Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Stundum er gott að sitja í sandinum og íhuga

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristín Þorsteinsdóttir segir auðvelt að ferðast frá Singapúr um alla Asíu.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr og er „stækkunarstjóri“ (e. Development Director) hjá alþjóðlegri hótelkeðju. Hún segir að helstu kostir staðarins séu gott skipulag, engir glæpir og þarna búi allra þjóða kvikindi í sátt og samlyndi sama hverrar þjóðar og trúar þeir eru. Aðalkosturinn sé þó hversu auðvelt sé að ferðast þaðan hingað og þangað um Asíu.

Vestur-Ástralía
Af öllum stöðum sem ég hef ferðast til síðan ég kom til Asíu held ég að þetta svæði sé í uppáhaldi. Borgin Perth í Ástralíu er ekki í nema rúmlega fjögurra tíma flugfjarlægð frá Singapúr. Þaðan er hægt að keyra með fram ströndinni að smábænum Margaret River sem er frægur fyrir víngerð og góðan mat. Svo er hægt að verja heilu dögunum við strendurnar þar sem enginn er yfirleitt sjáanlegur nema kannski háhyrningar að busla í flæðarmálinu. Ég er nú lítið fyrir að liggja í sólbaði en stundum er gott að sitja bara í sandinum og íhuga, eða horfa á brimbrettastrákana.

Balí, Indónesíu
Eyjan Balí er skammt frá okkur og þangað er vinsælt að fara yfir helgi til að hvíla sig í hinni loftkældu veröld verslunarmiðstöðvanna sem eru á hverju götuhorni í Singapúr. Indónesía er fjölmennasta ríki heims þar sem múhammeðstrú er iðkuð en Balí er eini staðurinn þar sem hindúar eru í meirihluta. Það setur sterkan svip á daglegt líf á eyjunni og skapar nokkuð sérstakt andrúmsloft sem mér finnst vera helsta aðdráttarafl Balí. Því miður er nokkur mengun við margar strendur á Balí og þær því ekki fýsilegur baðstaður. Þá er ráð að halda til bæjarins Ubud sem segja má að sé hið listræna hjarta Balí þar sem hægt er að stunda jóga og sötra lífrænan engifersafa. Já eða sleppa jóganu og fá sér bara bjór, eins og ég geri yfirleitt.

Kristín Þorsteinsdóttir hefur búið ásamt sambýlismanni og dóttur í Singapúr.

Japan
Ef tækifæri gefst einhvern tíma á lífsleiðinni til að fara til Japans þá ætti helst enginn að láta það úr greipum ganga. Japan var svo gott sem einangrað frá umheiminum í tvær og hálfa öld, allt til um 1850 og það útskýrir margt í menningu og háttum Japana þar sem ýmislegt kemur spánskt fyrir sjónir. Tókýó er við fyrstu sýn brjálæðisleg stórborg þar sem er auðvelt að týnast, enda engin furða því fæstar götur þar bera nöfn. En þegar betur að er gáð er borgin undarlega hljóðlát og íbúarnir ávallt boðnir og búnir að hjálpa týndum aðkomumönnum, jafnvel þótt enskukunnáttan hrökkvi skammt. Maturinn í Japan er líka kapítuli út af fyrir sig, kjúklinga-sashimi, fiskiaugu og japanskt majónes var meðal þess sem ég smakkaði í síðustu ferð og þótti gott.

Seoul í Kóreu
Kannski er ekki hægt að segja að þetta sé falleg borg enda var hún svo gott sem jöfnuð við jörðu í seinna stríðinu. Þó er búið að endurbyggja mikið af sögulegum byggingum og gaman að ganga um þar sem búddahof og ofurnýtískulegar skrifstofubyggingar standa hlið við hlið. Í Seoul er líka Gangnam-hverfið sem Psy nokkur gerði heimsfrægt í samnefndu lagi en þaðan koma margir af helstu tískustraumum í tónlist og klæðaburði sem ungt fólk í Asíu tileinkar sér. Lýtalæknar í Seoul þykja líka ansi lúnknir og eru dæmi um að dömur fái ekki að snúa til síns heima því þær líkjast ekki lengur myndinni í vegabréfinu eftir heimsókn til eins þeirra.

Sri Lanka
Eftir að borgarastríðinu lauk á þessari eyju við Indland hefur ferðamannastraumurinn aukist jafnt og þétt og skal engan undra því þetta er falleg eyja, íbúarnir indælir og margt að sjá og skoða. Þarna fórum við í safaríferð í Yala-þjóðgarðinum þar sem fíll stal nestinu, lærðum ýmislegt um tedrykkju (Sri Lanka er einn helsti teframleiðandi í heimi) og skoðuðum Tannhofið í borginni Kandí þar sem sagt er að tönn úr sjálfum Búddah sé varðveitt. Eyjan er heilagt vé meðal þeirra sem aðhyllast búddisma.

- Auglýsing -

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -