Föstudagur 14. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Myndlistin oft ærið harður húsbóndi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Ólafsdóttir Björnsson er fjölhæf kona, hún er menntuð myndlistarkona, einnig sagnfræðingur og tölvunarfræðingur. Hún hefur m.a. starfað við blaðamennsku, í útvarpi, sem ritstjóri, verið þingkona og tölvunarfræðingur, skrifað bækur og haldið ófáar myndlistarsýningar.

 

Að auki er Anna algjör bókaormur, hún ferðast mikið, spilar golf af ástríðu og málar vatnslitamyndir af enn meiri ástríðu. Þegar hún kom í heiminn, þann fjórða júní 1952, var fæðingardeildin yfirfull, þá eins og nú, og hún fæddist í heimahúsi.

„Móðurafi minn, Árni Pjetursson sem var fæðinga- og kvensjúkdómalæknir tók á móti mér og hafði með sér ljósmóður sem hann treysti, Pálínu Guðlaugsdóttur. Ég var fyrsta blóðskylda barnabarnið hans og við urðum víst strax mjög góðir vinir, en þegar ég var rúmlega ársgömul dó hann langt um aldur fram og það var mömmu mikið áfall, svo mikið að hún var úrskurðuð látin eftir sjokkið og bróðir minn, sem hún var fullgengin með dó, en hún var vakin til lífsins. Hún eignaðist ekki fleiri börn, svo ég er einkabarn í móðurætt. Á hins vegar þrjú systkini pabbamegin sem ég er mjög ánægð með, tveimur þeim eldri kynntist ég fyrst á fullorðinsárum. Get með sanni sagt að ég sé af miðhjónabandi beggja foreldra, því þau voru bæði þrígift.“

Drop-out úr leikskóla

Myndlist hefur ætíð verið stór hluti af tilverunni hjá Önnu. „Ég var frekar ung þegar mamma fór í Handíða- og myndlistaskólann og af því ég var „drop-out“ úr leikskólanum Tjarnarborg, þreifst ekki í hávaðanum þar, hafði hún mig bara með sér í skólann, enda var ég hræðilega þæg, þá. Þess vegna eru til allmargar myndir af mér í smekkbuxunum mínum eftir góða myndlistarmenn, uppáhaldið mitt er stór grafíkmynd eftir Braga Ásgeirsson. Heima var til urmull af listaverkabókum sem ég lá í. Við vorum oft blönk, en aldrei svo blönk að ekki dúkkaði upp ný listaverkabók eða málverk á heimilinu. Þetta hélt áfram eftir að meiri stöðugleiki komst á fjármálin, þótt Ólafur fóstri minn hefði aldrei haft áhuga á myndlist, var hann mjög skilningsríkur við okkur mömmu.“

„Við vorum oft blönk, en aldrei svo blönk að ekki dúkkaði upp ný listaverkabók eða málverk á heimilinu.“

Dýróð í sjávarútvegsnefnd

- Auglýsing -

Undir lok lausamennskutímans í blaðamennsku hafði Anna sogast hressilega inn í kvennabaráttuna. „Það gerðist af sjálfu sér, ég var alin upp við mikla kvennabaráttu, meira að segja móðurafi minn sagðist hafa orðið „kvenréttindakona“ þegar hann, 12 ára strákur, var látinn fá helmingi hærra kaup í fiskburði en fílefldar kerlingar sem hann vann með. Mamma var í Rauðsokkunum þar til þær fóru of langt til vinstri, þá datt ég inn en fann mig best þegar við í sagnfræðinni fórum að berjast fyrir því að fá kvennasögu kennda í háskólanum. Það tókst, og þegar Kvennalistinn var stofnaður leið ekki á löngu þar til ég var orðin mjög virk þar. Ætlaði reyndar aldrei á þing, ekki einu sinni á lista, en eftir smábaráttu í hreppsnefnd Bessastaðahrepps 1986-1989, þar sem við í minnihluta með fulltingi sveitarstjóra fengum bæði fyrsta leikskólann byggðan og styrk til Kvennaathvarfs samþykktan, skipti ég um skoðun.“

Ýtarlegt forsíðuviðtal við þessa skemmtilegu konu er að finna í nýjustu Vikunni.

Texti / Guðríður Haraldsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Hildur Emilsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -