Þriðjudagur 27. febrúar, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Börnin dæla í mig jákvæðum styrk“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Alma Geirdal greindist með brjóstakrabbamein aðeins 38 ára gömul. Eftir meðferð var hún krabbameinslaus í tæp tvo ár en þá greindist hún aftur og í þetta sinn er engin lækning. Alma hefur fengið uppgefinn tímann sem hún á eftir, hún er í líknandi lyfjameðferð á heimili sínu og segist kveðja sátt þegar kallið kemur. Í viðtali við Mannlíf ræðir hún baráttuna, fordómana sem hún verður fyrir í heilbrigðiskerfinu og krabbameinslyfið sem olli miklum kvölum og aukaverkunum, en gerði henni ekkert gagn.

Alma á þrjú börn sem búa nú öll hjá feðrum sínum, dóttur sem er tvítug og syni sem eru 16 og 11 ára. Einnig á hún tvö stjúpbörn, dóttur sem er 15 ára og son sem er 10 ára, sem unnustinn Guðmundur Sigvarðsson á. Börnin vita öll af veikindum Ölmu.

„Þau eru bara úr stáli, þetta eru sterkustu einstaklingar sem ég þekki og þau fara í gegnum þetta á einhverju sem ég veit ekki hvað er. Þau eru mömmu sinni mikið innanhandar og dæla í mig jákvæðum styrk,“ segir Alma og bætir við að hún hafi ráðfært sig við sálfræðing um hvað og hversu mikið börnin ættu að fá að vita um stöðuna. „Mér var ráðlagt að leyfa börnunum að vera þátttakendur og ekki leyna þau neinu, þau hlusta og þau vita. En samt að miða við þeirra aldur og þroska. Yngstu tveir synirnir þurfa til dæmis ekki að vita allt. En börnin sjá mig veika, sjá mig fara á spítala og verða að vita af hverju það er. Ég gæti ekki verið án barnanna, og þau eru mjög háð mér núna þegar ég er svona veik, ég finn að þau vilja ekki missa af tíma með mér.“

„Það er hryllingur að greinast svona ung, að eiga allt lífið fram undan og allt í einu að eiga það ekki fram undan.“

Aðspurð hvort hún eigi fleiri að í veikindum sínum svarar Alma að hún sé rosalega heppin með fjölskyldu sína, systkini sín fjögur og foreldra, og tengdafjölskyldu, og liðið hennar, eins og hún kallar þau, séu henni mjög sterkt stuðningsnet. „Þau eru rosalega dugleg að halda utan um mig, umhyggjan er svo mikil og ég þarf á henni að halda. Það er líka stór hópur af mökum systkina minna og börnum þeirra, og ég er heppin, ég er rosalega heppin kona. Mér finnst hrikalegt að hugsa til þeirra sem hafa ekkert bakland.“

Sjá einnig: „Mig langar ekki að deyja en ég verð að gera það með reisn“

„Dauðinn má ekki vera feimnismál“

- Auglýsing -

„Það er hryllingur að greinast svona ung, að eiga allt lífið fram undan og allt í einu að eiga það ekki fram undan. Það er bara hryllingur þegar ég á ung börn og stjúpbörn,“ segir Alma aðspurð um það hvernig sé að vera ung kona í blóma lífsins og greinast með krabbamein.

„Ég varð svo fegin frelsinu og svo vongóð þegar ég fékk þær fréttir að ég væri krabbameinsfrí eftir fyrra skiptið. Ég ætlaði einhvern veginn að gleypa lífið og ég gerði það. Ég náði því í fyrra að ferðast aðeins með börnin mín og er rosalega glöð yfir því. En það var eins og legðist svört þoka yfir það allt þegar ég greindist aftur. Og tíminn bara stöðvast þegar þú færð svona fréttir. Þess vegna langar mann að gera allt og upplifa allt og einhvern veginn lifa lífinu rosalega lifandi, en svo er fótunum kippt undan manni og ég hef hreinlega ekki orkuna.“

„Ég er komin með tímann, fjögur ár, aðeins skemur eða aðeins lengur, og það má segja frá því.“

Alma bætir við að í fyrri atrennu hafi hún verið fastagestur hjá bæði Krafti og Ljósinu, en núna sé hún einfaldlega of veik og skorti orku til að leita sér aðstoðar og félagsskapar þar. „Það er einhvern veginn þannig að þegar þú greinist með krabbamein, þá kynnistu fólki með krabbamein. Eftir að ég greindist hef ég misst vini úr krabbameini, maður horfir á eftir rosalega mörgum og mér finnst vera mikil aukning í því að ungt fólk greinist, sem er hryllingur.“

- Auglýsing -

Læknar hafa sagt Ölmu hvað hún eigi langt eftir ólifað og hún haggast ekki þegar hún segir blaðamanni frá því. „Ég vil ekki að það sé feimni við dauðann í þessu viðtali, bara alls ekki, ég fer sátt. Ég er komin með tímann, fjögur ár, aðeins skemur eða aðeins lengur, og það má segja frá því,“ segir Alma og bætir við að almennt þegar brjóstakrabbamein hefur dreift sér á þann hátt sem það hefur gert hjá henni séu fjögur ár tíminn sem gefinn er.

Sjá einnig: Alma var látin taka gagnslaust lyf í 18 mánuði

„Ég einblíni ekki á þessa dagsetningu en ég er rosalega raunsæ og mjög meðvituð um stöðuna, en ég hef tileinkað mér að lifa í núinu og lifa eftir núvitund og tel mig gera það vel. Ég hugleiði og er svona að passa upp á sálina og upp á mig,“ segir Alma og segir sitt mottó að gera það sem henni finnst gott og gaman, borða það sem henni finnst gott og njóta með börnunum, fjölskyldunni og unnustanum Gumma.

„Lífið hefur gefið mér mikið, ég hef upplifað margt, ég á yndisleg börn sem ég hef komið á legg, mjög sterka barnsfeður sem ég veit að munu hugsa vel um börnin mín, fjölskylda mín mun umvefja þau ást og ég hef ekki áhyggjur. Ég er náttúrlega skíthrædd við að deyja, mig langar ekki að deyja en ég verð að gera það með reisn og ég ætla að gera það.“

Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlíf.

Alma skrifar um baráttu sína í Facebook-hópnum: Alman vs. cancer. Þeir sem vilja styðja Ölmu geta lagt inn á reikning : 0130-05-064210, kennitala : 060979-3759.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -