Þriðjudagur 3. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Kvenskörungar á norðurslóðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mikið hefur mætt á ríkisstjórnum flestra landa í heimsfaraldrinum undanfarna mánuði og hefur athyglin beinst að forkólfum þeirra sem aldrei fyrr. Dregið hefur verið fram að lönd þar sem konur eru í æðstu embættum hafa mörg hver staðið sig betur í baráttunni við veiruna en lönd þar sem karlar eru í forsvari. Á norðurslóðum eru konur í meirihluta í embættum forsætisráðherra og því einboðið að kíkja aðeins nánar á hvaða konur það eru sem hafa borið hitann og þungann af baráttunni í löndunum sem næst okkur eru.

Nicola Sturgeon

Fyrsti ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon, hefur algjörlega stolið senunni á Bretlandseyjum í herferðinni gegn COVID-19 og er einn af fáum þjóðarleiðtogum sem hefur aukið vinsældir sínar í faraldrinum. Hún hefur mætt í beina útsendingu á BBC á hverjum einasta virkum degi síðan um miðjan mars, stappað stálinu í þjóðina og sýnt mannúð og mildi sem hefur skilað henni virðingu og væntumþykju þjóðarinnar, þrátt fyrir að sóttvarnaaðgerðir í Skotlandi hafi að mörgu leyti verið strangari en hjá hinum þjóðunum sem mynda Bretland.

Nicola er formaður Skoska þjóðarflokksins, SNP, og hefur verið fyrsti ráðherra Skotlands síðan 2014. Hún fagnaði fimmtugsafmæli sínu í júlí, er lögfræðingur að mennt, gift Peter Murrell en barnlaus. Undir hennar stjórn hefur SNP sópað til sín fylgi og er nú langstærsti flokkur Skotlands. Meginmarkmið flokksins er að Skotland segi skilið við Bretland og verði sjálfstætt ríki í fyrsta sinn í þrjú hundruð ár. Þrátt fyrir nauman sigur þeirra sem kusu gegn aðskilnaði frá Bretlandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2014 benda kannanir nú eindregið til þess að SNP fái hreinan meirihluta á skoska þinginu í kosningum á næsta ári og þá er sjálfstæðið næst á dagskrá.

 Sanna Marin

Hin þrjátíu og fjögurra ára gamla Sanna Marin hefur verið forsætisráðherra Finnlands síðan í desember 2019. Hún er yngsti forsætisráðherra sem Finnland hefur haft og yngsta kona sem er starfandi forsætisráðherra í heiminum í dag. Hún þykir sköruglegur þjóðarleiðtogi og var ríkisstjórn hennar ein sú fyrsta í heimi til að lýsa yfir neyðarástandi vegna heimsfaraldursins og útbreiðsla veirunnar í Finnlandi er ein sú minnsta í Evrópu.

- Auglýsing -

Sanna hóf afskipti af pólitík strax um tvítugt og tók sæti á þingi fyrir Sósíaldemókrata árið 2015 eftir að hafa verið í borgarstjórn Tampere síðan 2013. Hún var kosin formaður Sósíaldemókrataflokksins í ágúst 2020. Í sama mánuði giftist hún æskuást sinni, Markus Räikkönen, eftir margra ára sambúð og saman eiga þau dótturina Emmu.

Mette Frederiksen

Mette Frederiksen hefur verið forsætisráðherra Danmerkur síðan í júní 2019 og formaður Sósíaldemókrataflokksins síðan 2015. Hún er fjörutíu og tveggja ára gömul og yngsti forsætisráðherra í sögu Danmerkur. Hún hefur setið á danska þinginu síðan 2001 og hefur verið á kafi í pólitík nánast allt sitt líf. Töluverður styrr hefur staðið um hana sem stjórnmálamann, einkum eru margir andvígir stefnu hennar í innflytjendamálum, sem mörgum þykir ekki beint í anda sósíaldemókrata. Hún hefur þó vaxið í áliti á tímum faraldursins og þykir hafa tekið vel á sóttvörnum.

- Auglýsing -

Mette giftist kvikmyndaleikstjóranum Bo Tengberg í júlí í sumar, en hún á tvö börn frá fyrra hjónabandi.

Erna Solberg

Erna Solberg hefur verið forsætisráðherra Noregs síðan 2013 og formaður Íhaldsflokksins síðan 2004. Hún þykir hörð í horn að taka og sumir kalla hana JárnErnu með vísun í Margaret Thatcher. Hún hefur setið á norska þinginu síðan 1989, er önnur konan sem hefur gegnt forsætisráðherrastöðu í Noregi og jafnframt sá forsætisráðherra Íhaldsflokksins sem lengst hefur setið í embætti. Hún þykir hafa staðið sig fádæma vel þar, einkum á alþjóðavettvangi og hlaut meðal annars Global Citizen World Leader-verðlaunin árið 2018 fyrir framlag sitt til alþjóðasamskipta.

Erna er fimmtíu og níu ára gömul, gift Sindre Finnes og tveggja barna móðir.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -