Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Hlustaði á innsæið og lífið tók nýja stefnu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tinna Sverrisdóttir, leikkona, söngkona og heilari, er ævintýragjörn ung kona sem hlustar á hjartað og er óhrædd við að feta nýjar slóðir. Þegar hún frétti af námi sem fjallaði um jóga, tónlist og súkkulaði sagði hún upp vinnunni og var flogin til Guatemala fimm dögum síðar til að setjast á skólabekk – eða jógamottu öllu heldur.

„Ég myndi segja að ég væri mjög ævintýragjörn og opin,“ svarar Tinna þegar ég byrja samtalið á því að biðja hana að segja mér hver Tinna Sverrisdóttir sé. „Ég er lærð leikkona frá Listaháskóla Íslands og hef haft ástríðu fyrir því að leika síðan ég var lítil stelpa. Listin hefur verið ómissandi partur af lífi mínu frá því ég var mjög ung. Ég er í tónlist líka, spilaði með Reykjavíkurdætrum í nokkur ár og var ein af þeim sem stofnuðu þann hóp, svo gaf ég út plötu með rokkhljómsveitinni Kroniku þar sem ég fékk að spreyta mig með „live“-bandi í fyrsta skipti. Svo ég fór úr því að koma fram með sautján rappandi konum í að spila með fjórum fullvaxta rokkjötnum. Það var mikið ævintýri.

Ætli besta lýsingin á mér sé ekki bara „Listynja“ því ég geri mitt besta að leyfa listinni að flæða þangað sem hún vill hverju sinni og leyfi mér þannig að vefa saman allt sem ég elska.“

Tinna Sverrisdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Fór að hágráta þegar hún heyrði af náminu

Andleg iðkun Tinnu hefur síðustu árin tengst súkkulaði, hvernig kom það til?

„Ég hef verið á andlegu ferðalagi síðan ég var mjög ung,“ útskýrir Tinna. „Ég byrjaði fimmtán ára að stunda sjálfsrækt, hugleiðslu og fleira og svo þróaðist það meira út í jóga með tímanum. En kakóplantan kom inn í líf mitt þegar ég fór í fyrstu kakóathöfnina mína á tuttugu og sjö ára afmælinu. Ég ætlaði að flytja til Berlínar og gerast bóhemísk listakona á þessum tíma en þess í stað tók lífið mig skyndilega til Guatemala þar sem ég endaði í námi sem heitir Yoga of Sound and Chocolate. Þar lærði ég um um töfra tónheilunar og mátt kakóplöntunnar. Kakóið hefur verið notað af Maya-indíánum svo öldum skiptir en það er frekar nýtilkomið að hvíti maðurinn sé að notast við plöntuna sem lækningajurt. Svo að mínu mati er mikill heiður að fá að vinna af heilindum með þessa mögnuðu jurt í mínu starfi.”

 „Ég vinn mikið sem heilari í kvennahringjum og við höldum námskeið sem heita VillikellingaKakó þar sem við stuðlum að því að mæta konum þar sem þær eru og efla systralagið.“

Er það leyndarmál hvernig stóð á því að þú fórst til Guatemala?

- Auglýsing -

„Nei, alls ekki,“ segir Tinna og hlær. „Það var nú bara þannig að vinkona mín fór að segja mér frá þessu námi við eldhúsborðið heima hjá henni og ég fór að hágráta þegar hún var að lýsa þessu. Það bara gerðist eitthvað innra með mér og ég grét og grét sem er yfirleitt frekar góð vísbending um að eitthvað hitti mig í hjartastað. Þarna sameinaðist það sem ég elska mest; jóga, tónlist og súkkulaði, allt í einu námi, þannig að ég ákvað að hlusta á innsæi mitt og fann að þetta var það sem ég ætti að gera. Ég hætti í vinnunni og var flogin út til Guatemala fimm dögum síðar.“

Í Guatemala lærði Tinna í jógaskólanum Mystical Yoga Farm við vatnið Atitlán sem hún segir ótrúlega magnaðan stað umvafinn eldfjöllum, inni í miðjum skógi langt frá öllum erli.

„Þetta var bæði kraftmeira og dýpra en ég bjóst við,“ segir hún. „Ég vissi satt að segja ekkert út í hvað ég var að fara en ég ákvað að treysta lífinu og taka flugið yfir hafið.“

- Auglýsing -

Skellihló þegar var minnst á bissness

Tinna segist á þeim tíma ekki hafa hugsað námið sem atvinnutækifæri, það hafi meira verið hugsað til að gefa henni innblástur, prófa nýjan menningarheim og sjá hvað gerðist ef hún hlustaði á innsæið án þess að hafa eitthvert markmið í huga.

„Ég man að pabbi spurði mig hvað ég ætlaði eiginlega að gera við þetta nám, hvort ég ætlaði að nýta það í einhvern bissness og ég fór að skellihlæja. Það síðasta sem ég bjóst við var að ég myndi stofna fyrirtæki upp úr þessu öllu saman.“

 „Það eru ótrúleg forréttindi að geta einungis unnið við það sem maður elskar. Ég næ að flétta þessu mjög fallega saman og er að átta mig á því að þetta er í rauninni allt keimlík vinna.“

Raunin varð þó sú að fljótlega eftir heimkomuna stofnaði Tinna fyrirtækið Andagift og opnaði í framhaldinu Andagift Súkkulaðisetur í samstarfi við Láru Rúnarsdóttur tónlistarkonu. Hvernig atvikaðist það?

„Ég kom heim eftir að hafa dvalið í Guatemala í rúmlega tvo mánuði og fljótlega fór fólk að spyrjast fyrir um hvort það mætti koma til mín í einkaheilun,“ útskýrir hún. „Þá var ég bara að bjóða fólki heim á stofugólf til mín í kakóbolla, tónheilun og spilaspá, allt mjög heimilislegt. Síðan vatt það upp á sig og einn daginn mætir Lára Rúnarsdóttir heim í stofu til mín. Við könnuðumst örlítið hvor við aðra í gegnum Reykjavíkurdætur, en þekktumst ekkert þannig. Hún átti ótrúlega magnaða stund með mér þarna í stofunni og það endaði með því að hún hætti líka í sinni vinnu og upp frá því spurði hún mig hvort ég hafi áhuga á að halda Möntrukvöld með henni. Ég er mikil jámanneskja svo ég svaraði auðvitað strax játandi og við héldum okkar fyrsta Möntrukvöld haustið 2017. Þar mættu sextíu manns sem kom okkur ótrúlega á óvart og í framhaldinu ákváðum við að halda áfram samstarfi. Upp frá því sendi Lára mér einn daginn mynd af rými sem var til leigu á Rauðarárstígnum og setti inn blikkkall og spurningarmerki og spurði hvort við ættum ekki bara að opna okkar eigin stað. Þetta var kannski meira í djóki en alvöru en samt ekki. Ég fór og kíkti á rýmið og allt inni í mér æpti á mig að þetta væri það rétta. Þannig að við enduðum hjá ríkisskattstjóra og stofnuðum fyrirtækið Andagift Inspire ehf. og opnuðum svo Súkkulaðisetrið í framhaldinu.“

Tinna Sverrisdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

 Búið að eyða orðinu væmið úr tungumálinu

Tinna segir ásetning þeirra stallsystranna hafa verið að skapa griðastað í miðbænum þar sem fólk fengi tækifæri til að staldra við og hlúa að sjálfu sér í amstri dagsins.

„Við vinnum mikið með sjálfsást og sjálfsmildi sem eru kannski frekar ný hugtök í okkar samfélagi,“ útskýrir Tinna og viðurkennir að hún hafi sjálf átt svolítið erfitt með að nota þessi hugtök í upphafi. „Mér fannst það erfitt út frá einhverri hugmynd um hvað væri væmið, fannst erfitt að fara úr því að vera rappari í Reykjavíkurdætrum í að drekka kakó og miðla sjálfsást,“ segir hún og skellir upp úr. „Egóið mitt var ekki alveg visst um þetta.“

Þannig að þú ert væmni rapparinn?

„Nei, ég myndi nú ekki segja það,“ segir Tinna milli hláturskviðanna. „Ég er nefnilega eiginlega komin með þá sýn að við séum að eyða orðinu væmið úr tungumálinu okkar. Ég held að samfélagið sé að þróast í þá átt að fólk sé tilbúnara að lifa meira frá hjartanu og þegar fólk lifir frá hjartanu þá er það ekki væmið heldur ekta. Þannig að rappið mitt hefur líklega breyst mest á þann hátt að ég ég er farin að rappa og syngja meira frá hjartanu en egóinu.“

Leikur Sunnefu í nýju verki

Tinna hefur hvorki lagt tónlistina né leiklistina á hilluna, segist syngja alla daga í vinnunni og að þær Lára séu að semja efni saman. Næsta verkefni á leiksviðinu er þó ekki tónlistartengt.

„Ég og leikhópurinn minn, Svipir, fengum listamannalaun til að setja á svið sýningu,“ útskýrir hún. „Og ég er að fara að taka að mér stærsta hlutverkið mitt hingað til sem er burðarhlutverk í verkinu Sunnefa þar sem ég get fléttað leikkonunni og seiðkonunni saman.“

 „Hún átti ótrúlega magnaða stund með mér þarna í stofunni og það endaði með því að hún hætti líka í vinnunni sinni og upp frá því spurði hún mig hvort ég hafi áhuga á að halda Möntrukvöld með henni.“

 

Verkið sem um ræðir, Sunnefa, er eftir Árna Friðriksson sem skrifar það ásamt Þór Tulinius sem leikstýrir einnig. Tinna leikur Sunnefu og tónlistarkonan Fabúla sér um tónlist og leikur á móti henni. Elín Signý Ragnarsdóttir úr Íslenska dansflokknum sér um sviðshreyfingar og frumsýning er áætluð í leikhúsinu þann 10.10 2020. En bitnar það að vera á fullu í leikhúsinu ekkert á starfinu í Andagift?

„Nei, núna erum við orðnar þrjár sem eigum og rekum Andagift í samstarfi við Yoga Shala í Skeifunni 7 og samstarfskonur mínar, Lára og Signý Leifsdóttir, eru alltaf til staðar og halda með mér alla leið “ segir Tinna skælbrosandi. „Það eru ótrúleg forréttindi að geta einungis unnið við það sem maður elskar. Ég næ að flétta þessu mjög fallega saman og er að átta mig á því að þetta er í rauninni allt keimlík vinna. Ég vinn mikið sem heilari í kvennahringjum og við höldum námskeið sem heita VillikellingaKakó þar sem við stuðlum að því að mæta konum þar sem þær eru og efla systralagið. Eftir me too byltinguna og allt sem búið er að eiga sér stað í samfélaginu undanfarin ár finnst okkur það starf mikilvægt. Við leyfum okkur að mætast og styðja við hvora aðra í að endurskrifa söguna svo við getum farið að lifa með það viðhorf að konur séu konum bestar. Þegar ég kem svo í leikhúsið er ég að fjalla um nákvæmlega það sama. Þar tek ég á mig hlutverk stelpu sem barðist fyrir sannleika, réttlæti og samstöðu! Stelpu sem var uppi á átjándu öld en var í raun og veru að kljást við sömu hluti og við nema bara á ólíkan hátt í ólíku umhverfi. Því á sagan sterka tengingu við tímann sem við lifum í dag. Svo að mér finnst þetta allt vera nátengt, sama hvort ég er á sviði eða í seremóníu.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -