Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Ógeðslegi karlinn á efri hæðinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég var erfiður unglingur. Milli okkar mömmu ríkti stríð sem lauk með því að hún rak mig að heiman. Fyrst á eftir reyndi ég að búa hjá pabba en fór fljótlega að leigja. Leigusalinn bjó á efri hæðinni og fljótlega komst ég að því að hann ætlaðist til að fá ýmislegt fleira en peninga fyrir íbúðina.

Mamma og pabbi skildu þegar ég var tólf ára og ég kenndi henni alfarið um sambandsslitin, enda hafði hún haldið framhjá. Í kjölfarið fluttum við milli hverfa og ég byrjaði í nýjum skóla og var lögð í einelti. Allt þetta var að mínu mati sök mömmu og ég kom eins illa fram við hana og ég gat. Stjúppabba minn hataði ég og sýndi honum algjört tillitsleysi. Iðulega talaði ég ekki við hann dögum og jafnvel vikum saman og ef hann bað mig um eitthvað þverneitaði ég að gera það.

Mamma reyndi að fá mig með sér til sálfræðings til að tala um skilnaðinn og vinna úr þessum tilfinningum en ég vildi engan þátt taka í því. Sat bara þögul og fýld á stól þegar þær töluðu saman og sagði að mamma hefði hagað sér ömurlega, karlinn stjúpfaðir minn væri viðbjóður og ég hefði ekki meira um það að segja. Auðvitað fékk mamma ýmis ráð um hvernig best væri að koma fram við mig og reyna að stjórna ástandinu. Stundum tókst henni að fara eftir því en þess á milli reiddist hún og öskraði á mig.

Ofbeldi og öskur

Nokkrum sinnum gekk það svo langt að hún lagði á mig hendur. Í eitt skipti sló hún mig utanundir eftir að ég hafði kallað hana hóru og sagt að hún væri tilbúin að leggjast með hverjum sem væri fyrst hún hefði valið stjúpföður minn. Öðru sinni fleygði hún mér inn í herbergið mitt og lokaði mig þar inni. Ég skall utan í hurðarstafinn í atganginum og fékk kúlu á ennið. Þetta voru alvarlegustu tilvikin en nokkrum sinnum tók hún fast í handllegginn á mér og ýtti mér út úr herberginu þar sem við vorum að rífast. Þá hafði hún fengið alveg nóg og lokaði sig af til að losna við mig. Ég stóð þá fyrir utan lokaðar dyrnar og gargaði á hana alls konar svívirðingar.

„á þessari stundu leið mér hræðilega. Mér fannst mamma mín hafa endanlega hafnað mér og sárindi voru djúpstæð og mikil.“

- Auglýsing -

Nýlega sagði mamma mér að hún hefði alltaf haldið í vonina um að þetta lagaðist og vegna þess að hún vildi ekki tala illa um pabba minn við mig vildi hún ekki tala um hvað hefði valdið því að hún tók saman við stjúpa minn. Systur mínar, yngri og eldri, tóku þessu mun betur og börn stjúpa míns líka. Þau bjuggu hjá mömmu sinni en komu af og til í heimsókn. Bæði voru orðin það gömul að þau kærðu sig ekki um að dvelja hjá mömmu og pabba sínum. Ég gafst hins vegar ekki upp á reiðinni og veit ekki hvort það hefði einhverju breytt ef mamma hefði reynt að útskýra þetta betur fyrir mér. Eftir þrjú ár gafst mamma hins vegar upp.

Þá hafði varla liðið dagur án þess að eitthvert uppþot yrði á heimilinu út af einhverju tengdu mér. Þess á milli gekk ég um fýld og þunglynd og vildi ekki taka þátt í neinu. Hún hringdi í pabba og sagði að hann yrði að taka við mér. Svo pakkaði hún niður fötunum mínum og einhverju dóti og rak mig út í bíl til hans. Nú hefði ég kannski átt að vera himinlifandi fegin að svona fór því allan þennan tíma hafði ég staðið á orginu að ég vildi ekki búa þarna, vildi ekki vera hjá þeim, þau væru ógeðsleg og þar frameftir götunum en á þessari stundu leið mér hræðilega. Mér fannst mamma mín hafa endanlega hafnað mér og sárindi voru djúpstæð og mikil.

Pabbi ekki fullkominn

- Auglýsing -

Ég fór heim með pabba sem hafði flutt í litla íbúð í gamla hverfinu okkar og byrjaði aftur í gamla skólanum mínum. Þaðan lauk ég grunnskólaprófi og það var í sjálfu sér gott því ég gekk aftur inn í gamla bekkinn minn og vinahópinn þar. Mér leið vel innan um þau en sá fljótt að pabbi, sem ég hafði sett á stall, var ekki sá fullkomni og dásamlegi maður sem ég hélt. Hann var gersamlega óábyrgur í fjármálum. Í byrjun mánaðarins voru til peningar og þá var haldin veisla í nokkra daga. Pantaðar pizzur, keyptur matur af matsölustöðum og komið með heim, farið í bíó og keypt alls konar dót. Allir peningar voru svo búnir upp úr miðjum mánuði og þá lifðum við á hafragrjónum eða öðru sem leyndist í skápunum.

Nokkrum sinnum reyndi ég að tala um þetta við pabba en hann vildi ekki hlusta, sagði bara að ég gæti farið til mömmu ef mér líkaði ekki vistin hjá honum. Það gat ég ekki hugsað mér, fannst það rosalega niðurlæging að skríða til hennar með skottið á milli lappanna. Margt lagaðist svo þegar mér tókst að fá vinnu í búð í hverfinu á laugardögum. Ég vann svo í unglingavinnunni sumarið áður en ég fór í menntaskóla og þá sá ég um fyrir mitt litla kaup að alltaf væri til matur.

 „Karlinn hafði kveikt á kertum og hellt rauðvíni í glös. Á borðinu voru ostar og nú átti greinilega að hafa það kósí.“

Pabbi drakk líka talsvert og þótt ég hefði viljað kenna skilnaðinum um vissi ég innst inni að helgarfylleríin voru ekkert nýtt mynstur. Mamma hafði bara leynt þeim eins mikið og hún gat og við urðum þess vegna ekki eins mikið varar við þau og ég varð þarna.

Misskilið stolt

Auðvitað sleit mamma ekki sambandi við mig þótt ég væri farin af heimilinu og hún bauð mér oft að koma til þeirra um helgar eða í skólafríum. Ég neitaði alltaf að koma. Mér fannst að fyrst hún hefði rekið mig að heiman skyldi ég sannarlega sýna henni að ég gæti staðið á eigin fótum og þyrfti ekki á henni eða karlinum hennar að halda. En eftir tæplega tveggja ára vist hjá pabba gafst ég upp á honum. Ég fann litla íbúð í kjallara nágrenni við menntaskólann minn og tók hana á leigu. Ég vann í líkamsræktarstöð á kvöldin og um helgar og gat þannig séð fyrir mér sjálf. Leigan var líka óvenjulega lág og mér fannst ég hafa himin höndum tekið að hafa fengið hana. Karlinn sem átti hana bjó á efri hæðinni og virkaði ósköp vingjarnlegur.

Ég var ekki búin að búa þarna lengi þegar karlinn kom niður að kvöldi til. Hann bauð mér upp til sín að horfa á sjónvarpið. Ég var alveg grunlaus og vildi koma vel fyrir svo ég sagði bara já og fór upp með honum. Þegar þangað kom rak mig í rogastans. Karlinn hafði kveikt á kertum og hellt rauðvíni í glös. Á borðinu voru ostar og nú átti greinilega að hafa það kósí. Hann bauð mér að setjast í sófann en ég settist í stól. Hvað eftir annað klappaði hann á sætið við hliðina á sér og bað mig að færa mig til hans en ég neitaði alltaf. Drakk nokkra sopa af víni, þakkaði svo fyrir mig og fór niður.

Næstu daga sat hann um mig þegar ég var að koma inn, þvottahúsgangurinn og aðgangurinn að íbúðinni minni voru sameiginleg og þar stóð hann. Vildi fá að heilsa mér með kossi og þrýsti sér að mér. Ég reyndi fyrst að vera kurteis og ýta honum frá mér en þegar það dugði ekki varð ég ákveðnari og harðari. Þá varð hann reiður og fullyrti að ég hefði átt að vita til hvers væri ætlast því leigan var svo lág. Ég tilkynnti þá að ég væri farin. Sama kvöld pakkaði ég saman og flutti heim til ömmu. Hún gat hins vegar ekki haft mig nema tímabundið svo ég neyddist til að hringja í mömmu og spyrja hvort ég mætti koma aftur heim til þeirra. Mamma sagði að ég væri velkomin svo lengi sem við gætum sæst og komið okkur saman.

Þetta varð til þess að við töluðum vel og rækilega saman. Mamma sagði mér að samband hennar og pabba hefði verið orðið mjög slæmt. Hann hélt framhjá henni á fylleríum og í raun voru þau búin að ákveða að skilja þegar hún kynntist stjúpa mínum. Hann gaf henni hins vegar hugrekki til að taka stökkið og fara. Nú þegar ég hafði kynnst skuggahliðum pabba af eigin raun var ég líka tilbúnari til að sjá kosti mannsins sem mamma hafði valið og hann reyndist ekki slæmur þegar upp var staðið. Í dag eru hann og mamma mínir bestu vinir og frábær amma og afi barnsins míns.

Lífreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -