Sunnudagur 16. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

„Hvern ertu að reyna að sannfæra?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Þegar systir mín gifti sig var ég viss um að samband hennar við mann sinn yrði farsælt, svo ástfangin voru þau og tilbúin til að verja lífinu saman. Þrjátíu árum síðar virtist allt vera í lukkunnar velstandi en svo heyrði ég samtal á milli hennar og vinkonu hennar.

Allt gerðist hratt hjá Stínu og Jonna eftir að þau kynntust. Þau giftu sig fljótlega og börnin þrjú komu í heiminn með skömmu millibili. Jonni var og er í sértrúarsöfnuði og Stína gerðist fljótlega meðlimur. Mér fannst það þó með hálfum huga því hún var aldrei áhugasöm um söfnuðinn en gerði það fyrir mann sinn. Hún var þó aldrei virk þar en Jonni lagði áherslu á að börnin þeirra tækju virkan þátt í starfinu frá unga aldri.

Við ólumst upp í bæjarfélagi á Suðurlandi og þar bý ég enn, einnig foreldrar okkar og systkini. Stína býr með Jonna í fallegu raðhúsi í Reykjavík. Jonni er iðnaðarmaður, fær í sínu fagi og eftirsóttur vinnukraftur.

Ómannblendinn durtur

Jonni hafði í upphafi gefið Stínu það loforð að einn góðan veðurdag myndu þau flytja í heimabæinn okkar, enda nóg fyrir hann að gera alls staðar. Árin liðu bara svo hratt, börnin stækkuðu, alltaf brjálað að gera hjá Jonna og Stína komin í góða vinnu. Þó fann ég að hún þráði að flytja á æskuslóðirnar og Jonni gaf alltaf í skyn að þangað flyttu þau, bara ekki „núna“.

- Auglýsing -

Ég heimsótti þau frekar oft, sérstaklega á meðan börnin mín voru lítil og gisti hjá þeim. Stína er afar gestrisin og frábær kokkur. Hún er hlý og góð manneskja sem er alltaf boðin og búin til að hjálpa öðrum. Jonni er aftur á móti hlédrægur og á mörkum þess að vera dónalegur við fólk, það dregst varla upp úr honum orð. Hann kannski rétt borðaði með okkur þegar ég var í heimsókn og lét sig svo hverfa án þess að kveðja. Hann skánaði lítið með árunum. Ég hefði haft áhyggjur ef Stína hefði ekki talað svona mikið um hversu dásamlegur og gjafmildur hann væri. Eitt stakk mig þó og það var að hún sagði stundum að hann hefði „leyft“ sér að kaupa eitthvað. Ég spurði hana hvort hún þyrfti leyfi eins og krakki til þess. Hún neitaði því og sagði að hún hefði bara orðað þetta asnalega. Ég stóð hana oftar að því að segja þetta en sagði ekkert, hún ræður því sjálf hvernig hún talar. Það gladdi mig hversu ástfangin hún var alltaf af Jonna sínum og hve góður hann var við hana, að hennar sögn.

Jonni átti enga vini, hann umgekkst bara bróður sinn, vinnufélaga og trúbræður. Mig fór reyndar að gruna að honum fyndist óþægilegt að vera í samskiptum við fólk sem trúði „á rangan hátt“ eða bara alls ekki, þótt hann virtist sætta sig við hlutleysi systur minnar gagnvart söfuðinum. Við Stína ræddum sjaldan trúmál og hún minntist ekki oft á þennan söfnuð. Hann þótti frekar frjálslyndur, svona út á við, en mér hafði þó skilist á Stínu að þar grasseruðu þó miklir fordómar.

Kvennagarðpartí

- Auglýsing -

Þegar Stína varð fimmtug fóru þau hjónin í helgarferð til útlanda. Mér skildist að það hefði verið erfitt að draga hann með því hann vildi helst ekki ferðast. Skömmu seinna hélt hún kvennaboð heima hjá sér, í tilefni afmælisins.

Partíið var glæsilegt. Stína hafði útbúið pinnamat og við drukkum léttvín eða gos með. Jonni drakk ekki, það var ekki liðið í söfnuðinum en hann hefur greinilega horft fram hjá vínveitingunum í boðinu. Dóttir Stínu og tengdadæturnar mættu snemma og létu sig hverfa fljótt. Þær tóku trúna mjög alvarlega, yndislegar ungar konur allar þrjár, og dæmdu engan, kærðu sig bara ekki um að lengi fyrst vín var haft um hönd.

Veðrið var afar gott svo konurnar, vinkonur og frænkur, höfðu það gott í fallega upplýstum garðinum. Það var komið fram í september og ótrúlega hlýtt úti.

Þegar nokkuð var liðið á kvöldið fór ég inn í eldhús með óhreint leirtau úr garðinum og heyrði þá að Stína og Guðrún, besta vinkona hennar, voru að spjalla saman inni í myrkri stofunni. Þær voru báðar orðnar drukknar og heyrðu ábyggilega ekki í mér þótt ég væri farin að setja í uppþvottavélina og taka til í eldhúsinu. Einhverjir gestir voru farnir heim en allir nema við þrjár voru enn úti í garði. Stína var að tala um elsku Jonna sinn, eins og svo oft áður, og þá heyrði ég að Guðrún sagði pirruð: „Hvern ertu að reyna að sannfæra? Mig eða þig?“ Svo fóru þær að kýta og ég heyrði að orðið ofbeldi kom fyrir. Ég vildi ekki hlusta á meira og fór aftur út í garð þungt hugsi. Ég ákvað að tala við Guðrúnu áður en ég ræddi við systur mína. Hvað var það sem ég vissi ekki?

„Stína var að tala um elsku Jonna sinn, eins og svo oft áður, og þá heyrði ég að Guðrún sagði pirruð: „Hvern ertu að reyna að sannfæra? Mig eða þig?““

Langvarandi fýla og þögn

Nokkrum dögum seinna hringdi ég í Guðrúnu. Hún tók mér vel en varð svolítið vandræðaleg þegar ég sagðist hafa heyrt hluta af samræðum hennar og Stínu. Ég sagði henni að mig langaði að vita hvort ekki væri allt í lagi í hjónabandi Jonna og Stínu. Við systurnar værum góðar vinkonur en hún segði mér greinilega ekki allt.

Guðrún sagðist hafa náð að slíta sig úr erfiðu hjónabandi þar sem hún bjó við mikið andlegt ofbeldi og hún sæi skýr merki um slíkt í hjónabandi Stínu. Stína virtist mjög hrifin af manni sínum en hann kúgaði hana á ýmsan hátt, meðal annars með því að fara í langvarandi fýlu og hætta að tala við hana ef hún gerði eitthvað sem honum þóknaðist ekki. Það þyrfti fáránlega lítið til. Eitt sinn keypti Stína sér úlpu á útsölu, sú gamla var orðin slitin og ljót. Jonni talaði ekki við hana í tvær vikur því hún spurði ekki um leyfi!

Þótt hann væri iðnaðarmaður gerði hann aldrei neitt á heimilinu nema á allra síðustu stundu, hann rak t.d. endahnútinn á parketlögn tveimur klukkutímum áður en yngsta barnið átti að fermast en veislan var haldin heima. Lengsta fýlan stóð í þrjá máuði, þá yrti hann ekki á konu sína. Hún hafði beðið mann vinkonu sinnar að laga eitthvað á heimilinu sem hún hafði margbeðið Jonna um að gera.

Guðrún bætti því við að systir mín sullaði í léttvíni nánast á hverju kvöldi. Stína var oft ein heima, Jonni vann mikið og ekki síst fyrir söfnuðinn. Nú á síðustu árum hefði hún farið að sulla, eins og til að ögra manni sínum. Hann virtist sætta sig við það eins og Stína við fýluköstin. Þau væru svo meðvirk hvort með öðru í þessu óheilbrigða sambandi.

Ég lofaði Guðrúnu að segja Stínu aldrei frá þessu samtali og hef staðið við það.

Stína kom í heimsókn til mín nokkrum vikum seinna og þá gafst gott tækifæri. Ég spurði hana hvort hún væri hamingjusöm. Auðvitað, sagði hún, og byrjaði að lofsyngja Jonna, eins og svo oft áður. Ég sagði henni að ég hefði heyrt ávæning af samtali hennar og Guðrúnar í kvennapartíinu, þess vegna vissi ég að eitthvað væri að.

Tveir slæmir kostir

Fyrst vildi hún ekkert segja en svo fór hún að segja mér frá fýluköstum Jonna. Þau hjónin töluðu aldrei almennilega saman um það sem amaði að. Ástandið væri oft baneitrað. Allt gengi vel á meðan hún þóknaðist honum í einu og öllu og spyrði um leyfi. Helst hefði hann viljað að hún ynni ekki úti en starf hennar hafði kostað nokkur fýluköst. Í söfnuðinum var karlinn æðri konunni svo Jonni þótti eflaust frjálslyndur að „leyfa“ henni að mæta ekki á samkomur og að vinna fulla vinnu utan heimilis. Stína vildi meina að hann væri of dýrmætur meðlimur til að nokkur þyrði að gagnrýna hann.

Oft hefði Stínu langað til að skilja við hann en þá hefði hún líklega misst börnin frá sér, og í leiðinni barnabörnin tvö. Börnin hennar væru öll á kafi í söfnuðinum og hefðu fundið sér maka innan hans. Hjónabandið var heilagt í augum meðlimanna og skilnaðir óhugsandi. Stína sagði að annaðhvort yrði hún að sætta sig við ástandið eða eiga hitt á hættu. Þótt hún segði börnum sínum frá framkomu Jonna fengi hún engan skilning, þau „vissu“ að karlinn væri alltaf rétthærri, konan yrði að hlýða og sætta sig við ástandið. Stína var í mikilli klemmu, báðir kostir slæmir, en ég fann samt að hún ætlaði að sætta sig við þetta.

„Þótt hún segði börnum sínum frá framkomu Jonna fengi hún engan skilning, þau „vissu“ að karlinn væri alltaf rétthærri, konan yrði að hlýða og sætta sig við ástandið.“

Ég hef ákveðna samúð með Jonna, börnunum og öðrum sem ánetjast söfnuðum þar sem þröngsýni og kreddur ráða ríkjum. Jonni „veit“ að hann er betri en aðrir vegna trúar sinnar, meira að segja trúað fólk í þjóðkirkjunni trúir ekki „rétt“ og túlkar Biblíuna allt of frjálslega, að mati hans.

Ég mun standa þétt við hliðina á systur minni og leyfa henni að pústa þegar hún þarf, meira held ég að ég geti ekki gert, því miður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -