Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Gagnrýnir „meðvirkni og aðgerðarleysi“ yfirvalda vegna skuldasöfnunar WOW 

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Afleiðingar þessarar meðvirkni og aðgerðaleysis urðu þær að íslensk heimili, skattborgarar og lífeyrisþegar urðu fyrir búsifjum sem í sumum tilfellum fólk er enn að glíma við,“ sagði Jón Þór Þorvaldsson, þingmaður Miðflokksins, um aðdraganda falls WOW, í fyrirspurnatíma Alþingis í gær.

 

Þingmaðurinn beindi fyrirspurn til fjármálaráðherra. „Hefur eða hafði Isavia ohf. heimildir til að gefa einstökum flugrekendum greiðslufresti eða sérkjör á til að mynda lendingargjöldum eða þjónustugjöldum og þar með samkeppnisforskot á frjálsum markaði Evrópska efnahagssvæðisins eða með því að innheimta ekki þær skuldir sem eru þó almannafé? Ef svo er, hverjar eru þær heimildir nákvæmlega og hvar eiga þær heimildir sér stað í lögum eða reglugerðum? Hver er til þess bær að veita slíkar heimildir?“ spurði þingmaðurinn fjármálaráðherra.

Að auki spurði hann ráðherra hvort hann eða aðrir ráðherrar hafi haft upplýsyingar um aðgerðir eða aðgerðarleysi opinberra eftirlitsaðila, eins og Samgöngustofu eða rekstraraðila eins og Isavia.

Isavia er hlutafélag sem starfar á viðskiptalegum forsendum. Það er ekki Isavia sem gefur út rekstrarleyfi flugfélaga. Það er ekki skilyrði fyrir starfsemi flugfélags að Isavia hafi þurft að koma þar að málum. Og það er ekki Isavia sem tekur ákvörðun um að félagið lendi í greiðsluerfiðleikum með skuldbindingar sínar, heldur er Isavia, eins og margir og allir aðrir kröfuhafar flugfélagsins sem í hlut á, í viðskiptum við það á viðskiptalegum forsendum,“ svaraði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Heimildir Isavía sé að finna í rekstrarforminu. „Mér er ekki kunnugt um annað en að ákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórn Isavia byggi á viðskiptalegum forsendum,“ svaraði ráðherra. „Ég vil halda því til haga hér að hagkerfið allt verður fyrir áhrifum af því að þetta flugfélag hætti starfsemi. En hagkerfið hefur á sama tíma notið mjög góðs af bæði samkeppninni sem verið hefur í flugrekstri til landsins og síðan af umsvifum félagsins. Stjórnvöld hafa fylgst mjög vel með, bæði á vettvangi ráðherranefnda en einnig ráðherrar á sínu fagsviði eftir því sem efni hafa staðið til, allt frá því að í ljós kom að félagið átti í erfiðleikum með að fjármagna sig í gegnum skuldabréfaútboð síðastliðið haust.“

Jón Þór brást við þessu með ábendingu um að ef fyrirtæki sé í rekstri og fái samkeppnisforskot á þessum forsendum geti það skaðað önnur fyrirtæki. „Í þessu tilfelli þá varð vissulega mikið af fólki fyrir búsifjum, starfsfólk flugfélagsins, hugsanlega skattgreiðendur (Forseti hringir.) og síðast en ekki síst ríkissjóður. Til að mynda má nefna að opinber gjöld eins og lífeyrisgreiðslur höfðu ekki borist síðustu mánuði fyrir fall félagsins.“

- Auglýsing -

Bjarni sagðist ekki í aðstöðu til að fella endanlegan dóm um það hvort ávalt hafi verið tekin rétt ákvörðun á öllum stigum málsins. Hann benti á að Samgöngustofa heyri ekki undir sitt ráðuneyti og að stjórn Isavía sé með sjálfstæða stjórn. Fjármálaráðuneytið er handhafi hlutabréfa í Isavia.

„En það sem ég hef þó séð tel ég að hafi allt verið málefnalegt og reist á réttum grunni. Annars vegar hefur Samgöngustofa, eins og ég sé það, sagt sem svo að sú staða sem upp var komin hefði kallað á mjög náið eftirlit með starfseminni. Það var nánast andað niður um hálsmálið á fjármálastjóra félagsins og forstjóra um það nákvæmlega hver staðan væri á hverjum tíma og það þurfti að vera til staðar trúverðug áætlun um að vinna bug á því ástandi til að rekstrarleyfinu væri ekki kippt úr sambandi. Það var matsatriði á hverjum tíma sem iðulega var uppfært. (Forseti hringir.) Fyrir Isavia var það í raun sama, það þurfti að vera einhver áætlun um hvernig ætti að endurgreiða þá skuld sem var að byggjast upp (Forseti hringir.) og félagið þurfti að taka viðskiptalega ákvörðun um það hvort menn vildu starfa samkvæmt þeirri áætlun eða ekki,“ sagði Fjármálaráðherra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -