Föstudagur 6. desember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Kyrrð, ró og gott mannlíf

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Björg Kristinsdóttir segir gott að búa í bæjarkjarnanum Himlingøje í nágrenni Kaupmannahafnar.

Bærinn er lítill, nánast aðeins ein gata með nokkrum húsum, félagsheimili og kirkju.

Anna Björg Kristinsdóttir hefur búið í litlum bæjarkjarna sem heitir Himlingøje í Danmörku. Himlingøje er 13 kílómetra suður af Køge og þar hafa fundist fornleifar sem taldar eru frá elstu byggðum Danmerkur, meðal annars minjar frá tímum Rómaveldis. Bærinn er lítill, nánast aðeins ein gata með nokkrum húsum, félagsheimili og kirkju. Í kring liggja akrar og sveitir og að mati Önnu Bjargar eru helstu kostir staðarins kyrrð, ró og gott mannlíf.

Stevns Klint
Er á heimsminjaskrá UNESCO. Kletturinn er samansettur úr kalksteinslögum sem hafa mikla þýðingu fyrir jarðvísindasöguna en í honum sjást meðal annars jarðlög frá því að risaeðlurnar lifðu og dóu út. Meðfram klettinum liggur 20 km langur göngustígur sem hægt er að ganga á góðum degi frá Rødvig til Bøgeskoven, eða öfugt, og margir áhugaverðir sögustaðir á leiðinni. Á meðal þeirra er kirkjan í Højerup sem var byggð vel inni í landi á þrettándu öld en með tímanum hefur sjórinn sorfið úr klettinum og hluti af kirkjunni féll í hafið 1928. Í Rødvig eru líka veitinga- og gististaðir og því tilvalinn áfangastaður fyrir þá sem vilja sjá eitthvað meira en Kaupmannahöfn í Danmerkurferðinni.

Kaldastríðssafnið
Hernaðarlega séð var svæðið við Stevns Klint mjög mikilvægt á tímum kalda stríðsins. Hér er hægt að sjá minjar þessa gamla tíma þegar gert var ráð fyrir að ef til átaka kæmi milli austurs og vesturs, yrði aðgerðum NATO stjórnað úr neðanjarðarbyrgjum við Stevns Klint. Möst fyrir söguáhugafólk!

Við kastalann er svo Vallø Slotskro sem er vandaður veitingastaður og gistiheimili.

Vallø-kastali
Kastalinn var byggður um miðja 16. öld og hefur verið búið í honum nánast samfleytt síðan. Þó brann hluti af honum árið 1893 en útveggirnir stóðu og innviðir voru endurbyggðir. Í dag eru alls níu íbúðir í kastalanum og því ekki hægt að skoða hann að innan en við komum oft hingað til að fara í göngutúr með hundinn í kastalagarðinum, sem er opinn almenningi. Það er yndislegt að ganga þarna um en garðurinn er einstaklega fallegur á sumrin og mikið notaður til útiveru. Við kastalann er svo Vallø Slotskro sem er vandaður veitingastaður og gistiheimili en ekki nóg með það, heldur var hann valinn „Årets Bedste Bo og Spis-sted i Danmark“ fyrir árið 2017 af Den danske Spiseguide. Í fimm mínútna fjarlægð er 18 holu golfvöllur.

TeBønnen – Køge
Þetta er mín uppáhaldsverslun á svæðinu. Hér fæst úrval af gæðatei og -kaffi, ásamt ýmiss konar matvælum frá dönskum smáframleiðendum; súkkulaði, kryddblöndur, hunang og alls konar marmelaði, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar er alveg þess virði að fá sér göngu um miðbæinn í Køge og skoða gömlu skökku húsin sem gefa verslununum einstakt yfirbragð.

Dhaba – Køge
Og þegar maður er búinn að ganga um miðbæinn liggur beint við að fá sér eitthvað gott að borða. Möguleikarnir eru margir en ég ætla að mæla með Dhaba, indverskum stað sem geymir einhver ótrúleg leyndarmál í pottunum!

- Auglýsing -
Stevns Klint er á heimsminjaskrá UNESCO. Kletturinn er samansettur úr kalksteinslögum sem hafa mikla þýðingu fyrir jarðvísindasöguna en í honum sjást meðal annars jarðlög frá því að risaeðlurnar lifðu og dóu út.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -