Fimmtudagur 5. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Uppi á röngum tíma

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Ég var orðin nokkuð fullorðin þegar ég áttaði mig á því að mamma var aldrei mikið fyrir börn. Hún reyndi að rækja hlutverk sitt sem heimavinnandi húsmóðir og móðir en leið sennilega afar illa í því sem bitnaði illilega á fjölskyldunni.

Ég man eiginlega bara eftir mömmu sem pirraðri og uppstökkri. Við systurnar þrjár fæddumst á rúmum fimm árum og ég er elst. Oft hreytti mamma í mig þegar ég var komin með svolítið vit: „Ég hefði fleygt hringnum í hann pabba þinn ef ég hefði ekki orðið ólétt að þér“. Mér leið alltaf mjög illa þegar hún sagði þetta þótt ég væri fyrst of ung til að skilja það almennilega.

Þau voru bæði í framhaldsnámi þegar þau kynntust, hún nítján ára, en pabbi var nokkrum árum eldri og var í háskóla. Vinkona mömmu og skólasystir kynnti þau, mig minnir að kærastinn hennar hafi kannast við pabba, og þar sem bæði voru á lausu þótti alveg tilvalið að reyna að koma þeim saman.

Mér skilst að mamma hafi nánast verið farin að örvænta, þrátt fyrir að vera svona ung, en jafnöldrur hennar, systur, vinkonur og skólasystur, voru nánast allar gengnar út og líka systkini hennar, meira að segja yngsta systirin, sautján að verða átján ára.

Fjölskylda verður til

- Auglýsing -

Þegar ég kom í heiminn hafði mamma lokið sínu námi en pabbi átti rúmt ár eftir. Þau voru farin að búa saman í lítilli íbúð við Grettisgötu. Amma bjó þar skammt frá og hún passaði mig þegar mamma fór að vinna. Það þótti varla við hæfi á þessum tíma, skilst mér, að ung móðir og eiginkona ynni úti en mamma kærði sig kollótta. Þau pabbi þurftu peninga til heimilisins og mömmu fannst sjálfsagt að nýta menntun sína. Þótt þau hefðu viljað flytja til ömmu og spara þannig leigu, eins og tíðkaðist, var ekkert pláss þar, tvö af systkinum mömmu bjuggu þar með mökum sínum og börnum. Amma bjó í rúmgóðri íbúð og var sátt við að hafa börn sín inni á sér og sagði að allt gengi snurðulaust því allir hjálpuðust að við heimilisverkin.

Ekki löngu eftir útskrift pabba fluttum við fjölskyldan út á land þar sem hann fékk góða vinnu en mamma varð heimavinnandi. Hún var myndarleg húsmóðir, hélt öllu hreinu, bakaði reglulega og eldaði tvær heitar máltíðir á dag en pabbi kom alltaf heim í hádeginu til að borða. Fljótlega varð mamma ólétt aftur og allt var í sómanum, um tíma.

Mamma átti ekkert bakland þarna, húsmóðir á landsbyggðinni með mann og barn og þekkti engan. Bærinn var reyndar frekar í stærri kantinum en mér skilst að mamma hafi haldið sér til hlés og ekki viljað hleypa að sér „vinkonum“ af ótta við að fá inn á sig leiðinlegar „slúðurkerlingar“ sem erfitt yrði að losna við. Þannig kerlingar þoldi hún aldrei.

- Auglýsing -

Ég var orðin þriggja ára þegar systir mín fæddist. Þegar hún var ársgömul veiktist hún og þurfti að liggja á sjúkrahúsi um tíma. Þá var mamma komin nokkra mánuði á leið að yngsta barninu sem átti að verða strákur, hún og pabbi voru meira að segja búin að ákveða nafnið á hann …

Á þessum tíma máttu foreldrar aðeins heimsækja börn sín á spítala á vissum tímum og ekkert þess á milli. Það fór ekki vel í mömmu sem að auki leið illa á meðgöngunni. Hún hreytti ónotum í pabba og var í litlu jafnvægi. Það mátti ekkert koma upp á þá hringdi hún í pabba í vinnuna. Hann kom allaf heim og reyndi að hressa mömmu við sem þá var kannski hágrátandi yfir köku sem hafði fallið.

Sífellt pirruð

Pirringurinn út í hlutskipti sitt og lífið almennt jókst jafnt og þétt. Ég man meira að segja eftir því að hún gargaði brjáluð á pabba þegar hún áttaði sig á því að hún væri orðin ólétt í þriðja sinn og það nánast strax á eftir öðru barninu. Hún var nánast óð af reiði út í hann og bara lífið almennt.

Þriðja og yngsta dóttirin var rólegt og gott barn sem hefur sennilega bjargað geðheilsu mömmu.

Mamma fann upp á ýmsu skrítnu til að svekkja pabba, sem að hennar mati var orðinn uppspretta alls ills í lífi hennar. Eitt sinn, rétt áður en hann kom heim í hádegismat, lét hún okkur systurnar, þær yngri voru þá í kringum þriggja og fjögurra ára, standa hlið við hlið og tilkynna honum þegar hann kom inn að við værum svangar. Við vorum ekki fátæk og ég var aldrei svöng, bara skrítið uppátæki. Ég man ekki hvernig pabbi tók þessu, hann var einstaklega þolinmóður en fannst eflaust oft nóg um alla þessa dramatík. Hann gerði allt sem hann gat fyrir mömmu nema hann neitaði að leggja á okkur hendur. Hún reyndi stundum að hóta okkur systrum að hún ætlaði að láta pabba flengja okkur ef við yrðum ekki þægar. Hún var alveg einfær um það sjálf og þurfti ekki að bæta við svona hótun.

Lífið getur ekki hafa verið skemmtilegt hjá foreldrum mínum. Sífellt nagg og rifrildi, pabbi reifst alveg við mömmu en kaus að gera það eftir að við vorum sofnaðar. Þau voru hreint ekki hamingjusöm.

„Það mátti ekkert koma upp á þá hringdi hún í pabba í vinnuna. Hann kom alltaf heim og reyndi að hressa mömmu við sem þá var kannski hágrátandi yfir köku sem hafði fallið.“

Mikil breyting

Ég var orðin ellefu ára þegar þau loksins skildu. Við kviðum því að verða eftir hjá mömmu en annað var ekki í boði. Pabbi flutti til Reykjavíkur og um það bil ári seinna fór hann að búa með annarri konu. Mamma byrjaði að vinna og það virtist eiga mjög vel við hana. Hún var mun oftar í góðu skapi og sýndi af sér nýjar og betri hliðar.

Vissulega vorum við systur orðnar eldri og meðfærilegri á þessum tíma og gátum gert gagn. Við vorum líka kúgaðar og hálfhræddar við mömmu og skapsmuni hennar. En á meðan við héldum heimilinu sæmilega fínu og elduðum stundum mat, gátum við yfirleitt treyst á að mamma yrði í góðu skapi. Hún gat rokið upp í reiði yfir smámunum og var þá oft laus höndin en við fundum að henni var farið að líða betur.

Við systur fluttum allar snemma að heiman. Ég var sextán ára þegar ég flutti til Reykjavíkur, leigði mér herbergi og fór í menntaskóla. Pabbi aðstoðaði mig örlítið fjárhagslega allra fyrst en hann var nýfarinn að drekka á þessum tíma og drykkjan átti bara eftir að aukast með tímanum. Ég vann með skólanum svo allt gekk upp hjá mér.

Mamma og systur mínar fluttu til Reykjavíkur nokkru seinna og mamma fékk gott starf. Systur mínar bjuggu við talsvert frjálsræði og á meðan þær gengu vel um heimilið og gerðu húsverkin var samkomulagið gott.

Nokkrum árum seinna ákváðum við systurnar að leigja saman íbúð sem var ákaflega skemmtilegt. Mamma var ekki ósátt við það. Hún var í raun meira eins og vinkona okkar en móðir eftir að við eltumst og sennilega dauðfegin að losna við okkur. Hún hvatti okkur aldrei til að fara í framhaldsnám, þótt sjálf hefði hún menntað sig meira en margar konur á hennar reki, sennilega af því að það hefði jafnvel þýtt að hún sæti lengur uppi með okkur og þyrfti að hjálpa okkur fjárhagslega. Þegar hún síðan eignaðist kærasta átti hann hug hennar allan.

Við unnum alltaf með skólanum en tókum stundum hlé frá námi og fórum í fulla vinnu um tíma. Allar kláruðum við háskólapróf en það tók alveg tímann sinn. Á leiðinni þangað giftum við okkur, eignuðumst börn og ein okkar skildi.

„Mamma byrjaði að vinna og það virtist eiga mjög vel við hana. Hún var mun oftar í góðu skapi og sýndi af sér nýjar og betri hliðar.“

Áttu aldrei séns saman

Pabbi var mjög hrifinn af menntagleði okkar en hann gerði þó fátt til að styðja okkur, hann var farinn að búa með þriðju konunni og þau voru nánast alltaf drukkin. Hann dó fyrir nokkrum árum en mamma er hress og nýtur eftirlaunaáranna með krossgátublað í annarri og kaffibolla í hinni. Hún varð betri og skemmtilegri mamma með árunum, en alls ekki góð amma, enda leiðast henni börn. Hún tilkynnti okkur systrum þegar við fórum að fjölga okkur að hún væri búin með allt sem héti barnauppeldi og því passaði hún aldrei fyrir okkur. Það er í raun hennar missir því hún hefur aldrei náð nánum tengslum við þau eins og föðurafarnir og -ömmurnar.

Ljúfmennið hann pabbi átti einhvern veginn aldrei séns í lífinu, hvorki í hjónabandi með mömmu né eftir skilnaðinn við hana. Hann þótti afar efnilegur ungur maður en náði sér aldrei á strik vegna alkóhólisma.

Mamma fæddist á röngum tíma, hún fór ekki að blómstra fyrr en hún var orðin frí og frjáls og gat farið að láta til sín taka á öðrum vettvangi en heimilinu. Hún stóð sig frábærlega í starfi, var vinsæl og virt. Hún hefði aldrei átt að gifta sig og eignast börn, það var ekkert fyrir hana en þá hefðum við systur aldrei orðið til.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -