Fimmtudagur 18. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Of mikið af hinu góða?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kynlíf er eðlilegur, heilbrigður og skemmtilegur hluti af lífi hinna fullorðnu. Og það að laðast kynferðislega að maka sínum og ná vel saman með honum í rúminu skiptir auðvitað máli í sambandi. En þarfir fólks geta verið misjafnar og það sem einum finnst nóg finnst kannski öðrum of lítið. Er hægt að stunda of mikið kynlíf? Er eitthvað sem telst eðlilegur fjöldi þegar kemur að skiptunum sem það er gert?

„Hversu oft er of oft?“ spurði vinkona mín þar sem við biðum eftir matnum okkar á veitingastað fyrir stuttu. Nú er hún búin að vera í sambandi í rúm tvö ár eftir að hafa verið einhleyp í langan tíma og finnst kærastinn í aðeins of miklu stuði. Fyrir kynlíf.

„Hann vill stunda kynlíf á hverju kvöldi. Hverju einasta kvöldi,“ sagði hún með þungri áherslu. „Er það bara eðlilegt? Eftir rúmlega tveggja ára samband? Ég meina, þetta var auðvitað æðislegt til að byrja með en núna væri ég stundum, ókei, reyndar oft, til í að fara bara að sofa án þess að þú veist … Gera það …“ Hún hallaði sér svo fram á borðið þar sem hún hvíslaði: „Og hann vill alltaf að ég sé að strjúka honum og gæla við hann … Þú veist … Þarna niðri. Jafnvel bara þegar við erum að horfa á fréttirnar.“

„Hann vill stunda kynlíf á hverju kvöldi. Hverju einasta kvöldi.“

Leiksigur í rúminu

Nú veit ég að vinkona mín hefur ekki verið svona hamingjusöm eins og hún er núna í langan, langan tíma. Ég sá það hins vegar á henni og heyrði að þetta endalausa kynlífsbrölt kærastans væri að trufla hana.

„Geturðu ekki einfaldlega sagt að þú sért ekki í stuði? Og að þig langi til að horfa á fréttirnar í rólegheitum?“ spurði ég.

„Nei, ég legg ekki í þann slag,“ svaraði vinkona mín. „Ég er búin að reyna að ræða þetta við hann, að ég sé ekki til í svona mikið kynlíf, en hann varð bara dálítið fúll og hélt að ég væri búin að missa allan áhuga á sér. Þetta varð eiginlega stórmál og lá næstum við sambandsslitum. Hann kastaði því meira að segja fram hvort við ættum þá ekki bara að slíta þessu fyrst ég hefði engan áhuga á sér. En málið snýst náttúrlega ekkert um það. Mér þætti bara fínt að gera þetta svona einu sinni til tvisvar í viku. Ekki á hverju einasta kvöldi. Og stundum á daginn líka reyndar.“ Hún leit á mig og þagnaði um stund áður en hún dæsti og sagði: „Þetta er bara of mikið af hinu góða. Skilurðu mig?“

- Auglýsing -

Vinkona mín sagði svo að hún þættist oft sofa þegar kærastinn kæmi inn í rúm á eftir sér, í þeirri veiku von að hún fengi að sofa í friði frekar en að lenda í rökræðum og koma leiðindum af stað. Ég fullvissaði hana nú reyndar um að hún væri svo sannarlega ekki sú eina sem hefði gerst sek um það. Í hinum ýmsu saumaklúbbum og vinkvennahópum hefur sú umræða margoft komið upp hvernig hefur reynt á leiklistarhæfileikana þegar þær hafa þóst sofa. Ég hef sjálf sýnt leiksigur í þessum efnum; með tilheyrandi þykjustuhrotum og allt.

Má bjóða þér múffu?

Ég verð að viðurkenna að ég gat ekki svarað því hversu oft í viku gæti talist eðlilegt að stunda kynlíf í sambandi en ég sagði vinkonu minni þó hvað mér þætti um viðhorf kærastans. En það er nú efni í annan pistil. Svo stakk ég reyndar líka upp á því að hún gæfi honum svokallaða múffu sem hægt er að kaupa í verslunum sem selja hjálpartæki ástarlífsins. En mér fannst þetta hins vegar áhugaverð pæling: Hversu oft er of oft?

- Auglýsing -

Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á því hversu oft pör eða hjón stunda saman kynlíf. Niðurstöður rannsóknar sem gerð var á tíunda áratugnum sýndu fram á að 40% hjónanna sem tóku þátt í rannsókninni stunduðu kynlíf tvisvar til þrisvar í viku. Skiptunum fækkaði eftir því sem aldur hjónanna hækkaði og lengra var liðið á hjónabandið.

Niðurstöður annarrar rannsóknar, sem gerð var árið 2015, sýndu fram á að hjón voru ánægðari eftir því sem þau stunduðu kynlíf oftar en þó sögðust flestir þátttakenda ekki vilja stunda það oftar en einu sinni í viku. Sem mér finnst dálítið merkilegt og ef til vill gefa vísbendingu um að þátttakendum hafi fundist eitt skipti í viku nóg til að halda hjónabandinu góðu.

Sálfræðingurinn Dr. Barry McCarthy, sem hefur meðal annars skrifað um kynlíf í parasamböndum, segir að það sé heilbrigt að stunda kynlíf með maka sínum einu sinni til tvisvar í viku. Hann segir það eðlilegt að fólk stundi kynlíf oftar þegar það er að kynnast og getur ekki hætt að hugsa um hinn aðilann. Og kynlífið aukist jafnvel fyrst eftir að fólk byrji að búa saman en það sé þó bara tímabundið ástand. Það sé eðlilegt að kynlífið minnki eftir því sem lengra líði á sambandið.

Kynlíf – ekki kvöð

Auðvitað er kynhvötin misjöfn hjá mannfólkinu eins og svo margt annað. Önnur vinkona mín sagði mér til dæmis að hún hefði verið í sambandi með manni sem hún taldi að hefði örugglega verið kynlífsfíkill. Og sér hefði þótt það geggjað. Hann var reyndar líka mjög uppátækjasamur í kynlífinu sem henni fannst sérlega skemmtilegt. En hver veit; sambandið stóð ekki nema í nokkra mánuði og henni fannst þetta gaman á meðan á því stóð. Kannski hefði hún orðið þreytt á öllu þessu kynlífi til lengdar, kannski ekki.

En kynlíf ætti í það minnsta ekki að vera kvöð. Fólk ætti að stunda það af því að það langar, ekki af því að því finnst það neyðast til þess. Sálmeðferðarfræðingurinn Ian Kerner segir að það að stunda kynlíf af miklum móð þurfi ekki að þýða að það sé of mikið af hinu góða, svo lengi sem báðir aðilar njóti þess. Sé það hins vegar svo að annar aðilinn fái meira út úr kynlífinu geti kynlífið breyst í kvöð fyrir hinn.

Það má segja nei

Mýfluga á það til að verða að úlfalda og þess vegna er það með kynlífið eins og flest annað í samböndum; það þarf að ræða. Komast að því hvað hinn aðilinn vill. Hvað hann vill ekki. Og taka tillit. Ekki neyða hann til að gera það sem hann ekki langar. Allir hafa rétt á að segja nei. Líka maki manns. Og það er engin ástæða til að taka því persónulega þótt maki manns segi af og til „nei, ég vil gjarnan fara bara að sofa.“

Kynlíf getur svo sannarlega verið skemmtilegt; það getur bætt og kætt og látið manni líða vel. En ef það gerir ekkert fyrir mann og lætur manni ekki líða vel þá er ólíklegt að áhrif þess séu jákvæð. Þá er betra að sleppa því. Og það er gott að hafa í huga að þegar kemur að kynlífi skipta gæðin en ekki magnið máli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -