Miðvikudagur 17. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafnar fullyrðingu Halldóru Baldursdóttir um að hann hafi brugðist dóttur hennar Helgu Elínu. Í 12. tölublaði Mannlífs, sem kom út á föstudag, gagnrýnir Halldóra embættið fyrir þá sök að maðurinn sem var kærður fyrir að brjóta kynferðislega gegn dóttur hennar skuli ekki hafa verið leystur undan vinnuskyldu á meðan málið var rannsakað.

Í andsvari sem Embætti ríkislögreglustjóra sendi ritstjórn Mannlífs segir að hann hafi farið þess á leit við ríkissaksóknara í tilefni af umfjöllun um málið í fjölmiðlum að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum og fékk því embættið ekki rannsóknargögn málsins. Þar sem beiðni um rannsóknargögn var synjað hafi ekki verið grundvöllur til að byggja á að mati embættisins hvort leysi ætti lögreglumanninn frá embætti og var ríkissaksóknara gerð grein fyrir því.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.

Í umræddu viðtali greinir Halldóra frá því að árið 2007 hafi dóttur hennar, Helgu Elínu sem þá var tíu ára gömul, verið boðið í sumarbústaðaferð með skólasystur sinni, móður hennar og stjúpföður. Í kjölfar þessarar ferðar urðu breytingar á hegðun Helgu en Halldóra tengdi þær ekki við ferðina. Fjórum árum eftir umrædda sumarbústaðaferð, þann 5. október 2011 var Halldóra boðuð á fund í skóla dóttur sinnar. Þar kom í ljós að dóttir hennar hafði trúað vinkonu sinni fyrir því að stjúpfaðir skólasystur þeirra hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi í sumarbústaðaferð fjórum árum áður.

Málið var strax sett í farveg, það kært til lögreglu og rannsókn hófst, en um það bil einu ári eftir að málið var kært var það fellt niður og gerir Halldóra ýmsar athugasemdir við rannsókn þess. Meðal annars að sakborningur, sem var starfandi lögreglumaður, hafi ekki verið leystur frá störfum meðan á rannsókn málsins stóð. Þá hafi hann á þessum tíma verið kærður fyrir brot gegn annarri stúlku og nokkru síðar á þriðju stúlkunni. Málin þrjú hafi ekki verið rannsökuð saman og maðurinn starfað áfram sem lögreglumaður meðan á öllum þessum rannsóknum stóð.

„Þegar málið kom upp sendi ég póst á þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu sem vísaði erindinu á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, sem algerlega brást okkur að mínu mati og vildi ekkert fyrir okkur gera. Mér datt nú stundum í hug lagið góða „Ekki benda á mig“ þegar ég var í samskiptum við þá. Það þarf virkilega að skoða hvernig lögreglan tekur á kynferðisbrotamálum ef sakborningurinn er lögreglumaður,“ segir Halldóra í fyrrnefndu viðtali, en það má lesa hér.

Andsvar embættis ríkislögreglustjóra í heild sinni:

„Ósk um birtingu andsvars vegna fyrirsagnar forsíðufréttar Mannlífs, föstudaginn 25. maí 2018, 12. tölublað, 2. árgangur sem og á heimasíðu Mannlífs, www.man.is, sbr. 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011

- Auglýsing -

Í dag 25. maí 2018 er birt á forsíðu Mannlífs, 12. tölublað, 2. árgangur sem og á heimasíðu Mannlífs, https://www.mannlif.is, viðtal undir fyrirsögninni „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“. Ábyrgðarmaður texta viðtalsins er tilgreind Ragnhildur Aðalsteinsdóttir.

Vegna þessa vill embætti ríkislögreglustjóra koma á framfæri eftirfarandi andsvörum með vísan til 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 og óskar að þeim verði komið á framfæri nú þegar á heimasíðu Mannlífs, www.man.is og í næsta tölublaði þess á prenti.

Fram til maímánaðar ársins 2014 fór ríkislögreglustjóri með skipunarvald hvað varðar aðra lögreglumenn en yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna, sem skipaðir voru af ráðherra, og fór því með skipunarvald lögreglumannsins sem um ræðir í umfjölluninni.

- Auglýsing -

Ákvörðun um að veita lausn frá störfum tímabundið eða endanlega, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 31. gr. laga nr. 70/1996 er skipunarvaldshafa. Um tímabundna lausn frá embætti um stundarsakir sem til álita gat komið í tilviki lögreglumannsins byggir á 2. málslið 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996. en þar segir efnislega með vísan til 1. málsliðar 3. mgr. að veita megi embættismanni lausn tímabundið ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga má, ef opinber starfsmaður fremur refsiverðan verknað, svipta í sakamáli á hendur honum réttinum til að rækja starfann ef hann telst ekki lengur verður eða hæfur til þess. Í ákvæðinu er ekki gerður greinarmunur á því hvort umræddur verknaður er framinn í starfi eða utan þess.

Embætti ríkislögreglustjóra fór þess á leit við ríkissaksóknara í tilefni af umfjöllun um málið í fjölmiðlum að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Embættið fékk fyrst fregnir af málinu í fjölmiðlum og átti frumkvæði af því að óska upplýsinga um málið frá ríkissaksóknara, en embættinu hafði ekki verið tilkynnt um málið. Ríkissaksóknari hafnaði erindi embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum og fékk því embættið ekki rannsóknargögn málsins.

Embætti ríkislögreglustjóra ítrekaði ósk sína um afhendingu allra gagna málsins og benti jafnframt á að synjun ríkissaksóknara væri stefnubreyting frá því sem áður hafði tíðkast um afhendingu gagna í kærumálum á hendur lögreglumönnum.

Þar sem embætti ríkislögreglustjóra var synjað um rannsóknargögn var ekki grundvöllur til að byggja á að mati embættisins ákvörðun samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um hvort leysa bæri lögreglumanninn frá embætti. Ríkissaksóknara var gerð grein fyrir þessu.

Þá er rétt að benda á að ríkar kröfur eru gerðar til stjórnvalda um vandaðan undirbúning og meðferð mála embættismanna sem lúta að lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Um það vísast meðal annars til laga nr. 70/ 1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, dóma Hæstaréttar Íslands og álita Umboðsmanns Alþingis.

Þá ritaði ríkislögreglustjóri innanríkisráðuneytinu bréf 21. nóvember 2011 vegna stefnubreytingar ríkissaksóknara, sem fram til þessa hafði haft heimild til og fengið aðgang að upplýsingum og gögnum sem embættið hafði talið nauðsynlegt til að rækja þessar embættisskyldur og innanríkisráðherra kynnt að sökum synjunar ríkissaksóknara væri ríkislögreglustjóra gert ómögulegt að gegna embættisskyldum sínum. Mál þetta var borið upp við innanríkisráðuneytið þar sem ákvörðun ríkissaksóknara hafi fordæmi varðandi önnur mál er kynnu að þarfnast ákvörðunar ríkislögreglustjóra og honum er að lögum skylt að fara með.

Þá skal tekið fram að vegna alvarleika málsins beindi embætti ríkislögreglustjóra því til þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, með bréfi 8. nóvember 2011, að meta hvort hann leysti lögreglumanninn undan vinnuskyldu, en það er á forræði lögreglustjóra að ákveða um tilfærslu í starfi og við hvaða verkefni lögreglumaður starfar. Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er greinarmunur á þessum úrræðum og því að leysa embættismann frá embætti. Þá fara lögreglustjórar með stjórn lögregluliðs, hver í sínu umdæmi. Þeir annast daglega stjórn og rekstur lögreglunnar í umdæminu og bera ábyrgð á framkvæmd lögreglustarfa innan þess.

Er þess óskað að komið verði á framfæri nú þegar andsvörum embættisins á heimasíðu Mannlífs og í næsta tölublaði þess, sbr. 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Með vísan til ofanritaðs er því hafnað að ríkislögreglustjóri hafi brugðist dóttur viðmælanda með þeim hætti sem fyrirsögnin gefur til kynna.

F.h. RLS

Thelma Cl. Þórðardóttir“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -