Föstudagur 17. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Hlustaði ekki á viðvaranirnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Fyrir fjöldamörgum árum féll ég fyrir afar sjarmerandi manni og lét sem vind um eyru þjóta viðvaranir vina minna sem sögðu hann siðblindan lygara.

 

Ég er ósköp venjuleg kona sem vill öllum vel og læt mig varða ef öðrum líður illa eða þurfa hjálp. Svo lenti ég sjálf í algjöru rugli sem kom öllum á óvart.

Ég var ein með þriggja ára gamlan son og var að ljúka háskólanámi þegar ég kynntist Jóni. Á þeim tíma, 1984, var ég hrifin af strák á mínum aldri og leit ekki við Jóni sem var tíu árum eldri en ég. Hann lét mig þó ekki í friði, talaði um að ég væri svo falleg og góð, sendi mér endalaust blóm og ilmvötn og var svo sjarmerandi að á endanum tókst honum að bræða mig.

Þegar samband okkar var orðið opinbert fékk ég nokkrar viðvaranir um að Jón væri siðblindur glæpamaður sem svifist einskis. Hann væri bæði svikari og lygari. Mér fannst leiðinlegt að heyra þetta og lagði engan trúnað á þessi orð. Jón var búinn að heilla foreldra mína og bestu vinina á þessum tíma og ég var yfir mig ástfangin. Ég man að hann sat eina kvöldstund með pabba þar sem hann lýsti veru sinni í MA og fyrsta árinu sínu í læknisfræði. Síðar kom í ljós að þetta var meira og minna tilbúningur. Jón var alltaf hrókur alls fagnaðar og heillaði fólk með alls konar reynslusögum og gullhömrum.

Mér fannst ég vera á góðum stað í lífinu og það tók mig langan tíma að átta mig á því hvaða mann Jón hafði að geyma. Eftir tíu ára hjónaband hafði ég þó upplifað margt erfitt en þá áttum við tvö börn og ég vildi halda fjölskyldunni saman. Jón átti þrjú börn fyrir. Hann hafði átt fjölskyldu sem hann hafði slitið öllu sambandi við vegna þess hvað hún var ómöguleg í alla staði. Líf hans, að hans sögn, hafði verið þrautaganga og hann var sá bjargvættur sem hélt hlutunum í lagi.

- Auglýsing -

Það sem heillaði mig lengi vel við Jón var mælska hans, loforð um trúnað og bestu vináttu og hamingju. Við áttum alltaf að treysta hvort öðru og takast saman á við þær hindranir sem á vegi okkar kynnu að verða.

Við giftum okkur árið 1988, fjórum árum eftir að við kynntumst. Í brúðkaupinu hélt hann ræðu og lofaði mér trúnaði og tryggð. Alls urðu árin okkar saman tuttugu og sjö. Allan þann tíma átti hann erfitt með að segja satt og rétt frá.

Lækningaferðir til Taílands

- Auglýsing -

Jón sagði mér að hann væri höfuð ættarinnar en fjölskylda hans samanstæði af grimmu og óvægnu fólki sem hann vildi sem minnst samband hafa við. Ég trúði honum og því voru samskiptin við fólkið hans nánast engin til að byrja með en með tímanum breyttist það, sem betur fer.

Hann var prinsinn minn sem reddaði öllu fyrir alla og ég hlustaði ekki á viðvörunarbjöllur þrátt fyrir að hafa endalaust orðið vitni að því að Jón minn segði sömu söguna mismunandi mörgum sinnum í ólíkum hópum. Minnið var ekki betra en það að sagan breyttist alltaf eitthvað og stundum snerist hún við. Í byrjun reyndi ég að leiðrétta hann en þá sagði hann: „Er ég að segja söguna eða þú?“ Hann hlustaði ekki á rök mín og nennti í raun aldrei að rökræða hlutina. Gestir okkar reyndu líka að leiðrétta hann en án árangurs. Að lokum gáfust þeir upp og litu hver á annan því manninum var ekki viðbjargandi. En ég sat föst í aðstæðunum og leið sífellt verr með það.

Við bjuggum í sætu einbýlishúsi í Grafarvogi sem var öruggasti staður minn í lífinu. Hlutverk mitt var að hugsa vel um það og fjölskylduna sem ég elskaði og svo vann ég að auki fulla vinnu sem kennari. Þarna bjuggum við í tuttugu og fimm ár.

Árið 2002 fór Jón að sýna á sér sífellt verri hliðar. Hann beitti mig andlegu og líkamlegu ofbeldi sem næstu árin bjuggu til sár á sálinni.

Ég fékk aldrei að sjá bankareikninginn hans öll okkar ár og aldrei viðurkenndi hann mistök eða gat rætt um hlutina. Ég sat meðvirk undir því á meðan hann bullaði í fólki með einhverjum ranghugmyndum. Ef ég reyndi að ræða málin við hann þegar við komum heim sagði hann: „Hættu þessu bulli, kerling,“ og fór út.

Hann fór að vera meira að heiman en áður, fór í vinnuna á öllum tímum og mikið til útlanda … í lækningaskyni. Hann hafði verið með asma og fékk stundum lungnabólgu en einn daginn tjáði hann mér að hann væri kominn með lungnakrabbamein. Þegar ég spurði um nafn læknisins hans gat hann ómögulega munað það. Hann fór tvisvar til þrisvar á ári til Taílands í lækningaskyni í um 15 ár og auðvitað bauðst mér ekki að fara með.

Einn daginn lagðist Jón inn á sjúkrahús með lungnabólgu. Eftir þá legu tjáði hann mér að krabbinn hefði dreift sér og hann yrði að fara aftur til Taílands til að láta hreinsa lungun. Ég hafði upp á lækninum sem meðhöndlaði hann og spurði út í veikindi hans. Læknirinn sagði hissa: „Hann var með lungnabólgu, hann er ekki með krabbamein.“

Ég var enn meðvirk á þessum tíma en búin að fá nóg af lygunum sem ég hafði lifað í síðustu tuttugu og fimm árin. Börnin sáu í gegnum hann og lygar hans. Hann kveikti stundum neista í brjósti þeirra til að framkvæma eitthvað skemmtilegt en svo dofnaði sá draumur og hvarf vegna þess að hann stóð yfirleitt aldrei við það sem hann lofaði.

Þurfti að finna sjálfan sig

Ég held að Jón hafi haldið fram hjá mér meira og minna frá 1995. Ýmsar vísbendingar úr umhverfinu bentu til þess og ég fékk líka viðvaranir. Dóttir okkar sagði mér að hún fyndi stundum ilmvatnslykt af honum þegar hann kæmi heim frá því að sýna íbúðir á kvöldin. En það þýddi ekki að segja neitt við hann. Hann laug bara.

Að ósk Jóns var ég skráð fyrir húsinu. Hann var mikill braskari og rak nokkur fyrirtæki sem gengu misvel. Hann setti okkur fjölskyldumeðlimina sem stjórnarmenn og ábyrgðarmenn í þessum fyrirtækjum. Ég áttaði mig ekki á hættunni af því.

Eitt kvöldið kom hann seint heim, blíðmáll og með blómvönd meðferðis. Hann bað mig um að skrifa undir veðleyfi í húsinu. Hann þyrfti mikið á peningum að halda og allt myndi reddast. Eldri sonur minn var í heimsókn og bað mig að skrifa alls ekki undir. Sjálfur hafði hann skrifað undir fyrir hann nýlega og vinir hans sögðu honum að hann gæti misst íbúðina ef stjúpi hans stæði ekki við sitt.

Mér fannst mér ekki stætt á því að neita svo að ég skrifaði undir og ekki svo löngu síðar stóð ég á götunni með 19 ára son minn með mér. Eldri sonur minn missti sína íbúð hálfu ári síðar vegna svika stjúpa síns.

Skömmu áður en við lentum á götunni sagði Jón mér yfir kvöldmatnum að hann þyrfti að finna sjálfan sig. Hann væri búinn að hreiðra um sig í íbúð í Breiðholti og ætlaði að leita þar að sínum innra manni. Raunin var sú að þarna var hann að ganga út frá fjölskyldunni og flytja til konunnar sem hann hafði haldið við í fimm ár. Nú var hann búinn að ganga út frá tveimur fjölskyldum, ískaldur og án samvisku. Hann skildi líka við börnin sín sem grétu heima og var hent út í djúpu laugina fyrirvaralaust.

Þessi síðustu svik hans voru mér mikið áfall og segja má að ég hafi verið týnd í tvö ár á eftir. Vanlíðan mín stafaði ekki af söknuði, heldur féllust mér nánast hendur yfir þessu yfirgripsmikla verkefni sem beið mín, þessum mikla skaða sem hann hafði valdið fjölskyldu sinni. Ég var þó aðallega reið, öskureið yfir því að hafa látið hafa mig að fífli í svona mörg ár.

Eftir að hafa setið meðvirkninámskeið sem ég dreif mig á eftir áfallið, varð ég meðvituð um að ég get ekki bjargað heiminum og þrifið upp skít sem aðrir hafa búið til.

Það bætti ekki ástandið að ég hafði miklar áhyggjur af yngri syni mínum sem var farinn að reykja gras. Þeir sem segja að slíkt sé hættulaust eru kjánar. Besti vinur hans og neyslufélagi svipti sig lífi og sonur minn sökk enn dýpra í kjölfarið. Ég missti ekki úr vinnu vegna svika Jóns og missis heimilisins en ég var óvinnufær í þrjá mánuði vegna sonar míns, svo nærri mér tók ég ástand hans. Allt er þó á uppleið núna og ég er komin á svo miklu betri stað í lífinu þótt ég sé enn að borga skuldirnar hans Jóns. Ég er loks búin að fyrirgefa sjálfri mér blinduna og er farin að kenna við annan skóla þar sem mér líður mjög vel. Ég er þakklát fyrir góða foreldra og vini, og líka fyrir sjálfa mig sem ég ætla að halda áfram að rækta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -