Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Saga sundfatnaðarins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir tæpum hundrað árum voru konur sektaðar og jafnvel handteknar ef þær voru ósiðsamlega klæddar á ströndunum. En mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, úrval sundfatnaðar er gífurlegt en hér verður farið yfir sögu baðfatnaðar og bikinísins.

 

1900-1910

Hin ástralska Annette Kellerman var sundballerína sem stökk ofan í glerbúr með miklum tilburðum. Þegar hún kom til Bandaríkjanna árið 1907 var hún handtekin fyrir ósiðlegt athæfi því hún var með bera upphandleggi, háls og fætur. Hún ákvað þá að breyta sundfötunum þannig að þau hyldu allt en væru samt enn aðsniðin eins og þau voru í byrjun. Það voru ekki allar konur tilbúnar til þess að ganga í slíkum fatnaði sem sýndi allt of mikið að mati margra. Hélst því hinn týpíski þungi sundfatnaður, sem líktist helst venjubundnum fatnaði þeirra, áfram í tísku.

1910-1919

Það leið þó ekki á löngu áður en þessar ströngu siðferðisreglur varðandi sundfatnað breyttust og á öðrum áratug síðustu aldar voru sundbolir erma- og kragalausir og buxurnar náðu að hnjám. Hins vegar var fatnaðurinn enn svolítið víður, það þótti ekki við hæfi að sýna vaxtarlag líkt og þröngi sundbolurinn hennar Annette gerði. Árið 1916 setti fyrirtækið Jantzen léttari sundföt á markað sem auðveldaði hreyfingar kvenna í vatni.

Síðan þessi mynd var tekin hefur mikið vatn runnið til sjávar.

1920-1929

- Auglýsing -

Það var ekki fyrr en um árið 1920 sem hin nýja útgáfa sundbolsins fór að verða vinsæl. Til að byrja með voru það mestmegnis flapper-stúlkurnar sem þorðu að vera í þeim. Reglulega voru konur stoppaðar á ströndinni svo hægt væri að mæla hvort sundfötin þeirra væru nógu síð. Konur gátu átt það á hættu að verða sektaðar eða jafnvel handteknar ef þau voru of stutt. Hnésíð sundföt, eða hálfgerðar sokkabuxur, héldu áfram vinsældum sínum, líkt og fyrri áratugi, sem og svokallaðir sundskór.

1930-1939

Á fjórða áratugnum fóru sundföt að líkjast því sem þekkist í dag. Ullar- og bómullarefnin viku fyrir spandex-efnum. Meira og meira fór að sjást í bakið. Í byrjun áratugarins fóru konur að ganga í sundfötum sem voru í tveimur pörtum; brjóstahaldaratoppur og stuttbuxur. Um miðjan áratuginn fóru tískublöð í Bandaríkjunum að birta myndir af konum í slíkum strandfatnaði og einnig í kvikmyndum. Það er sennilega tískuhönnuðinum vinsæla Coco Chanel að þakka að sólbrúnka er vinsæl. Fyrr á öldum höfðu föl andlit sýnt fram á auðæfi fólks þar sem þau þurftu ekki að vinna úti. Á fjórða áratugnum sýndi sólbrúnka auðæfi því fólk hafði möguleika á ferðalögum og tíma til að liggja í sólböðum.

- Auglýsing -
Það var heldur ekki fyrr en við lok fjórða áratugarins sem karlmenn máttu vera berir að ofan á ströndum Bandaríkjanna. Var bannið vegna þess að fólk vildi ekki hafa „górillur“ á ströndunum.

1940-1949

Árið 1946 sýndi franski fatahönnuðurinn Jacques Heim nýja útgáfu af sundfötum sem hann kallaði „atome“ eða atómið. Hann sagði þau vera minnstu sundföt heimsins. Aðeins þremur vikum síðar kom keppinautur hans, Louis Réard, fram með bikiníið sem hann sagði enn minna en minnstu sundföt heims. Ekki nóg með að naflinn hafi sést (sem hann hafði ekki gert áður), eins og í sundfötum Heims, heldur notaði hann aðeins 76 cm af efni í settið. Réard sagði í einu viðtali að bikiní væri ekki alvörubikiní nema þú gætir dregið það í gegnum giftingarhring.

Ursula Andress vakti mikla athygli í þessu bikiníi sem hún klæddist í Bond-myndinni Dr. No.

 

1950-1959

Það voru ekki allir á eitt sáttir um bikiníið og hversu mikið hold það sýndi. Árið 1951 bönnuðu aðstandendur keppninnar Ungfrú heimur að stúlkurnar gengu í því. Á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 1953 olli hin djarfa Brigitte Bardot miklum usla þegar hún fór á ströndina í litlu bikiníi.

1960-1969

Á sjöunda áratugnum varð bikiníið vinsæll sund- og stranfatnaður. Árið 1962 steig hin svissneska Ursula Andress upp úr sjónum í bikiníi í myndinni Dr. No með Sean Connery. Hefur Ursula oft verið talin ein áhrifamesta Bond-stúlkan. Playboy setti mynd af konu í bikiníi á forsíðu blaðsins sama ár. Leikkonan Annette Funicello lék á móti Frankie Avalon í myndinni Beach Party árið 1964 þar sem hún sést í ljósbleiku bikiníi sem Bandaríkjamenn fengu ekki nóg af. Neðri hlutinn hafði stækkað eilítið frá hinni upprunalegu hönnun og var orðinn meira „60s“. Sama ár hannaði Rudi Gernrich „monokiní“ sem var í raun bara neðri partur. Sundfatnaðurinn vakti mikla hneykslan fólks. Árið 1966 sást Raquel Welch í loðbikiníi í myndinni One Million Years BC. Plakatið fyrir myndina, þar sem Raquel stendur í sjúskuðu bíkiníinu, er margfalt frægara en kvikmyndin sjálf.

1970-1979

Bikiníin fóru að minnka á ný á áttunda áratugnum en urðu ekki eins lítil og á níunda áratugnum. Toppar sem voru bundnir aftan við hálsinn urðu mjög vinsælir.

1980-1989

Búningur Carrie Fisher í Star Wars Epsidoe VI: Return of the Jedi færði bikiníið frá ströndinni og gerði það að fatnaði. Málm-bikiníið hennar hefur orðið vinsæll hrekkjavökubúningur. Árið 1988 lokaði fyrirtækið Réards en vinsældir bikinísins urðu sennilega meiri en hann hafði nokkurn tíma geta gert sér í hugarlund. Um 20% af öllum seldum sundfatnaði í Bandaríkjunum þetta ár voru bikiní. Þau voru einnig minni en nokkru sinni fyrr, g-strengir urðu vinsælir. Sundbolir urðu hins vegar afskaplega vinsælir á ný.

Búningur Carrie Fisher í Star Wars Epsidoe VI: Return of the Jedi vakti mikla athygli á sínum tíma.

1990-1999

Bikiní tíunda áratugarins varð enn minna en áratugarins á undan. Ekki var óalgengt að topparnir væru svo litlir að þeir hyldu ekki brjóstin og með auknum vinsældum brasilísks vax, þar sem öll hár eru tekin úr klofinu, urðu neðri hlutar bikinísins enn minni. Sumir veltu fyrir sér af hverju konur væru yfir höfuð að klæðast sundfatnaði þegar hann var svo lítill til að byrja með.

2000 til dagsins í dag

Það þarf mikið til að fólk pæli í í hvernig bikiníum konur eru þessa dagana en þegar Demi Moore sást í svörtu bikiníi í kvikmyndinni Charlies Angels: Full Throttle, höfðu slúðurdálkahöfundar ekki undan því að velta fyrir sér hvort þetta væri hennar náttúrulega útlit eða hvort hún hefði farið í lýtaaðgerðir. Sundföt dagsins í dag eru margskonar og er í raun allt leyfilegt. Árið 2010, til dæmis, gekk Eva Herzigova tískupall Adriönu Degreas í gamaldags bikiníi sem gæti verið notað sem alfatnaður í dag.

Árið 2012 prýddi hið nær óþekkta módel Kate Upton forsíðu blaðsins Sports Illustrated í mjög litlu bikiníi.

Texti / Helga Dís Björgúlfsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -