Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Spennandi að kljást við svona karakter

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Björgvin Franz Gíslason fer með hlutverk hinnar skelfilegu skólastýru, Karitasar Mínherfu í söngleiknum Matthildi sem sýndur er um þessar mundir í Borgarleikhúsinu. Björgvin segir ákveðið frelsi felast í að leika illmenni þó að hann forðist sjálfur að beita slíkum bellibrögðum.

Björgvin Franz útskrifaðist frá Leiklistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2001 en sama ár fór hann með titilhlutverk í söngleiknum Hedwig sem sýndur var hjá Leikfélagi Íslands. Það var í fyrsta og eina skiptið sem hann túlkaði konu á leiksviði, þangað til nú tæpum tveimur áratugum síðar. „Það var virkilega skemmtilegt að túlka Hedwig, sérstaklega svona skömmu eftir útskrift en ekki síður ánægjulegt að heyra að hlutverk Karitasar Minherfu hefði fallið í mitt skaut síðastliðið vor þegar ég frétti fyrst af því. Ég var gjörsamlega í skýjunum.“

„Að mínu mati þjónar leikhúsið þeim tilgangi að skemmta, fræða og hreyfa við áhorfendum á allan mögulegan hátt og vonandi náum við að gera það hér í þessari sýningu.“

Björgvin segir að sér hafi frá fyrstu tíð gengið óvenjuvel að tengja við lítt svo geðslegan karakter og persóna skólastýrunnar geymir. „Svona í ljósi þess að hún er illmenni hefur mér tekist furðu vel að tengjast henni. Kannski fyrst og fremst í ljósi þess að þarna undir niðri leynist eflaust ákaflega hrædd manneskja sem reynir að hafa nægilega góða stjórn á öllu því sem hún telur sig geta ráðið við með ofríki og ofbeldi. Þarna leita ég þó ekki í eigin reynsluheim enda reyni ég að forðast þessa hegðun að fremsta megni en ég leitast við að skilja hvaðan hún kemur og hvers vegna hún er svona óörugg.
Það felst líka ákveðin útrás í að leika svona illmenni, maður fær eitthvað alveg sérstakt kikk út úr því enda er svo vítt svið sem hægt er að fara í kringum geðveikina sem henni fylgir. Fyrir leikara er það afar spennandi tæki að kljást við.“

Nýt þess meira nú en áður

Rúmt ár er nú síðan Björgvin Franz hóf störf hjá Borgarleikhúsinu en fram að því hafði hann meðal annars starfað sem umsjónmaður Stundarinnar okkar um nokkurra ára skeið. Síðastliðinn vetur tók hann við hlutverki Einars í leikritinu Jólaflækju sem Bergur Þór Ingólfsson skrifaði og lék í undanfarin jól en sama ár frumsýndi hann söngleikinn Ellý sem enn er sýndur fyrir fullu húsi. Þar fer Björgvin með hlutverk Ragga Bjarna en óhætt er að segja að hann hafi staðið söngkonu samnefnds söngleiks afar nærri. „Það var algerlega magnað að fá að stíga aftur á svið eftir allan þennan tíma. Ég nýt þess miklu meira nú en áður. Eftir að hafa leikið í sýningunni um Ellý yfir tvö hundruð skipti er ég algerlega sannfærður um að þú getur ekki orðið leiður á hlutverki ef þú gefur þig allan í það og elskar það út af lífinu.“

Og nú þegar Björgvin Franz tekur þátt í annarri stórsýningu segir hann undirbúningstímann hafa verið algjörlega magnaðan.

„Þetta eru svo miklir snillingar sem maður er að vinna með að maður nýtur hvers vinnudags í botn. Ferlið í heild sinni hefur verið einstaklega skemmtilegt og gefandi. Maður hefur þurft að læra að vera dansari, söngvari, leikari og fimleikamaður allt á sama tíma sem er frábær áskorun. Ég sé lítinn mun á börnum og fullorðnum þegar kemur að verkefnum sem þessum, einfaldlega vegna þess að börnin í þessum söngleik eru einstakir atvinnumenn og bera mikla virðingu fyrir vinnuferlinu en eru á sama tíma gríðarlega jákvæð og peppuð.“

- Auglýsing -

Spurður um boðskap verksins svarar Björgvin að hann sé margslunginn þó að aðalstefið snúist um ofbeldi og óréttlæti.

„Þau sem eru minnimáttar vilja auðvitað stoppa það og í mætti samheldni, réttlætis og kærleika tekst þeim takmarkið vonandi að lokum. Ég hafði lesið aðeins í bókinni áður en æfingar hófust en líka séð myndina. Ég sá svo söngleikinn í London sem var algjörlega toppurinn. Hann var engum líkur enda á þessi saga það til að búa til mikið „sprúðl“ og gleði á leiksviðinu. Ég get eiginlega ekki lýst því sem faðir, hversu mjög ég gleðst yfir því að verk sem þetta rati á fjalir okkar íslenska leikhúss enda kemur þetta verk við svo margt sem við sem samfélag erum að fást við, hvort sem það snýr að sjónvarpsdýrkun, útlitsdýrkun, ofbeldi eða ofríki gagnvart börnum og þeim sem minna mega sín. Að mínu mati þjónar leikhúsið þeim tilgangi að skemmta, fræða og hreyfa við áhorfendum á allan mögulegan hátt og vonandi náum við að gera það hér í þessari sýningu.“

Mynd / Hákon Davíð

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -