Miðvikudagur 17. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Af hverju blótum við þorra?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dæmi um gamla hefð í samfélaginu er að halda þorrablót jafnt í sveitum sem borgum og er ekki síður vinsælt í dag en fyrr á öldum þótt hefðirnar hafi sennilega breyst mikið með tímanum.

Áætlað er að á fyrstu öld Íslandsbyggðar hafi þorrablót verið haldin til að fagna því að veturinn væri hálfnaður og til þess að blíðka um leið þær vættir sem taldar voru ráða veðurfarinu og þá hafi matur ekki tengst þorrahefðinni. En samkvæmt fyrstu rituðu heimildum um þorrablót eins og við þekkjum þau í dag tengdust slíkir mannfagnaðir þjóðernishyggju og sjálfstæðisbaráttu.

Fram yfir miðja 19. öld voru þorrablót einungis haldin á hverju sveitaheimili fyrir sig en fyrsta blótið sem haldið var opinberlega var á Akureyri þann 23. janúar 1874. Þá voru sungin gömul og ný kvæði og drukkin minni þorra og heiðinna goða. Þá tíðkaðist ekki að bjóða upp á súrmat því hann var miklu frekar hversdagsmatur í þá daga og menn vildu gera sér glaðan dag með einhverju öðru. Hangikjöt, flatbrauð, kartöflujafningur og brauð var algengt á borðum. Eftirréttir eins og ávaxtagrautar, skyr með rjóma, niðursoðnir ávextir og ís og rjómapönnukökur eru dæmi um eftirrétti. Hefðin barst smám saman út til sveita frá kaupstöðunum en dvínaði svo aftur vegna ört vaxandi og stækkandi kaupstaða þar sem meiri áhersla var lögð á ýmsar erlendar hefðir sem þóttu fínni.

 Komust í tísku eftir miðja síðustu öld

Eftir 1950 fara þorrablótin aftur að verða algeng jafnt í sveitum sem bæjum og fóru átthagafélögin að bjóða upp á gamlan íslenskan sveitamat á þorrablótum þar á meðal súrmat sem hægt og rólega hætti að vera hversdagsmatur sveitafólksins. Því má segja að gamli sveitamaturinn sem fólk vildi halda í heiðri hafi smám saman tengst þeim sið að blóta þorra sem í upphafi tengdist ekki mat heldur veðri í upphafi Íslandsbyggðar.

Fyrsti dagur þorra er bóndadagur en hann er einnig nefndur miðsvetrardagur eða fyrsti þorradagur og miða margir blótshaldarar við þá dagsetningu. Gjarnan er boðið upp á hangikjöt, svið og sviðasultu, laufabrauð, kartöflujafning, hárkarl og harðfisk og svo er það súrmaturinn. Hann samanstendur aðallega af lundaböggum, bringukollum, blóðmör, lifrapylsu, hrútspungum, sviðasultu og sviðahausum. Súrsun er mjög gömul geymsluaðferð og má segja að hún hafi mótað mataræðið hér áður fyrr. Til að framleiða salt úr sjónum þurfti mikinn eldivið en lítið var af honum hér á landi eftir 14. öld. Þess vegna notuðu menn fjölbreytilegri matargeymsluaðferðir hér á landi heldur en tíðkaðist í kringum okkur. Maturinn var þurrkaður, reyktur, kæstur og súrsaður.

- Auglýsing -

Með því að halda þorrablót eins og við þekkjum þau í dag erum við í rauninni að halda í heiðri þessum gamla sveitamat sem hélt í okkur lífinu í gegnum aldirnar. Þorrablót eru góð mannamót og tilvalin leið til að spjalla og skemmta sér með sveitungum sínum og ekki spillir fyrir að þjóðarstolt okkar styrkist líka örlítið á slíkum mannamótum og við finnum vel fyrir upprunanum.

Við vinnslu greinarinnar var að mestu stuðst við heimildir úr bókunum Þorrablót á Íslandi eftir Árna Björnsson og Íslensk matarhefð eftir Hallgerði Gísladóttur.

Texti / Bergþóra Jónsdóttir
Myndir / Úr safni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -