kom út á síðasta ári en tilurð hennar var umdeild. Mér fannst hún ágæt spennusaga en David kemst þó ekki með tærnar þar sem Stieg hafði hælana.

Harry Potter
Bækurnar um hugrakka galdrastrákinn með eldingarlaga örið á enninu eru sjö talsins, hver annarri skemmtilegri. Þær höfða til allra aldurshópa og fólk beið í löngum röðum eftir hverri nýrri bók. Höfundur bjó til einstaklega spennandi heim galdra og töfra, baráttu góðs og ills þar sem hið góða fer yfirleitt með sigur af hólmi. Hún er líka töfrum slungin sagan af höfundinum, fátækri, einstæðri móður sem breytti lífi sínu með því að gefa heiminum þessar dásamlegu ævintýrabækur. Börn sem áður lásu ekki sér til skemmtunar, sökktu sér niður í þessar bækur og þegar kvikmyndir voru gerðar eftir þeim slógu þær líka í gegn.

Sjöwall og Wahlöö-bækurnar
Bækur hjónanna Sjöwalls og Wahlöö urðu tíu talsins. Þær eru taldar hafa markað tímamót í bókmenntasögunni og haft mikil áhrif á þá höfunda sem á eftir fylgdu. Aðalpersónan, sænski lögreglumaðurinn Martin Beck, er engin ofurhetja heldur ósköp venjulegur maður sem glímir við sín vandamál. Bækurnar komu út á árunum 1965-1975 og hafa elst ótrúlega vel. Meðal þeirra má nefna Morðið á ferjunni, Löggan sem hló, Pólís, pólís og Maðurinn á svölunum. Þær hafa verið þýddar á fjölda tungumála og nokkrar þeirra hafa verið kvikmyndaðar.

- Auglýsing -

Texti / Guðríður Haraldsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -