Mánudagur 17. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Eina spurningin sem ég fékk ekki svar við var: „Hvar er mamma núna?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Arnar Sveinn Geirsson hefur á síðustu misserum vakið athygli fyrir skrif um foreldramissi en sjálfur varð hann fyrir því að missa móður sína aðeins ellefu ára gamall.

„Mamma dó í maí árið 2003 eftir í senn langa en snarpa baráttu við krabbamein ef svo má segja. Hún var aldrei lengi á spítala eða mikið sjáanlega veik þannig að ég man ekki mikið eftir henni mjög veikri, helst svona tvær síðustu vikurnar áður en hún dó. Hún greindist fyrst 1993, þegar ég var tveggja ára, af brjóstakrabba og læknaðist af honum en veiktist svo aftur 1998 og glímdi við það mein þar til hún féll frá,“ segir Arnar.

Óvissa býr til ótta

Arnar segir að vissulega hafi hann verið ungur þegar þetta gerðist en svo hafi hann farið að átta sig á því í seinni tíð að börn viti og geri sér meira grein fyrir hvað sé í gangi en aðrir halda. „Auðvitað kunni ég ekkert að tjá mig ellefu ára gamall eins og á þurfti að halda en ég fann samt leiðir. Maður vissi hvað var að gerast, hvað það þýddi að mamma væri dáin sem var auðvitað gríðarlegt áfall.

Það góða var að það var hægt að svara öllum mínum spurningum. Svara því af hverju mamma dó. Hvort allt hafi verið reynt. Hvar hún yrði jörðuð. Og öllum slíkum spurningum sem á mann sækja, nema þessari einu stóru: Hvar er mamma núna? Það var ekki hægt að svara þeirri spurningu.

„… það sem gerðist hjá mér í þessu er að það var hægt að svara öllum mínum spurningum. Svara því af hverju mamma dó. Hvort allt hafi verið reynt. Hvar hún yrði jörðuð. Og öllum slíkum spurningum sem á mann sækja, nema þessari einu stóru: Hvar er mamma núna?“

Einhver sagði að hún væri á himnum, annar að hún væri með englunum eða að hún væri búin að fæðast aftur og þannig má áfram telja. Allt í einu fóru sem sagt að koma ólík og óljós svör og við það myndaðist ákveðin óvissa sem síðan byrjaði að naga mann. Það leiddi til ótta því maður hræðist það sem maður ekki veit eða skilur. Þetta bjó það heldur betur til hjá mér og þessi hræðsla við dauðann magnaðist svo með árunum. En svo kom að því fyrir rúmu ári síðan að ég lenti loksins á vegg sem ég gat ekki brotið niður. Þegar sú sjálfsvinna byrjaði þá kom ýmislegt í ljós og margir hlutir urðu skýrari en þeir voru áður.“

Setti á mig pressu

- Auglýsing -

Arnar Sveinn segir að hann hafi vissulega fengið aðstoð þegar móðir hans féll frá. „Pabbi gerði allt sem honum datt í hug og fór bæði hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir í þeim efnum. Bara til þess að reyna að finna einhverja leið til þess að hjálpa mér því það var svolítið skrítið hvað ég var sterkur og glaður þrátt fyrir þetta allt. Það var bara leið sem ég ákvað að fara algjörlega ómeðvitað, sá fyrir mér að svona kæmist ég í gegnum þetta, af því að ég var einfaldlega ekki tilbúinn á þeim tíma.“

Arnar Sveinn Geirsson hefur vakið athygli fyrir skrif um foreldramissi.

Aðspurður um hvers vegna Arnar Sveinn hafi svo valið að tjá sig opinberlega um móðurmissinn segir hann að eftir tíma hjá sálfræðingi í upphafi síðasta árs hafi eitthvað gerst.

„Þetta var magnaður tími. Ég var á einhvern hátt tilbúinn á þessum tímapunkti og út frá því byrjaði ég að rekast á alls konar hindranir sem ég vissi ekki áður að væru þarna. Hvort sem það var sorg, söknuður eða samviskubit. Mér hefur alltaf þótt gott að skrifa um það sem ég hugsa og á gott með koma hugsunum mínum frá mér í rituðu máli. Þannig að ég fór þá leið, þegar ég fór að finna fyrir ákveðnum tilfinningum, að ég reyndi að setja þær niður á blað. Fór svo með þessi skrif til sálfræðingsins og henni fannst þetta það gott að hún bað mig um leyfi til þess að fá að sýna sínum skjólstæðingum þetta en að sjálfsögðu nafnlaust. Það fannst mér sjálfsagt og fór þá að hugsa að kannski væru einhverjir þarna úti sem væru kannski ekki komnir á þennan stað sem gætu notið góðs af þessu. Svo var það líka keppnismaðurinn í mér sem neitaði alfarið að snúa til baka. Nú væri ég farinn af stað og með því að gera þetta opinberlega setti ég á mig þá pressu sem til þurfti til þess að halda áfram að fara fram á við.“

- Auglýsing -

Ætlaði að vera glaður og sterkur

Arnar Sveinn bendir á að þetta sé engu að síður vegferð sem haldi alltaf áfram. „Þetta er bara lífið. Ekki bara ferð frá a til b og það er eitthvað sem ég er alveg búinn að sætta mig við og er í raun ánægður með. Ég er alltaf að fara á nýja og nýja staði og upplifa eitthvað nýtt. Finna einhverjar tilfinningar sem ég hef ekki fundið áður. Ef svo kemur að því að ég eignist börn þá er ég viss um að þar komi fullt af nýjum stöðum sem muni rifja upp allskonar minningar og tengingar.“

Hann segir að staðurinn sem hann sé á núna sé bara óskaplega góður miðað við þann sem hann var á fyrir rúmu ári síðan. „Það er hreint ótrúlegt hvað það hefur margt gerst á þessu ári miðað við árin á undan. Það finnst mér alveg magnað, hversu langt maður getur farið á skömmum tíma þegar maður virkilega leyfir sér það. Gefur sér tækifæri til þess að vera sá sem maður er en ekki fyrir fram ákveðin persóna sem maður hefur ákveðið að vera.

„Ég ætlaði bara að vera jákvæður, glaður og sterkur, sama hvað, en komst síðan að því á erfiðan hátt að það er ekki hægt. Það er ekki hægt að velja sér bara það góða.“

Ég ætlaði bara að vera jákvæður, glaður og sterkur, sama hvað, en komst síðan að því á erfiðan hátt að það er ekki hægt. Það er ekki hægt að velja sér bara það góða. Til þess að vera hamingjusamur, að mínu mati núna í hið minnsta, þarf allt að vera til staður. Þú ert ekki hamingjusamur nema að þú verðir líka stundum fúll, reiður eða líði illa. Lífið er bara þannig. Staðan á mér er því þannig að ég er bara góður en á nóg inni.“

Sjá einnig: „ Þetta er ólæknandi sjúkdómur og ég vill að mínir nánustu geti rætt þetta“

Sjá einnig: „Það er enginn sem grípur mann“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -