Bogi Ágústsson, fréttamaður Ríkisútvarpsins, fór fram á það við Sölva Tryggvason að viðtal sem Sölvi tók við hann í apríl á þessu ári, yrði ekki birt á hlaðvarpssíðu Sölva. Sölvi tók niður síðuna í maí eftir ásakanir á hendur honum um kynferðisofbeldi gegn tveimur konum litu dagsins ljós. Nú hefur Sölvi hinsvegar sett upp hlaðvarpsíðu sína aftur á netið.
Lögmaðurinn Kristrún Elsa Harðardóttir, sendi frá sér yfirlýsingu í byrjun maí á þessu ári, þar sem hún segir að tvær konur hafi tilkynnt lögreglu, ofbeldi sem þær sögðu Sölva hafa beitt sig. Önnur þeirra kærði Sölva fyrir líkamsárás sem á að hafa átt sér stað á heimili konunnar 14. maí síðastliðinn. Lögreglan kom á vettvagn, samkvæmt yfirlýsingu lögfræðingsins og var Sölvi færður á lögreglustöð í kjölfarið og skýrsla tekin af honum. Seinni konan sakar Sölva um að hafa brotið á henni kynferðislega á heimili Sölva 22. júní árið 2020. Bæði málin eru enn til skoðunar á lögreglu.
Sjá einnig: Yfirlýsing kvennanna í heild sinni: „Sölvi rauk þá upp og hrinti mér í gólfið“
Stundin fjallaði um málið í gær.
Skömmu áður en Kristrún Elsa kom með yfirlýsinguna hafði verið í gangi umræða um meint brot Sölva, á samfélagsmiðlum. Sölvi ákvað að svara þeim orðrómi með því að biðja lögmann sinn að taka við sig viðtal. Það viðtal þótti algjör afleikur hjá Sölva en þar neitaði Sölvi, hágrátandi að hafa brotið á konunum.
Í kjölfar frétta af málinu streymdu inn frásagnir kvenna af kynferðisofbeldi sem þær hefðu verið beittar sem og sögur af áreiti, líkamlegu og andlegu ofbeldi.
Sölvi ákvað að taka alla þætti sína úr birtingu þegar málin komust í hámæli en hefur nú opnað nýja hlaðvarpssíðu þar sem hægt er að hlusta og horfa á þættina. Hefur hann einnig tilkynnt að hann muni birta þrjá til fjóra þætti á mánuði. Í frétt Vísis sem birtist í fyrradag, var sagt frá því að meðal væntanlegra viðmælenda Sölva væru Krummi í Mínus, Hermann Hreiðarsson, Hannes Hólmsteinn Gissurason og Bogi Ágústsson. Fregnir af viðtali Boga fór ekki vel ofan í samfélagsmiðlana en var Bogi gagnrýndur harðlega í kjölfar fréttarinnar.
En það sem samfélagsmiðlafólk veit ekki er að viðtalið við Boga var tekið upp í apríl síðastliðnum, áður en ásakanir á hendur Sölva komust í hámæli.
Í samtali við Stundina sagðist Bogi halda að samkomulag væri í gildi milli hans og Sölva, að birta ekki viðtalið.
„Það er rétt, hann tók við mig viðtal í apríl en við ræddum um að það yrði ekki sent út,“ segir Bogi í samtali við Stundina. „Ég veit ekki betur en það viðtal verði ekki birt. Ég óskaði eftir því og það varð að samkomulagi milli okkar Sölva að það yrði ekki birt núna.“