Þriðjudagur 23. apríl, 2024
11.1 C
Reykjavik

Bogi Ágústsson fréttamaður: „Ég var svo heppinn að það varð ekkert tjón á hjartavöðvanum í mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í kvöldviðtali Mannlífs ræðir Bogi Ágústsson, fréttamaður hjá RÚV, við Reyni Traustason. Bogi rifjar meðal annars upp þegar hann var háseti á skipum Eimskipa, ræðir Samherjamálið og kynni hans af Margréti Danadrottningu.

„Mér finnst það bara hræðilegt,“ segir Bogi Ágústsson um Samherjamálið í viðtali við Reyni Traustason.

Starfsmenn RÚV krumu málið til mergjar. Farið var til Namibíu, þeir uppljóstruðu um mútur þar, það var líka farið til Færeyja og var uppljóstrað um svik þar og stórfyrirtæki, Samherji, er í spilinu. Svo byrjuðu þessar gríðarlegu árásir, sérstaklega hvað varðar Helga Seljan, fyrrverandi starfsmann RÚV.

„Það er nánast glæpsamlegt hvernig var komið fram við Helga Seljan.“

Svo kom þetta skipstjóramál upp og sagt að síminn hans hafi verið brotinn upp inni á RÚV. Hvernig er þetta mál vaxið í huga Boga?

„Það er dálítið erfitt að vita hversu langt ég get gengið í að tala um þetta mál opinberlega. Ég hætti sem fréttastjóri fyrir allnokkru þannig að ég þekki það ekki í þeim smáatriðum sem þeir sem stjórna fréttastofunni gera sem háir mér aðeins. Annað er að þetta er til rannsóknar og fyrir dómstólum þannig að ég þarf að fara mjög varlega í það sem ég segi. Ég held að fyrir yfirgnæfandi meirihluta landsmanna þá sé það alveg klárt að þarna er stórfyrirtæki staðið að því að koma fram á erlendum vettvangi á þann hátt að ef það er ekki lögbrot þá er það siðlaust. Og í staðinn fyrir að segja „hingað og ekki lengra, nú tökum við sjálf okkur í gegn“ þá er farið í það að reyna að drepa þann sem kemur með skilaboðin.“

Og það er gert á hreint ótrúlega ósvífinn hátt.

- Auglýsing -

Boðberann.

„Shoot the messenger. Og það er gert á hreint ótrúlega ósvífinn hátt og maður getur séð umtalið í þessari svokölluðu skæruleiðadeild Samherja. Það er með ólíkindum. Og það sem virðist vera er það að þetta fólk átti sig ekki á því að það sé að gera eitthvað af sér. Ásakanirnar sem hafa verið bornar á einstaka starfsmenn Ríkisútvarpsins; þarna er fólk sem er að vinna af fullkomnum heiðarleika sína vinnu.

Ríkisútvarpið hefur á undanförnum árum komið upp um fullt af hlutum í gegnum rannsóknarblaðamennsku; það sem frétta- og blaðamenn eiga að vera að gera. Við eigum að hafa ákveðið eftirlit með þessu samfélagi og við eigum að segja frá því og koma upp um það þegar forsætisráðherra á leynifélag á Tortola. Þetta er bara okkar hlutverk. Og nákvæmlega það sama gildir um Samherja. Það er alveg sama hver það er; það er okkar hlutverk að skýra frá þessum staðreyndum.“

- Auglýsing -
Bogi Ágústsson hefur um langt árabil lesið fréttir fyrir landsmenn.
Mynd: Bogi Ágústsson/Facebook

Það kallar á mikinn hita þegar ríkisfjölmiðillinn fer í rannsóknarblaðamennsku; þá kallar þetta á einhvern hita sem þið gætuð alveg sloppið við með því að halda úti svona kurteislegri Rás 1 og vera ekkert að þvælast inn á jarðsprengjusvæðin.

„Ég dáist að hugrekki og staðfestu þeirra stráka – þetta voru aðallega strákar – sem voru að vinna að þessu máli. Það er mjög erfitt þegar farið er að njósna um þig, það er farið að sitja um þig og það kemur einhver maður sem er ógnandi. Hvert er siðferði þess fólks sem ber ábyrgð á slíkri framkomu?“

Við sjáum eftir þeim öllum.

Þessir þremenningar – Stefán, Helgi og Aðalsteinn – eru allir hættir. Er það ekki svolítið sorglegt?

„Jú, það er mjög sorglegt. Við sjáum eftir þeim öllum.“

Bogi segir að allur vinnustaðurinn hafi staðið með þeim; starfsfólkið. „Og við tókum ofan af fyrir þeim fyrir hugrekki þeirra og þrautseigju. Seiglan sem var í þeim að berja sig í gegnum þetta.“

 

Fannst ekki

Bogi Ágústsson er sjómannssonur.

„Faðir minn var sjómaður; hann var stýrimaður og svo skipstjóri hjá Eimskip. Það var alveg ljóst frá upphafi að ég gat ekki farið þá leið vegna þess að á þessum tíma gastu ekki farið í Stýrimannaskólann nema þú hefðir fullkomna sjón og ég var nærsýnn alveg frá bernsku þannig að það var í rauninni alveg lokað fyrir mér.

Þegar ég var 17 til 18 ára hafði ég áhuga á að feta í fótspor afa míns sem var læknir. Þess vegna fór ég í náttúrufræðideild í MR. Ég innritaðist í læknadeildina í háskólanum og ég sat þar í heilan klukkutíma. Ég var svo lengi vegna þess að um leið og ég settist niður í fyrsta kynningartímann þá vissi ég að þetta var ekki fyrir mig. Ég var í klukkutíma vegna þess að ég kunni ekki við að standa upp og ganga út fyrr en þessi kynning á náminu var búin. Þetta var í hátíðarsal háskólans í aðalbyggingunni þannig að ég stóð upp, tók töskuna mína og labbaði út í Árnagarð og innritaði mig í íslensku og sögu. Þar átti ég milku frekar heima.“

Við lentum í því að leita að báti sem hafði farist á milli Íslands og Færeyja og fannst ekki.

Bogi var háseti hjá Eimskip öll menntaskóla- og háskólaárin. „Skelfilegar minningar er þegar ég fór að vetri til þegar ég var kominn í háskólann sem háseti á Fjallfossi og við lentum í því að leita að báti sem hafði farist á milli Íslands og Færeyja og fannst ekki.“ Það var aftakaveður. „Fjallfoss er náttúrlega stórt skip miðað við fiskiskip en það var engin leið; það var bara að slá af og sigla upp í og við komumst hvorki lönd né strönd.“

 

Það var skelfilegt

Það var á háskólaárunum sem kunningi Boga sá auglýsingu þar sem auglýst var laust starf fréttamanns í erlendum fréttum hjá Sjónvarpinu. „Honum þótti þetta vera starf sem myndi henta mér og ég sótti um og mér til mikillar furðu þá fékk ég starfið.“

Og Bogi Ágústsson hefur starfað þar í áratugi. „Það eru 45 ár síðan ég hóf störf hjá RÚV og fréttastofu Sjónvarpssins sem þá var. Ég hef verið fréttalesari í svona 42 ár.“

Hver eru verstu mistökin?

„Ég hef verið svo blessunarlega lánsamur að mér vitanlega hef ég ekki gert nein skelfileg mistök. Verstu mistökin sem ég man eftir er að þegar ég var fréttamaður í Kaupmannahöfn var ég að skrifa frétt frá Grænlandi sem ég fékk frá Danmarks Radio; ég man ekki af hverju moskusuxar voru fréttnæmir á þessum tíma og ég bara skrifaði um moskusuxa og það var ekki fyrr en ég var búinn að senda fréttina frá mér að ég fattaði að moskusuxar eru sauðnaut. Og sauðnautið í þessu tilfelli var ég.“

Hver eru erfiðustu málin sem Bogi hefur fengist við?

„Ég var ekki á vettvangi þegar snjóflóðin voru fyrir vestan en þau eru það sem hefur tekið mest á mig. Án efa.“

Þetta var svo átakanlegt og maður gleymir því aldrei.

Snjóflóðin á Súðavík og Flateyri.

Bogi talar um viðtal sem hann tók við Hafstein Númason en hann og þáverandi kona hans misstu þrjú börn í snjóflóðinu í Súðavík. „Það að tala við Hafstein Númason í sjónvarpsstúdíóinu er eitthvað sem ég gleymi aldrei. Þetta var svo átakanlegt og maður gleymir því aldrei. Versta augnablikið var held ég þegar ég þurfti að lesa upp nöfn þeirra í beinni útsendingu sem höfðu látist á Flateyri. Það var skelfilegt.“

 

Þá koma gusur

Það eru ekki alltaf allir sáttir við fréttaflutninginn og segir Bogi að þegar fólk sé í blaðamennsku þá sé það svo einfalt að það séu ekki allir ánægðir með það sem komi frá viðkomandi eða ritstjórninni.

„Og þá koma gusur og það er bara partur af lífinu. Þú verður bara að vera öruggur um það að þú hafir unnið þína vinnu eins vel og heiðarlega og þér var unnt og vita að þú hafir ekki verið að skrifa eða gera neitt í einhverjum annarlegum tilgangi. Það er svo oft sem fólk er að gera blaðamönnum upp einhvern tilgang með fréttum sínum. Fyrir mér er frétt eitthvað sem fólk á og þarf að vita. Eða vill vita. Ég hef aldrei verið að skrifa frétt í þeim tilgangi annaðhvort að koma einhverjum vel eða illa eða auðvelda einhverjum framgang. Við erum þjónar þeirra sem við erum að skrifa fyrir. Þannig að hjá Ríkisútvarpinu er það þannig að það er náttúrlega skrifað í lög: Við erum almannaþjónustuútvarp. Við erum að þjóna almenningi. Og það er bara hlutverk sem við tökum alvarlega; þó við förum ekki með bænir um þetta á hverjum fréttafundi þá er þetta inni í hausnum á öllum. Þetta er partur af grunninum sem þú gengur út frá þegar þú ert að vinna og gera fréttir.“

Við erum getum við sagt pólitískt viðrini.

Hvað mað hugtakið „bláskjár“?

„Stór hluti sjálfstæðismanna virðist vera sannfærður um það að við séum öll í Samfylkingunni ef ekki lengra til vinstri. Þegar ég var í því að ráða fólk til Ríkisútvarpsins þá voru það skilyrði hjá okkur að fólk væri ekki í virkri pólitískri þáttöku. Þegar ég byrjaði var ég hægrimaður. Ég var í Vöku í háskólanum og hafði verið í Sjálfstæðisflokknum. Ég náttúrlega gekk úr þessu öllu þegar ég byrjaði að vinna sem fréttaamður. Og ég ætlaðist til þess af þeim sem komu til okkar að þeir skildu sína pólitíska foríð að baki þegar þeir byrjuðu að vinna hjá okkur.

Við erum getum við sagt pólitískt viðrini; vegna þess að þegar þú vinnur hjá fjölmiðli þá er mjög erfitt að binda trúss þitt við einhvern pólitískan flokk vegna þess að þegar þú ert genginn í það lið þá verður þú að verja hann alveg sama hvað gerist, þú verður að úthúða andstæðinunum alveg sama hvað gerist eða hvað er verið að segja eða hver mástaðurinn er. Við erum pólitísk viðrini; við erum ekki að ganga erinda eins eða neins.“

 

Erfitt fyrst

Bogi var fréttastjóri og segir hann að það hafi eiginlega verið þannig að Páll Magnússon, þáverandi útvarpsstjóri, hafi rekið sig.

Hver slær hendinni á móti slíkum díl?

„Þegar Palli Magg tók við sem útvarpsstjóri þá skipti hann um alla framkvæmdastjórnina. En Palli Magg gerði mér alveg svakalegan greiða. Ég var búinn að vera í „administration“ í yfir 20 ár. Stundum hugsaði ég með mér hver munurinn væri á því að vera hér í „administration“ eða vera einhver deildarstjóri eða skrifstofustjóri í ráðuneyti. Þetta eru fundir, þetta eru starfsmannamál, þetta eru vaktatöflur og stórt atriði voru fjárhagsmál. Þetta tók alltaf meiri og meiri tíma fannst mér. Ég var að fjarlægjast fréttirnar sjálfar. Palli bauð mér að halda áfram; ég hélt launakjörunum sem ég var með, hann bauð mér að vera mjög frjáls í vinnu og ég fékk eiginlega þann díl sem enginn maður getur sagt „nei“ við: Þú mátt gera það sem þú vilt, þegar þú vilt, koma þegar þú vilt og fara þegar þú vilt. Skyldurnar voru að lesa fréttir. Hver slær hendinni á móti slíkum díl?“

Fórstu alveg ósáttur frá þeim leik?

„Auðvitað var þetta erfitt fyrst en mjög fljótlega áttaði ég mig á því að Ríkisútvarpið hafði bara gert mér mjög gott tilboð sem ég tók. Já, ég fór algjörlega ósár frá því.“

Og þú ert í dag stærri heldur en fréttastjóri; þú ert svolítið idol fyrir fréttirnar.

„Það verða aðrir að meta. Ég bara stend þarna og les fréttir og geri þetta eins vel og mér er kostur.“

Hann fór í grasrótina.

„Ég byrjaði hjá Ríkisútvarpinu til að skrifa fréttir, erlendar fréttir, og það hafði ég fjarlægst mjög. Það er enginn sem segir að maður sem er þokkalega góður í því að skrifa fréttir þurfi endilega að vera þokkalega góður stjórnandi. Ég held ég hafi ekki verið slæmur stjórnandi; það er annarra að dæma. Þarna allt í einu fór að verða ofsalega gaman að fara aftur í vinnuna.“

 

Það er bull

Stríðið í Úkraínu og Pútín berst í tal og segir Bogi að þetta gæti farið skelfilega.

„Við erum að tala um kjarnorkuveldi sem er undir stjórn manns sem margir hafa efasemdir um að sé heill á geðsmunum eða sé heill almennt. Og þetta er einræðisríki. Það er enginn sem getur mælt honum í móti og þetta er gríðarlega hættulegt ástand. Þetta getur ekki endað vel vegna þess að það hafa slíkir atburðir þegar gerst að þó að stríðið stöðvaðist á morgun þá væri það ekki góður endir. Það væri sá skásti af mögulegum endum á þessum átökum. En ég fæ ekki séð að Úkraínumenn sætti sig nokkru sinnu við það að missa yfir 20% af sínu landi. Ég fæ ekki séð með hvaða hætti Pútín getur sætt sig við annað heldur en það sem hann lýsti yfir að væru markmiðin frá upphafi, það er að segja að „frelsa“ Donbass-svæðið. Það er samt sem áður skásta niðurstaðan að átökunum linni og það verði hægt að semja um frið. En ég er mjög svartsýnn á að það verði hægt, því miður.

Ef það er eitthvað sem hefur eflt þjóðernisvitund Úkraínumanna þá er það þessi innrás Rússa.

Eitt af því sem þessi átök hafa leitt í ljós er það að þessi söguskoðun Pútíns um það að Úkraína sé í raun og veru ekki til, hún sé bara partur af Rússlandi, og Úkraínumenn, sérstaklega þeir sem hafa rússnesku að móðurmáli, séu í raun og veru Rússar: Það er bull. Yfirgnæfandi meirihluti Úkraínumanna, hvort sem þeir hafa rússnesku að móðurmáli eða ekki, hafa snúist til varnar. Ef það er eitthvað sem hefur eflt þjóðernisvitund Úkraínumanna þá er það þessi innrás Rússa.

Ég hélt að borgarastyrjöldlin í fyrrverandi Jógóslavíu væri undantekning vegna þess að þar var leyst úr læðingi ástand sem hafði verið fryst áratugum saman. Ég hélt að það væri undantekiningin sú skelfing sem gerðist þar. En að það yrði styrjöld í Evrópu á 21. öldinni hélt ég að væri ekki mögulegt. Maður batt vonir við það eftir fall Sovéríkjanna að Rússland yrði lýðræðisríki og myndi taka þátt í alþjóðlegri samvinnu en það var og er engin lýðræðishefð í Rússlandi. Það er greinilega þrá eftir einhverjum sterkum manni. Stalín er ennþá hafður í hávegum þar. Fyrir mér er Stalín ekki minni glæpamaður heldur en Adolf Hitler. Og ef eitthvað þá var hann verri.“

 

Ekkert tjón á hjartavöðvanum

Bogi hefur marga hitt á ferlinum og þar á meðal þjóðhöfðingja. Kónga og drottningar. Hann segir að stundum gangi þetta genetíska lotterí vel. „Það má segja að bæði Bretar og Danir hafi verið mjög heppnir með sína þjóðhöfðingja, sérstaklega Danir. Ég ber mikla virðingu fyrir Margréti Danadrottningu. Hún er mjög vel menntuð, mjög upplýst og hún er með reserveruð, sérstaklega fyrst þegar maður er að tala við hana. Þegar við vorum búin að tala saman í talsverðan tíma var hún orðin miklu afslappaðri.“

Og Margrét Danadrottning bauð Boga Ágústssyni sígarettu. Tyrkneska sígarettu.

„Ég reykti á þessum tíma þegar ég hitti hana fyrst. Þannig að ég fékk tyrkneska sígarettu. Það var býsna sterkt. Ég veit ekki hvort hún hafi verið að reykja það almennt eða ekki.“

Ég var hins vegar svo heppinn að ég fékk þetta heima hjá mér á föstudagskvöldi.

Bogi var hættur að reykja þegar hann fékk hjartaáfall á sínum tíma.

„Þetta er ættarsjúkdómur. Faðir minn var innan við fimmtugt þegar hann fékk kransæðastíflu. Hann var illu heili staddur fjarri allri læknishjálp. Hann var skipstjóri á Fjallfossi og staddur í Rúmeníu. Þetta var eftir ógnvænlega jarðskjálfta sem nánast lögðu Búkarest í rúst. Það höfðu allir læknar í hafnarborginni verið kallaðir til höfuðborgarinnar þannig að það var eiginlega enga læknishjálp að fá. Þannig að hann varð fyrir miklum skaða á hjartavöðvanum. Ég var hins vegar svo heppinn að ég fékk þetta heima hjá mér á föstudagskvöldi og þó þetta væru ekki þessi típísku einkenni kransæðastíflu þá þóttumst við konan mín nokkurn veginn vita hvað væri í gangi þannig að við hringdum á sjúkrabíl sem var kominn á innna við 10 mínútum og ég fékk meðferð einn, tveir og þrír. Ég var svo heppinn að það varð ekkert tjón á hjartavöðvanum í mér.“

Viðtalið má sjá hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -