Þriðjudagur 27. febrúar, 2024
1.8 C
Reykjavik

Alma var látin taka gagnslaust lyf í 18 mánuði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Alma Geirdal greindist með brjóstakrabbamein aðeins 38 ára gömul. Eftir meðferð var hún krabbameinslaus í tæp tvo ár en þá greindist hún aftur og í þetta sinn er engin lækning. Alma hefur fengið uppgefinn tímann sem hún á eftir, hún er í líknandi lyfjameðferð á heimili sínu og segist kveðja sátt þegar kallið kemur. Í viðtali við Mannlíf ræðir hún baráttuna, fordómana sem hún verður fyrir í heilbrigðiskerfinu og krabbameinslyfið sem olli miklum kvölum og aukaverkunum, en gerði henni ekkert gagn.

Eftir að Alma lauk krabbameinsmeðferð meðferð í fyrsta sinn var hún sett á lyfið Tamoxifen, en lyfið á að draga um 30-50 prósent úr líkum á því að krabbamein taki sig upp aftur. Það var henni því mikið áfall að komast að því að lyf sem hún hafði tekið í eitt og hálft ár gerði ekkert gagn.

Sjá einnig: „Mig langar ekki að deyja en ég verð að gera það með reisn“

„Þegar ég greindist fyrst var ég greind með hormónanæmt krabbamein, með 4 prósent hormónanæmi og ég var sett á Tamoxifen. Læknirinn minn gaf mér þetta lyf örugglega í þeirri fullu trú að það væri rétt,“ segir Alma. „Og ég bara trúði henni, þar til ég komst að því einu og hálfu ári seinna í viðtali hjá nýja krabbameinslækninum mínum að krabbameinið hafi ekki verið hormónanæmt og lyfið hafi því ekkert gert fyrir mig, ég hefði eins getað drukkið vatn.“

„Ég var bara brjálæðislega reið og öll fjölskylda mín líka.“

Lyfið hafði miklar og alvarlegar aukaverkanir. „Það getur valdið öndunarerfiðleikum sem ég fékk nokkrum sinnum, hjartsláttartruflunum, fótaóeirð, hármissi, ófrjósemi, sem það olli í mínu tilviki því ég fór á breytingaskeiðið með alls konar erfiðum aukaverkunum.“

Hvernig leið þér að fá þessar upplýsingar eftir að hafa gengið í gegnum þessar miklu aukaverkanir? „Ég var bara brjálæðislega reið, og öll fjölskylda mín líka. Við erum búin að fá sjúkraskýrsluna mína í hendur og erum að skoða hver næstu skref verða, hvort sem ég geri eitthvað eða fjölskylda mín. Ég vil bara kanna þetta betur og rétt minn, ég þarf að gera þetta fyrir mig og aðra sem gætu jafnvel lent í sömu stöðu, en í dag veit ég ekki um aðra sem hafa lent í þessu. Við höfum ekki tilkynnt málið til Landlæknisembættisins en við munum gera það.“

- Auglýsing -

Sjá einnig: „Börnin dæla í mig jákvæðum styrk“

„Þetta er endastöðin“

Þegar Alma greindist í fyrra skiptið var hún með framtíðaráætlanir, svona eins og flestir sem eiga lífið fram undan. „Ég útskrifaðist sem ljósmyndari árið 2011, vann eitthvað aðeins við það og gaf út ljósmyndabók sem var lokaverkefni mitt í ljósmyndaskólanum hjá Sissu. Ég var nýflutt til Reykjavíkur eftir að hafa búið í Ólafsvík í þrjú ár. Ég var að vinna í edrúmennsku minni og starfaði á sambýli fyrir einhverfa sem mér fannst mjög gaman. Hafði sett mér það markmið að í september 2018 ætlaði ég aftur í þá vinnu, en það átti allt eftir að breytast.“

- Auglýsing -

Í byrjun júlí árið 2018 greindist Alma aftur með krabbamein, hún fann hnút í bringunni og þann 22. júlí fór hún í aðgerð þar sem hann var fjarlægður. „Skýringin var bara sú að æxlið hefði dreift sér, það var ekki í skurðsvæðinu frá fyrri aðgerð. Oft gerist það að skurðbrúnirnar sýkjast, en svo var ekki hjá mér, það bara kom fjögurra sentimetra hnútur,“ segir Alma sem fékk sýkingu eftir aðgerðina og fór í 15 skipta geislameðferð. „Meðferðin gekk mjög hratt og ég fékk sýkingu aftur, þetta er mjög þrálát sýking og rosalega erfitt að vinna á henni. Svo mánuði seinna fundust fleiri mein og síðan bara aftur og aftur. Það var tekin sú ákvörðun að gera ekkert meira, ég er á lyfjum heima, sem er svokölluð líknandi meðferð, ég fór ekki í geisla og ég var ekki skorin aftur og það verður ekki skorið meira. Þetta er orðið fjórða stigs mein, þetta er endastöðin.“

Lestu viðtalið í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Alma skrifar um baráttu sína í Facebook-hópnum: Alman vs. cancer. Þeir sem vilja styðja Ölmu geta lagt inn á reikning : 0130-05-064210, kennitala : 060979-3759.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -