Þriðjudagur 10. september, 2024
4.7 C
Reykjavik

Dagný óttast dauðann vegna brjóstakrabbameins um þrítugt:,,Fór strax að jarða sjálfa mig í huganum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

,,Ég fór strax að jarða sjálfa mig í huganum um leið og læknirinn sagði mér að ég væri með krabbamein. Ég var komin með lagalistann fyrir jarðarförina og búin að setja krossinn á leiðið og allt saman,“ segir Dagný Ósk Vestmann, sem greindist með brjóstakrabbamein síðla árs 2017, þá þrítug að aldri. 

Golfkúla í brjóstinu

Dagný leitaði til læknis þegar hún fann fyrir hnút í öðru brjósti sínu en fékk ekki gott viðmót frá þeim lækni. Var hún talin vera móðursjúk og öllum líkum á brjóstakrabbameini vísað á bug. ,,Ég fór til læknis í ágúst árið 2017 af því að ég fann fyrir kúlu í brjóstinu á mér og fannst það skrýtið. Þetta var frekar stór kúla, eins og golfkúla, en læknirinn sagðist ekki finna þessa kúlu, sama hvað hann þreifaði. Það hlyti bara að vera að ég væri að fara byrja á blæðingum. Þetta væri pottþétt eitthvað hormónatengt, ekkert sem ég þyrfti að hafa áhyggjur af.“

Dagný var ekki jafn sannfærð og bað um að fá að komast að hjá einhverjum öðrum lækni sem kynni betur að þreifa og skima, og hefði meiri skilning fyrir áhyggjum hennar. Ekki var fallist á það. Læknirinn bauðst þó til þess að hringja í Dagnýju að tveimur vikum loknum til að ganga úr skugga um að hnúturinn hefði hjaðnað og horfið í kjölfar tíðahringsins. ,,Þegar þessi læknir hringdi þá ákvað ég bara að segja að kúlan væri farin, þó svo að hún væri þarna enþá. Ég nennti ekki að díla við þetta viðmót og þessa móðursýkis stimplun. Það var mjög heimskulegt af mér en ég ætlaði mér bara að fara til einhvers annars læknis.“ 

,,Ég fór strax að jarða sjálfa mig í huganum um leið og læknirinn sagði mér að ég væri með krabbamein. Ég var komin með lagalistann fyrir jarðarförina og búin að setja krossinn á leiðið og allt saman.“

Í fyrstu lét Dagný það ógert að komast að hjá öðrum lækni en þegar hún uppgötvaði að lögunin á hægra brjósti hennar hefði breyst þá leist henni ekki á blikuna. ,,Brjóstið á mér var orðið innfallið á hliðinni. Þá vissi ég að ekki var allt eins og það átti að vera. Ég sendi mömmu myndir og henni leist ekkert á þetta heldur og þróaðist það þannig að hún fékk tíma fyrir mig á Leitarstöðinni,“ segir Dagný. Þó nokkur bið var eftir tímanum hjá Leitarstöðinni en þann 12. desember var Dagnýju loks komið að í skoðun hjá lækni og myndatöku. ,,Þessi dagsetning, 12.12.17‘ er brennimerkt í heilann á mér,“ segir Dagný og leggur mikla á áherslu á orð sín. „Þegar læknirinn sá brjóstið á mér í fyrsta sinn þá vissi ég að þetta væri alvarlegt. Ég sá það á svipnum á honum og áttaði mig strax á því sjálf.“

,,Dóttir mín fékk ekki að vita neitt strax því ég vildi leyfa henni að eiga gleðileg jól – síðustu jólin með mömmu sinni því ég var náttúrulega búin að drepa sjálfa mig í hausnum á mér.“

Dagný segist hafa farið í ákveðinn hugarhræring á þessum tímapunkti og í þannig aðstæðum leiti hún oftast í húmorinn. ,,Honum fannst ég ekki fyndin á þessari stundu. Hann spurði mig hvort ég væri með sílikon og ég ákvað að blikka hann með frekar klúrum hætti og svaraði: Nei, en þakka þér fyrir að spyrja. Þetta var ekki staður og stund fyrir svona grín,“ segir Dagný og hlær. ,,Hann gerði svo ástungu á brjóstið, tók sýni til þess að senda í ræktun og sagði við mig að þetta væri alvarlegt. Ég ætti að hitta skurðlækni eftir viku og þá myndi ég fá fleiri upplýsingar,“ segir hún, og tekur fram að biðin eftir tímanum hjá skurðlækninum hafi verið þungbær. ,,Ég grenjaði stanslaust í þessa viku. Ég sá ekkert nema dauðann fyrir mér. Fann svo til með dóttur minni sem var að fara jarða mömmu sína þarna.“

- Auglýsing -
,,Ég grenjaði stanslaust í þessa viku. Ég sá ekkert nema dauðann fyrir mér. Fann svo til með dóttur minni sem var að fara jarða mömmu sína þarna.“

Jól frá helvíti

Dagný greinist með þriðja stigs, illkynja, hormónajákvætt krabbamein sem hafði dreift sér í eitla. Gaf það auga leið að hún þurfti að gangast undir aðgerðir og hefja lyfjameðferð með hraði. ,,Það er bara korter í jól þarna. Dóttir mín fékk ekki að vita neitt strax því ég vildi leyfa henni að eiga gleðileg jól – síðustu jólin með mömmu sinni því ég var náttúrulega búin að drepa sjálfa mig í hausnum á mér.“ Segir hún það hafa verið óbærilega erfitt að halda andliti fyrir framan Emilíu, dóttur sína, sem þá var átta ára gömul. ,,Ég grét stanslaust öll jólin, lá bara í fósturstellingunni og grét. Ég reyndi samt eins og ég gat að fela það fyrir henni. Þetta var ógeðslegasti tími lífs míns.“    

,,Ég grét stanslaust öll jólin, lá bara í fósturstellingunni og grét. Ég reyndi samt eins og ég gat að fela það fyrir henni. Þetta var ógeðslegasti tími lífs míns.“

Þegar Dagnýju var greint frá því hvers kyns krabbamein væri um að ræða þá var henni sagt að miklar líkur yrðu á ófrjósemi í kjölfar lyfjagjafarinnar. ,,Mér var bara bent á Livio strax. Upp á það að eiga möguleika á því að eignast fleiri börn. Það eru til dæmi um það að svona lyfjagjafir geti eyðilagt eggjastokkana þannig að frjósemin verður ekkert endilega til staðar eftir svona lyfjagjafir.“ 

„Eitthvað hlýt ég að hafa fyrst hann er enn með mér – kannski er ég bara svona góð í rúm… Æ, nei ég ætla ekki segja það!“

- Auglýsing -

Þar sem að krabbamein Dagnýjar var hormónajákvætt þá þurfti að gæta ýtrustu varúðar við hormónagjöfina. ,,Um leið eftir fyrsta tímann hjá Livio byrjaði ég strax í léttri hormónameðferð svo að  ég gæti farið í eggheimtu. En það mátti ekki gefa mér fullan skammt af hormónunum útaf krabbameininu því það hefði getað versnað á þessum stutta tíma áður en ég færi í aðgerðina til þess að fjarlægja brjóstið. Hormónin hefðu getað aukið vöxt á æxlinu og gert öllum erfiðara fyrir.“

86% líkur á brjóstakrabbameini með ríkjandi BRCA gen

Mánuði eftir greininguna gekkst Dagný undir brjóstnámsaðgerð á hægra brjósti, ásamt því að hefja geisla- og lyfjameðferð. Jólin voru því eini tíminn sem hún fékk til þess að undirbúa sjálfa sig fyrir átökin og segja aðstandendum sínum frá því sem var í vændum. ,,Í mínu tilfelli var ekki nóg að fjarlægja meinið, það var svo dreift.“ segir hún. ,,Svo kom það í ljós að ég væri með gallað gen, þetta svokallaða BRCA 2 gen. Ég hafði ekki hugmynd um það,“ segir Dagný. Mikil umræða hefur verið um BRCA genin en mörgum tilfellum ganga þau í erfðir. Stökkbreyting í BRCA genum getur stórlega aukið áhættuna á krabbameini. ,,Þetta gen er komið úr föðurfjölskyldunni minni, ég vissi það ekki þá en veit það núna. Ég fékk svo að vita að væru 86% líkur á því að ég fengi brjóstakrabbamein einhvern tímann á ævinni – það eru alveg rosalega miklar líkur.“ 

,,Mér fannst ég hræðileg. Ég þekkti ekki spegilmynd mína.“

Ekki nóg með að Dagný hafi greinst með brjóstakrabbamein sökum BRCA gensins, þá eru líkurnar á því að hún fái krabbamein í önnur líffæri ekki á neinu undanhaldi. ,,Það eru miklar líkur á að ég geti fengið eggjastokka og eggjaleiðara krabbamein líka,“ segir Dagný áhyggjufull á svip. Aðspurð segist Dagný ekki vera hrædd, en að hún hafi verið það í byrjun. ,,Núna er ég að njóta lífsins svo mikið að ég hef ekki tíma til þess að vera hrædd. En ég er samt svakalega hrædd við dauðann. Ég ætla mér ekki að deyja frá ungum börnum mínum. Ég er búin að berjast einu sinni og sigra – afhverju ætti ég ekki að geta gert það aftur?“ spyr Dagný sjálfa sig, enda baráttukona mikil.

,,Núna er ég að njóta lífsins svo mikið að ég hef ekki tíma til þess að vera hrædd. En ég er samt svakalega hrædd við dauðann. Ég ætla mér ekki að deyja frá ungum börnum mínum.“

Þrúgandi þunglyndi og vanlíðan

,,Sterarnir fóru rosalega illa í mig,“ segir Dagný ,,ég var svo leiðinleg, svo pirruð og reið og orðljót. Mér leið bara svo illa. Ég get enn ekki skilið afhverju maðurinn minn fór ekki bara frá mér á þessum tíma. Ég var ekki alltaf yndisleg við hann.“ Dagný segir að Kristinn Bjarki Hjaltason, maður hennar, hafi umvafið hana kærleik og staðið þétt við bak hennar í gegnum veikindin. ,,Hann er svo dýrmætur þessi maður. Algjör klettur. Ég grét stöðugt, sagði ljóta hluti, leit hræðilega út og leið hörmulega. Ég hefði skilið það svo vel ef hann hefði bara farið, bara labbað út frá mér. En guð almáttugur hvað ég er þakklát fyrir hann. Eitthvað hlýt ég að hafa fyrst hann er enn með mér – kannski er ég bara svona góð í rúm… Æ, nei ég ætla ekki segja það!“ segir Dagný, og skellir upp úr. 

Dagný viðurkennir að hafa týnt andlegu heilsunni sinni í kjölfar veikindanna, enda samspil á milli líkamlegrar og andlegrar heilsu oft nátengt. ,,Ég var ólík sjálfri mér þarna. Og eins galið og það hljómar þá fannst mér einhvern veginn eins og Kiddi ætti að kveljast með mér. Við vorum að ganga í gegnum þetta saman og hann átti líka að þjást. Hálfpartinn beitti ég hann andlegu ofbeldi þarna.“ Hún segist hafa verið meðvituð um þessa andlegu kvilla og talað um þá við áfallteymi. ,,Sálfræðingarnir sem ég talaði við sögðu allir að þetta væru eðlileg viðbrögð og við Kiddi unnum bara úr þessu. Enda bæði með breitt bak. Allt þetta hefur styrkt samband okkar svo um munar.“

Fjölskyldan hefur staðið þétt saman í gegnum veikindi Dagnýjar.

Bæði brjóstin farin 

,,Mér fannst ég hræðileg. Ég þekkti ekki spegilmynd mína,“ segir Dagný, en seinni brjóstnámsaðgerð var framkvæmd á henni í september 2019. ,,Það líða alveg átta mánuðir á milli aðgerða en svo byrjar ákveðið uppbyggingarferli.“ Dagný talar um mikilvægi sjálfsins. ,,Að vera sköllótt, ekki með brjóst, ekki með augnhár, ekki með augabrúnir og bjúguð af sterum – ég gat ekki séð mig svona. Mér fannst ég hafa misst allan kvenleikann. Það hjálpaði ekki andlegu hliðinni að líða svona með sjálfa sig,“ segir hún. ,,Kiddi var alltaf duglegur að hrósa mér og segja mér hvað honum þótti ég sæt. Og svo hughreysti hann mig endalaust með því að telja mér trú um að þetta væri bara tímabil. Ég fór að trúa því líka.“ 

„Þegar læknirinn sá brjóstið á mér í fyrsta sinn þá vissi ég að þetta væri alvarlegt. Ég sá það á svipnum á honum og áttaði mig strax á því sjálf.“

Vefjaþenjurum var komið fyrir í brjóstholi Dagnýjar ásamt því að teknir voru vöðvar úr baki hennar til þess að hægt væri að endurlaga á hana brjóst. ,,Vefjaþenjarar blása upp svæðið og svo er sprautað inn saltvatni til þess að búa til lögunina. Brjóstin eru samt ekki með neina virkni, ég er ekki með brjóstvefi, geirvörtur eða neitt svoleiðis, og verð aldrei með aftur.“ 

Í maí 2020 fór Dagný í svokallaða skiptiaðgerð. ,,Þá eru vefjaþenjararnir teknir. Það er í raun síðasta aðgerðin í ferlinu. Og ég lifði af!“ Með öllu réttu hefði Dagný átt að fara í sílikon fyllingu í kjölfar skiptiaðgerðarinnar en heimsfaraldurinn stóð í vegi fyrir því. ,,Það kom Covid og allt frestaðist. Þegar ég fór svo og hitti læknirinn minn var ég gjörsamlega á steypirnum!“

Draumur í dós 

Dagný hafði efast allan tímann um frjósemi sína á meðan á veikindunum stóð, en þráði að geta eignast annað barn í framtíðinni. ,,Tilhugsunin um það að mega ekki reyna að eignast barn gat gert mig brjálaða. Ég vil ekki að heilbrigðiskerfið stjórni lífi mínu og hvenær ég má eignast börn. Kannski langsótt að klína þessu á kerfið en ég þarf að vera á andhormónalyfjum í tíu ár! Ég er 34 ára og er bara að renna út á tíma hérna sko!“ segir Dagný kímin.

,,Að vera sköllótt, ekki með brjóst, ekki með augnhár, ekki með augabrúnir og bjúguð af sterum – ég gat ekki séð mig svona. Mér fannst ég hafa misst allan kvenleikann.“

,,Ég var sett á þessa andhormónameðferð þarna í byrjun og var líka á hamlandi eggjastokkameðferð. En ég fékk leyfi í febrúar fyrra til þess að hætta á lyfjunum í eitt ár,“ útskýrir Dagný. Þar með var Dagnýju og Kidda gefið tækifæri á því að reyna að eignast barn. ,,Ég tek síðustu töflurnar 23. febrúar 2020 og bíð eftir því að byrja á blæðingum og vona á meðan að allt kerfið virki, þó svo að ég hafði miklar efasemdir um það því það er ekki sjálfgefið.“

Tíminn leið og beið og í júní hafði tíðarhringur Dagnýjar ekki enn hafist. ,,Það var bara ekkert að gerast. Við vorum farin að undirbúa okkur í að fara í bankann til að setja upp eggin og fjármagna það ferli,“ segir Dagný og tekur það fram að Covid faraldurinn hafi dregið það á langinn að hún kæmist að hjá læknum, hún var orðin  verulega óþreyjufull. ,,Þegar ég fæ svo loksins tíma hjá Livio þá er ég beðin um að leggjast á bekkinn og er skoðuð í bak fyrir. Hvað kemur í ljós – ÉG ER ÓFRÍSK!“ segir hún hárri röddu og gleðin leynir sér ekki. ,,Ég er bara komin ellefu vikur á leið og hafði ekki hugmynd um það. Þetta var mesta gleðistund lífs míns. Ég grét hamingjutárum allan daginn,“ segir hún, og báðar þerrum við tár á hvörmum okkar eftir þessa tilfinningamiklu frásögn.

„Þetta var frekar stór kúla, eins og golfkúla, en læknirinn sagðist ekki finna þessa kúlu, sama hvað hann þreifaði.

,,Litli kraftaverkakarlinn okkar hann Kristófer Hjalti kom svo í heiminn 5. janúar 2021. Svo tilbúinn. Og við alveg jafn tilbúin fyrir hann. Karmað gaf okkur kraftaverk í skiptum fyrir allt erfiðið,“ segir Dagný sannfærandi. Þar sem Dagný er ekki lengur með sín náttúrulegu brjóst þarf litli drengurinn að fá pelamjólk í stað móðurmjólkur. ,,Það vissu allar ljósmæður og aðrir á fæðingardeildinni af minni sögu og því fékk hann mjólk að drekka úr sprautu um leið og hann kom úr móðurkviði. Það var ekkert mál. Hann er draumabarn.“  

,Dóttir mín fékk ekki að vita neitt strax því ég vildi leyfa henni að eiga gleðileg jól – síðustu jólin með mömmu sinni því ég var náttúrulega búin að drepa sjálfa mig í hausnum á mér.“

Hvetur konur til að vera samkvæmar sjálfum sér    

,,Þreifið, þuklið, þreifið og þuklið elsku konur,“ segir Dagný og bendir á mikilvægi þess að konur séu meðvitaðar um brjóst sín. Dagný segir að allar konur séu í áhættu og að margar þeirra greinist ungar að árum. Hún vonar að heilbrigðisyfirvöld sjái sóma sinn í því að lækka aldur kvenna til þess að vera gjaldgengar í skimanir fyrir brjóstakrabbameini. ,,Ekki vera hræddar við móðursýkis mótlætið. Verið samkvæmar ykkur, þið þekkið ykkur best,“ segir sigurvegarinn að lokum.  

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -