Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Hvernig er að vinna í Buckingham-höll? – Í þjónustu hennar hátignar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Breska konungsfjölskyldan er mikið í fréttum og feikilega vinsæl þótt sumum finnist allt kóngastand tilgangslaust prjál. Engu að síður þykir mikill heiður og mjög fínt að starfa í Buckingham-höll en hvernig ætli sé að vinna þar?

 

Þegar ég bjó um hríð í Bretlandi, 1975-1976, fann ég ekki fyrir sérlega mikilli dýrkun á konungsfjölskyldunni, enda Díana prinsessa ekki komin til sögunnar en fjölskyldan var virt og vinsæl. Breskur kunningi minn sagði að það þætti mjög fínt að vinna í höllinni og bætti glottandi við að það fyndist ekki snobbaðri manneskja en eldhússtúlka þar, sú talaði ekki við hvern sem væri.

Í höllinni eru 775 herbergi. Nítján salir, 52 herbergi fyrir hátignirnar og gesti þeirra, 188 starfsmannaherbergi, 92 skrifstofur og 78 baðherbergi.

Sjálf konungsfjölskyldan þykir nokkuð alþýðleg þrátt fyrir að vera háð ströngum reglum og aldagömlum siðum. Breski háaðallinn segir hana reyndar plebbalega og nefnir sem dæmi morgunverðarvenjur Elísabetar drottningar og Filippusar drottningarmanns sem snæða víst morgunverðinn upp úr Tupperware-dollum í stað þess að láta leggja almennilega á borð fyrir sig. Engan veginn sæmandi að mati margra eðalborinna Breta.

Aðeins þeir bestu

Í höllinni eru 775 herbergi. Nítján salir, 52 herbergi fyrir hátignirnar og gesti þeirra, 188 starfsmannaherbergi, 92 skrifstofur og 78 baðherbergi. Þá eru ótalin anddyri, hol og gangar. Ekki veitir af heilum herskara starfsfólks til að þrífa herlegheitin. Starfsmenn eru í kringum þúsund talsins og sjá um að elda, þvo og þrífa, kemba hesta, strauja rúmföt, fægja silfur, reyta arfa og allt þar á milli. Þeir þurfa að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu og margir fara í langa og stranga þjálfun áður en þeir fá að vinna fyrir konungsfjölskylduna. Einnig er gert sérstakt öryggistékk á þeim og aðeins Bretar og útlendingar með starfsleyfi í landinu fá vinnu.

Allir umsækjendur fara í gegnum strangt umsóknarferli, sumir þurfa að fara í allt að sex atvinnuviðtöl og allt ferlið getur tekið hálft ár. Fjölskyldan ræður ekki hvern sem er, aðeins þeir bestu fá vinnu. Þeir mega margir búast við að þurfa að vinna langan vinnudag. Annasamur dagur getur staðið frá hálfátta að morgni til ellefu um kvöldið en inn á milli koma vissulega mun rólegri dagar.

- Auglýsing -

Starfsmenn mega sjást, stroknir og fínir, en ekki heyrast, þeim er ætlað að vera í bakgrunninum og mega ekki draga að sér athygli. Þeir mega t.d. ekki ganga niður miðja stigana, heldur verða þeir að halda sig til hliðar.

Starfsmenn þurfa að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu og margir fara í langa og stranga þjálfun áður en þeir fá að vinna fyrir konungsfjölskylduna.

Skýrar reglur kveða á um hvenær dagsins hvert verk er unnið og hversu langan tíma það tekur. Það tekur t.d. klukkustund að strauja rúmföt drottningar og um tuttugu mínútur að búa um rúm hennar dag hvern. Ekki má byrja að ryksuga nálægt svefnherbergjunum fyrr en klukkan tíu á morgnana til að raska ekki ró íbúana. Allt þarf að vera fullkomið og ekkier liðið að þrífa með hangandi hendi.

Eldhúsið er sérkapítuli fyrir sig. Þar má til dæmis ekki elda skelfisk því meðlimir konungsfjölskyldunar borða hann ekki af ótta við eitrun. Drottningin hatar hvítlauk svo hann sést ekki í eldhúsinu, starfsfólk má heldur ekki borða hann í höllinni. Í eldhúsinu er að finna eins konar umferðarljós sem sjá til þess að matur berist á borð á réttum tíma.

- Auglýsing -

Þegar lagt er á borð nota brytarnir reglustikur og leggja diska, silfurhnífapör og glös á nákvæmlega rétta staði.

Húsgögnin í sölum hallarinnar eru öll á sínum fullkomna stað, röndóttum púðum er raðað lóðrétt í sófana og ryklausir lampar lýsa á hárréttum stöðum.

Launin

Það er auðvitað heilmikill glamúr yfir því að starfa í höllinni en flest störfin þar eru illa borguð. Sem dæmi hefur menntaður bryti laun í kringum 200 þúsund kr. íslenskar á mánuði, eða á bilinu 170.000-235.000 kr.

Innifalið í launum margra er frítt fæði og húsnæði. Í höllu drottningar er, eins og áður hefur komið fram, að finna 188 herbergi ætluð starfsfólki. Herbergin eru lítil og látlaus, í hverju þeirra er aðeins rúm, vaskur og skápur. Þeir starfsmenn sem búa utan hallarinnar nota sérstakar hliðardyr til að komast inn.

Þótt flestir séu á lúsarlaunum má finna nokkra vellaunaða starfsmenn, þar á meðal þann sem hefur stjórn fjármála á sínum herðum, þann sem ber höfuðábyrgð á heimilishaldinu og einkaritara drottningar. Laun þeirra eru frá 12 milljón kr. og upp í 19 milljónir kr. á mánuði.

Þjálfun

Starfsfólkið þarf að vera vel þjálfað og afar fjölhæft. Þjálfunin kostar sitt og sem dæmi þarf tilvonandi bryti að borga frá einni og hálfri milljón króna til tæplega þriggja milljóna króna til að læra að verða hinn fullkomni bryti. Þetta eru yfirleitt fjögurra vikna og upp í tíu vikna námskeið sem verður að taka til að fá að starfa fyrir konungsfjölskylduna.

Barnfóstra Vilhjálms og Katrínar, Maria Teresa Turrion Borrallo, útskrifaðist úr flottasta barnfóstruskóla heims, Norland. Þar lærði hún allt frá sjálfsvörn að aðferðum til að forðast hryðjuverkamenn ásamt áhættuakstri, til að vera betur í stakk búin til að vernda litlu konunglegu krúttin. Hún er frá Spáni og hluti af skyldum hennar er að kenna börnunum spænsku. Hún gætir þeirra, skemmtir þeim, sér til þess að þau hreyfi sig og borði næringarríkan mat.

Barnfóstra Vilhjálms og Katrínar, Maria Teresa Turrion Borrallo, útskrifaðist úr flottasta barnfóstruskóla heims, Norland.

Að verða hallarþjónn virðist kannski ekki sérlega erfitt eða flókið en þjálfun þjónanna tekur þó þrjú ár. „Þetta er líklega það sem ég hef komist næst því að vera í herþjálfun án þess að bera byssu,“ sagði fyrrum þjónn um stífa þjálfun sína í því að bursta skó, strauja einkennisbúninga og ótal margt fleira.

Maður myndi ætla að fólk sem hefur fengið svo góða og mikla þjálfun vinni þetta fína starf sitt alla starfsævina en þannig er það ekki. Þjálfunin kemur sér víða vel og að hafa starfað í Buckingham-höll lítur óneitanlega vel út á ferilskránni. Margir þjónar hverfa til annarra (og trúlega mun betur borgaðra) starfa með þessa góðu reynslu í farteskinu.

Slegist um hvert starf

Ekki er sérlega mikil starfsmannavelta í höllinni en það losna alltaf störf annað slagið. Samkeppnin er þó mikil og nánast slegist um hvert starf því marga dreymir um að vinna fyrir drottningu. Einn af fyrrum brytum hennar sagði að hann hefði frá barnæsku þráð að starfa fyrir hana. Hann skrifaði henni meira að segja bréf þegar hann var lítill til að spyrja hvernig hann gæti fengið vinnu hjá henni.

Marga dreymir um að vinna fyrir drottninguna.

Haft er eftir fyrrverandi þjóni sem starfaði fyrir drottninguna og Filippus árum saman að starfið hafi verið sérlega fjölbreytt. Engir tveir dagar hafi verið eins, stundum hafi verið mikið annríki og aðra daga nákvæmlega ekkert að gera. Að þurfa að hafa ofan af fyrir sér annan daginn og þann næsta að ganga fyrir allra augum sperrtur í gulllögðum einkennisbúningi við hliðina á gullvagni með drottninguna innanborðs væri eðlilegt í þessu starfi.

„Yðar hátign“

Starfsfólk skal vera formlegt í klæðaburði og flestir starfsmenn eru í sérstökum búningum. Það á einnig að vera vingjarnlegt, kurteist, tala fallegt mál og vera óaðfinnanlegt í hegðun. Það vinnur fyrir fínasta fólk landsins og á að haga sér í samræmi við það en það uppsker virðingu og kurteisi á móti. Starfsmenn sem hitta drottninguna verða alltaf að ávarpa hana „yðar hátign“ og ef hún réttir viðkomandi höndina tekur hann varlega í hana og kreistir ekki eða hristir. Að hneigja sig þykir kurteisi en er ekki lengur skylda hjá starfsfólkinu.

Starfið getur verið stressandi, það þarf að vera vel vakandi og í sínu besta formi alla vaktina. Lífverðir þurfa að vera árvökulir og halda einbeitingu sinni stöðugt sem getur verið stressandi. Fyrrum lífverðir hafa sagt að erfiðasti hluti starfsins og sá flóknasti hafi verið þegar einhver úr fjölskyldunni fór óvænt og talaði við almenning þar sem jafnvel mikil mannþröng var. Það hlýtur einnig að taka á þá þegar brotist er inn í höllina. Árið 1982 komst Michael Fagan óáreittur alla leið að dyngju drottningar og settist á rúmstokkinn hjá henni. Hún spjallaði rólega við hann í nokkrar mínútur áður en hann var handtekinn. Fyrir rúmum mánuði, eða í júlí á þessu ári, nánast upp á dag 37 árum síðar, braust 22 ára gamall maður inn í höllina en var handtekinn fjórum mínútum seinna.

Vinaleg og skemmtileg

Starfið í höllinni er ekki endilega alltaf auðvelt en það þýðir ekki að það sé ekki gaman að vinna þar. Margir gætu haldið að fjölskyldan væri bæði stíf og regluföst en þau eru líka vinaleg og skemmtileg, að sögn starfsmanna, og sýna öllum kurteisi og virðingu. Þau gera vissulega miklar kröfur og vilja að hlutirnir gangi vel.

Eflaust halda einhverjir að það saki ekki að þekkja einhvern í höllinni til að fá starf þar en sú er nú ekki raunin. Í raun er betra að hafa engin tengsl því klíkuskapur hjálpar ekki, sem gefur öllum sem sækja um betra tækifæri.

Það er heilmikill glamúr yfir því að starfa í höllinni en flest störfin þar eru illa borguð.

Stöku starfsmaður ávinnur sér vináttu, eins og fyrrnefnd Rebecca Deacon sem var aðstoðarkona Katrínar hertogaynju, en þær tvær eru góðar vinkonur. Karl prins þykir umhyggjusamur gagnvart starfsfólki sínu og hikar ekki við að hringja í það til að athuga hvernig því líður ef það á erfitt.

Fyrrverandi bryti nefndi fallega persónuleika og ríka kímnigáfu þegar hann talaði um konungsfjölskylduna og að meðlimir hennar væru sérlega ljúfir og vingjarnlegir.

Athyglisvert

– Starfsmenn mega ekki snerta konungsfjölskylduna. Á miðöldum trúði fólk því að kóngurinn/drottningin stjórnaði í gegnum guð og væri þar af leiðandi guð líka. Og ekki mátti snerta guð.
– Konungsfjölskyldan reynir eftir fremsta megni að vera vistvæn og notar led-ljós víðast hvar í höllinni. Endurvinnsla er nokkur, sérstaklega í hallargarðinum.
– Í gegnum aldirnar máttu sumir starfsmenn koma með hundinn sinn til vinnu í höllinni en í maí 2018 var það bannað og vísað til hreinlætis- og öryggissjónarmiða. Þetta þótti skrítið þar sem drottningin sjálf á marga corgi-hunda.
– Sumir starfsmenn verða þess heiðurs aðnjótandi að snæða með einhverjum úr konungsfjölskyldunni og þegar það gerist gilda strangar reglur. Ein þeirra er að fá sér ekki tvisvar á diskinn, það þykir afar dónalegt.

Konunglegur jólaglaðningur

Jólabúðingurinn sem starfsfólkið fær er núna keyptur í verslunarkeðjunni Tesco.

Að vinna fyrir þessa afar auðugu fjölskyldu þýðir ekki sjálfkrafa að starfsfólkið fái háa bónusa eða dýrar jólagjafir.

Fyrir utan jólakort fá allir jólabúðing, fullan af rúsínum og koníaki. Sá búðingur var lengi vel keyptur hjá Harrods eða Fortnum & Mason en kemur nú frá verslunarkeðjunni Tesco.

Þeir sem hafa starfað lengi fyrir fjölskylduna fá þó til viðbótar gjöf á borð við gjafakort í bókaverslun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -