Fimmtudagur 25. júlí, 2024
11.8 C
Reykjavik

„Galdramaðurinn“ Bibi berst fyrir pólitísku lífi sínu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hart er sótt að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, að segja af sér eftir að lögregluyfirvöld í landinu mæltust til þess að hann yrði ákærður fyrir mútuþægni og spillingu. Samhliða þessum ásökunum reynir Netanyahu að halda lífi í ríkisstjórn sinni sem þykir mjög völt eftir að varnarmálaráðherra landsins sagði af sér á dögunum.

Þetta er í þriðja skipti á þessu ári sem lögregla mælist til þess að Netanyahu verði ákærður en endanleg ákvörðun liggur hjá saksóknara. Er Netanyahu gefið að sök að hafa sérsniðið reglur á markaði til að hygla fjarskiptafyrirtækinu Bezeq sem er í eigu náins fjölskylduvinar. Í staðinn var Netanyahu lofað að vinsæll netmiðill í eigu Bezeq myndi fjalla um hann og Söru eiginkonu hans á jákvæðum nótum.

Sjálfur harðneitar Netanyahu ásökunum á hendur sér og segir tilmæli lögreglu ekki hafa neitt gildi.

Sjálfur harðneitar Netanyahu ásökunum á hendur sér og segir tilmæli lögreglu ekki hafa neitt gildi. Þetta mál og önnur séu runnin undan rifjum pólitískra andstæðinga sinna sem geti ekki sigrað hann í kosningum. Atburðir vikunnar auka þó líkurnar á því að boðað verði til kosninga fljótlega. Fimm flokka samsteypustjórn Netanyahus var að falli komin um miðjan nóvember eftir að varnarmálaráðherrann Avigdor Lieberman sagði af sér og skildi ríkisstjórnina eftir með aðeins eins þingmanns meirihluta á þingi. Harðlínuflokkurinn Jewish Home krafðist þess í kjölfarið að fá varnarmálin í sínar hendur, að öðrum kosti myndi hann ganga úr ríkisstjórn. Netanyahu náði að halda stjórninni saman, á bláþræði þó. Í umfjöllun Jerusalem Post um málið segir að þetta sé alvarlegasta atlagan að Netanyahu til þessa og að ákvörðun saksóknara, hvort sem hann ákveði að ákæra eða ekki, geti haft varanleg áhrif á ísraelsk stjórnmál.

Spillingarmálin hrannast upp
Benjamin Netanyahu, eða „Bibi“ eins og hann er oft kallaður, fékk viðurnefnið „galdramaðurinn“ snemma á stjórnmálaferli sínum vegna hæfileika sinna til að koma sér út úr erfiðum málum þótt heldur hafi gengið á inneignina í seinni tíð. Í þau skipti sem ásakanir um spillingu beinast ekki að honum hafa þær beinst að eiginkonu hans, Söru. Lúxuslífsstíll hennar hefur alloft valdi hneykslan, samanber þegar hún lét skrifstofu forsætisráðherrans borga sem nemur 12 milljónum króna í mat fyrir sig og fjölskyldu sína. Matinn pantaði hún frá frægustu kokkum Ísraels þrátt fyrir að hafa einkakokk til umráða. Nafn Söru kemur oftar en ekki fyrir í rannsóknum lögreglu.

Í fyrra málinu þáðu forsætisráðherrahjónin gjafir fyrir þúsundir dollara frá Hollywood-framleiðandanum Arnon Milchan og austurríska milljarðamæringnum James Packer.

Vindlar, skartgripir og kampavín
Í febrúar mæltist lögreglan til að Netanyahu yrði ákærður í tveimur aðskildum spillingarmálum.

Hjónin þáðu meðal annars vindla, skartgripi og kampavín í boði þeirra Milchan og Packer. Í staðinn lagði Netanyahu til að framlengja skattaívilnanir til handa brottfluttum Ísraelum sem Milchan hefði hagnast persónulega á. Fjármálaráðuneytið stöðvaði fyrirætlanir Netanyahus og sagði ekkert vit í þeim. Í síðara málinu voru birtar upptökur þar sem Netanyahu ræddi við útgefanda dagblaðs sem vildi að forsætisráðherrann beitti sér fyrir því að hann takmarkaði útbreiðslu helsta samkeppnisaðilans. Í staðinn áttu Netanyahu og eiginkona hans að fá jákvæða umfjöllun.

Heltekin af jákvæðri fjölmiðlaumfjöllun
Í þriðja og nýjasta spillingarmálinu er Netanyahu sakaður um að hafa á árunum 2014 til 2017, á þeim tíma sem hann gegndi embætti fjarskiptaráðherra samhliða forsætisráðherra, aðstoðað vin sinn og eiganda Bezeq við að yfirtaka samkeppnisaðilann Yes. Bezeq greiddi margfalt yfirverð fyrir Yes en gerði jafnframt eiganda Bezeq kleift að stinga tugum milljóna dollara í vasann, meðal annars fyrir tilstilli ákvarðana sem teknar voru af Netanyahu. Fyrir vikið fjallaði netmiðillinn Walla ítrekað um Netanyahu og eiginkonu hans í jákvæðu ljósi. Hafa bæði núverandi og fyrrverandi blaðamenn miðilsins upplýst hvernig fréttum sem þóttu ekki nægilega jákvæðar var breytt eða þær hreinlega fjarlægðar.

- Auglýsing -
Í þau skipti sem ásakanir um spillingu beinast ekki að Netanyahu hafa þær beinst að eiginkonu hans, Söru.

Málin sem ekki var ákært fyrir
Þau eru fleiri spillingarmálin sem forsætisráðherrann hefur verið bendlaður við en enduðu ekki með ákæru. Einn ráðgjafa hans var grunaður um að hafa mútað dómara til að fá rannsókn á Söru Netanyahu fellda niður. Málið var fellt niður í október vegna skorts á sönnunargögnum. Í öðru máli var persónulegur lögmaður Netanyahus og frændi, ásamt þremur öðrum úr innsta hring hans, ákærðir fyrir mútuþægni í tengslum við milljarða kaup á bátum og kafbátum frá Þýskalandi. Netanyahu slapp við ákæru en var yfirheyrður í tengslum við málið.

Fleyg ummæli

„Netanyahu og félagar hans skiptu sér ítrekað og augljóslega af því efni sem birtist á vefsíðu Walla News og leituðust við að hafa áhrif á ráðningar æðstu starfsmanna (ritstjóra og blaðamanna).“
Úr yfirlýsingu lögreglunnar í tengslum við þriðja spillingarmálið.

- Auglýsing -

„Það verður ekkert því það er ekkert.“
Benjamin Netanyahu býst ekki við neinum ákærum þótt lögregla hafi mælt með því.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -