Miðvikudagur 11. september, 2024
7.8 C
Reykjavik

Heilbrigt og fallegt hár á veturna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Góð ráð til að halda hárinu heilbrigðu á veturna.

Nú gengur hver lægðin á fætur annarri yfir landið, okkur til lítillar skemmtunar. Þetta mikla vetrarveður, kuldi, rok og alls kyns úrkoma, getur haft töluverð áhrif á bæði húð og hár. Margar konur kannast við að hárið á þeim verði allt í senn þurrt, flókið og rafmagnað. Hér koma nokkur ráð til að halda hárinu heilbrigðu og auðveldu í meðhöndlun fram að vori – hvenær sem það nú kemur.

Hárþvotturinn
Ein algengustu mistökin í hárumhirðu eru að þvo hárið of oft, hvort sem það er vetur eða sumar, og að nota of heitt vatn. Í köldu veðri þornar hárið og húðin mun meira og það er því ekki á það bætandi. Reyndu að þvo hárið ekki oftar en þrisvar í viku og ekki hafa vatnið heitara en 37° en einnig er sniðugt að skola hárið upp úr köldu vatni í lokin til að halda rakanum í hárinu.

Réttar og góðar vörur
Heilbrigði hársins getur ráðist af hárvörunum sem þú notar og því er mikilvægt að nota réttar vörur fyrir þína hárgerð. Það eru ekki allir með á hreinu hver hárgerð þeirra er og það getur oft verið flókið að átta sig á muninum, til að mynda hvort maður er með þunnt eða fínt hár. Næst þegar þú ferð í klippingu er sniðugt að spyrja hárgreiðslumanninn þinn hvaða hárgerð þú ert með og hvaða hárvörur passa best fyrir þig.

Háspenna, lífshætta
Enn eitt hárvandamál sem veldur miklum pirringi er rafmagnað hár sem stendur allt út í loftið. Næstum allar konur eiga við þetta vandamál að stríða á einhverjum tímapunkti yfir vetrarmánuðina. Ástæðan fyrir því að hárið verður rafmagnað er að andrúmsloftið er þurrara í kulda. Gott er að nota einhvers konar hárolíu í enda hársins eftir að það hefur þornað. Í neyð er besta ráðið að spreyja smáhárspreyi í hárbursta og renna honum yfir hárið frá rótum til enda.

Ekki ofnota tæki og tól
Ofnotkun á hárblásara eða hitajárnum getur skemmt hárið og hættan er mun meiri á veturna þegar hárið er þurrt fyrir. Reyndu í lengstu lög að leyfa hárinu að þorna náttúrulega og blása það sem minnst. Gott viðmið er að leyfa hárinu að verða um það bil áttatíu prósent þurrt en nota síðan hárblásara í lokin til að móta það og gera það fallegt. Ekki hafa blásarann heldur stilltan á hæsta hita þó svo að kaldari stilling taki lengri tíma, þá missir hárið ekki jafnmikinn raka og verður fyrir minni skemmdum við volga þurrkun.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -