Hulda með riffil hlaðinn af ótta við bjarndýr: ,,Ég hefði aldrei hitt en það er sama!“ FYRRI HLUTI

top augl

Árið 1951 flutti Hulda Eggertsdóttir sextán ára gömul með manni sínum Þorkeli Sigmundssyni í Hornvík á Ströndum. Árið 1947 höfðu síðustu ábúendurnir yfirgefið hreppinn  og því voru þau ein um búskap þegar þau bar að garði. Næsta byggða ból var Hornbjargsviti við Látravík.

Aðdragandinn var sá að Hulda hafði farið sem ráðskona með svokölluðum eggjaköllum sem sóttu sér egg í bjargið við Hornvík. Þeir höfðu stundað eggjatöku þarna áður og ákváðu að halda eggjatökunni áfram þrátt fyrir að búskapur væri þar enginn lengur.

Þarna kynntist hún manninum sínum sem var einn af eggjaköllunum. Árið 1950 fer parið svo saman í heimsókn á Hornbjargsvita við Látravík þar sem systir manns hennar og mágur voru vitaverðir. Þau lentu í því að það gerði brjálað veður með þeim afleiðingum að vitaskipið sem átti að færa þeim vistir get ekki lent í víkinni.

Maðurinn hennar, sem þá var reyndar kærastinn hennar, fór ásamt vitaverðinum út á Horn til að sækja bráðabirgðavistir. Hún gleymir því aldrei hvaða fjórir hlutir voru til í búrinu en það var strásykur, haframjöl, lýsi og litað sykurvatn. Veðrið var svo vont að það var ekki hægt að fara út á sjó til að sækja fugl eða fisk en þó tókst manni Huldu að komast upp á Axarfjall og skaut þar máf. Þau plokkuðu hann, sviðu, suðu og höfðu hann í súpu en í minningunni var þetta alveg æðislegt.

Þau finna svo sex eða sjö ára gamalt hangikjötslæri sem þau ákváðu að sjóða og plokka svo utan af því en það kunni ekki góðri lukku að stýra því, viti menn, þau fengu öll í magann!

Eftir þessa lífsreynslu hefur Hulda alla tíð þurft að eiga til birgðir af mat og verandi ein í búi hefur hún tvær fullar frystikistur sem hún áætlar að gæti enst henni í mánuði eða ár en þessi siður hefur gengið í erfðir því börnin hennar hafa allar kistur fullar að hennar fordæmi.

Þarna í óveðrinu kemur upp hugmyndin að flytja að Horni en Pétur mágur hennar spyr þau, unga parið, hvort þau vilji ekki bara flytja að Horni í hús hans og systur Huldu. Hún svaraði því að það gæti verið gaman að reyna það í einn vetur og þrátt fyrir að mágur hennar efaðist um að þau þyrðu því tóku þau ákvörðunina og fluttu.

Þau fluttu með sér eitthvað af fé og eina gráa kýr með skipi. Hún kveið því einna mest að þurfa að koma kúnni af skipinu og í land. Þau áttu eina skektu fyrir vestan sem maðurinn hennar hafði smíðað. Hún hafði áhyggjur af því að hún bæri ekki beljuna því skektan var þung og sá fyrir sér havarí þegar skektan tæki niður í fjörunni. Kúnni var slakað um borð í skektuna og henni haldið með þverböndum en þegar hún kom að landi nánast því stökk dýrið í land því hún hafði fengið alveg nóg af atganginum.

Um vorið réðu þau til sín Konna bróðir Huldu sem kúasmala, en hann var þá níu ára. Konni þessi varð svo betur þekktur síðar sem Hrefnu-Konni. Eitt sunnudagshádegið lögðu þau sig öll þrjú en þegar þau svo vakna finna þau hvergi beljuna. Þau fóru að leita um allt en hún var hvergi sjáanleg. Beljan fannst svo nokkuð hrakin á tíunda degi leitar við fjallið Snók sem er í um tíu kílómetra fjarlægð til suðurs en hún hafði þá allan tímann verið á réttri leið til síns fyrra heimilis.

Hulda óttaðist alltaf bjarndýrin en eitt skiptið þegar hún sat inni með köttinn í fanginu að hlusta á Helga Hjörvar lesa framhaldssöguna ,,Ferðin til El Doradó“ í útvarpinu, maðurinn hennar úti í fjósi að mjólka og víkin orðin full af hafís heyrir hún þetta ógurlega öskur. Hún hugsaði með sér að nú væri komið bjarndýr! Hún þreif þá lampann og óð út með köttinn í fanginu en þá er maður hennar að koma út úr fjósinu og spurði hana hvort hún hafði heyrt þetta en minna mátti það vera því lætin voru svo mikil að beljan hentist undir básinn. Stuttu síðar kom svo annað öskur en ekki eins hátt. Þau fengu aldrei botn í þessi hljóð og hvort þetta voru hljóð frá hafísnum eða hvort um bjarndýr væri að ræða gátu þau ekki fullyrt um. Eftir þetta var hún alltaf með hlaðinn riffilinn en hún efast um að hún hefði nokkurn tímann getað grandað bjarndýri.  ,,Ég hefði náttúrulega aldrei hitt því ég hefði verið alveg skjálfandi ef bjarndýr hefði komið en það er sama!“.

Þetta er fyrri hluti viðtals Reynis Traustasonar við Huldu. Seinni hlutinn birtist eftir viku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni