Sunnudagur 16. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Viðurinn enn að þorna á Sauðárkróki

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Norður á Sauðárkróki bíður jatoba-harðviður eftir því að þorna. Viðinn á að nota í smíði á nýju fundarborði í borgarstjórnarsal Ráðhúss Reykjavíkur vegna fjölgunar borgarfulltrúa úr 15 í 23. Vandað skal til verksins enda kostar borðið yfir 20 milljónir króna.

Síðsumars greindi Morgunblaðið frá að kostnaðaráætlun Reykjavíkurborgar fyrir smíði borðsins hljóðaði upp á 27,5 milljónir. Verkið var boðið út og bárust tvö tilboð í verkið; tilboð frá HBH byggi ehf. þótti of hátt og var því hafnað. Trésmiðjan Borg á Sauðárkróki var hitt fyrirtækið sem sendi inn tilboð, það náði ekki yfir alla þætti verksins og var því einnig hafnað. Í kjölfarið var samið við Trésmiðjuna Borg um trésmíðahluta borðsins og samsetningu þess, upp á 15,7 milljónir króna.

Verkinu átti upphaflega að ljúka í desember en nú er ljóst að verkið mun tefjast fram yfir áramót. Þetta staðfestir Ólafur I. Halldórsson, byggingafræðingur hjá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, í samtali við Mannlíf. „Það er búið að smíða stálgrindina, en borðið verður á hjólum svo auðveldara verði að færa það til og breyta forminu á salnum,“ segir hann en kostnaður við vinnu við stál- og rafmagnshluta borðsins var áætlaður á bilinu 4-6 milljónir króna. Borðið verður í tveimur hlutum, í innri og ytri skeifu þannig að rými sé fyrir alla borgarfulltrúa við borðið. „Það sem tefur verklok er að viðurinn sem pantaður var inn fyrir verkið er ekki orðin þurr. Ég geri ekki ráð fyrir að smíðunum ljúki fyrir áramót úr þessu,“ segir Ólafur og bætir við: „Það er von okkar og ósk en við erum háð þessum duttlungum með þurrkinn og ætlum að vanda okkur og í rauninni er ekkert að brenna. Núna erum við að skipta um ljós í salnum þannig að það kom sér reyndar vel að borðið er ekki komið.“

Undir þetta tekur Sigurgísli Kolbeinsson, framleiðslustjóri Trésmiðjunnar Borgar á Sauðárkróki. „Þetta er í smíðum hjá okkur en við erum aðeins í vandræðum vegna þess hvað hann þornar hægt harðviðurinn hjá okkur þannig að þetta dregst frekar en hitt. En við erum vongóð um að þetta sé að koma.“

Sigurgísli segir að harðviðurinn sem notaður er í smíðina sé sérinnfluttur jatoba-viður en tekur fram að það sé víða hægt að fá við þessarar tegund á Íslandi en lítið hafi verið til af honum þegar pantað var í verkið. „Það var erfitt að fá þennan við, þess vegna fengum við hann ekki þurrkaðan,“ segir hann og leggur áherslu á að harðvið megi alls ekki þurrka of hratt. „Það má ekki þurrka þetta of hratt því þá fer viðurinn að springa, en ég reikna með að verkinu ljúki fljótlega eftir áramót,“ segir Sigurgísli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -